Eiturefnið á Akureyri enn óþekkt

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Ljósmynd/Slökkvilið Akureyrar

Ekki er enn búið að greina eiturefni það sem lak á gólf Endurvinnslunnar á Akureyri í gær.

Aðalsteinn Júlíusson, hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, segir við mbl.is að um lítið magn hafi verið að ræða. Lekinn atvikaðist þannig að starfsfólk var að tæma litla vatnsflösku áður en hún átti að fara í pressu. Hafi þá orðið vart við ertingu í augum og öndunarfærum starfsfólks.

Eiturefni lak úr flösku sem barst til Endurvinnslunnar á Akureyri.
Eiturefni lak úr flösku sem barst til Endurvinnslunnar á Akureyri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lekinn líklega óhappaverk

Aðalsteinn segir að sýrulykt hafi verið af vökvanum.

„Fólk geymir ýmislegt í slíkum flöskum svo sem litarefni og jafnvel einhvers konar sýru. Fólk notar sýru meðal annar til þess að hreinsa rafrásir í tölvum og kælikerfum. Við teljum að það hafi verið óhappaverk að þessi vökvi rataði í Endurvinnsluna.“

Hann segir ertinguna hafa gengið fljótt yfir og að starfsfólki hafi sér vitandi ekki orðið frekar meint af, enda komið til vinnu nú í dag. Húsnæðið hafi strax verið þrifið og öllu efninu náð upp.

Aðalsteinn þakkar góðu viðbragði starfsfólks við lekanum og eins viðbragðsaðila. Eiturefnaleki sé alltaf alvörumál og að ákveðnir ferlar fari af stað við slíkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert