Fallegar strendur og suðræn menning sem heillar margan

Ottar Geirsson

Við erum einfaldlega með alla þjónustu sem snertir það sem viðkemur Spáni og fasteignaviðskiptum Íslendinga í því landi. Við getum aðstoðað fólk við að kaupa eða leigja eign og veitt alla aðra landþjónustu sem snýr að fasteigninni eða búsetu á Spáni hluta úr eða allt árið um kring. Þar með náum við að einfalda lífið svolítið með það að markmiði að Spánareignin sé annað heimili viðskiptavinarins,“ segir Bjarni Sigurðsson, framkvæmdastjóri og eigandi Spánarheimila, fyrirtækis sem sérhæfir sig í fasteigna- og þjónustumiðlun fyrir Íslendinga.

„Við bæði seljum og leigjum út nýjar og notaðar fasteignir á Spáni og bjóðum öllum okkar viðskiptavinum líka upp á ýmsa stoðþjónustu eins og fasteignaumsjón. Við leiðum viðskiptavini okkar í gegnum allt ferlið, allt frá sérsniðnum skoðunarferðum til mikillar eftirsölu og þjónustu. Við veitum mun víðtækari þjónustu en nokkur annar aðili og erum til að mynda með skrifstofur bæði á Spáni og Íslandi,“ segir Bjarni og bætir við:

„Margir Íslendingar taka þann pól í hæðina að fara til Spánar á eigin vegum í þeim tilgangi að þræða á milli fasteignasala og byggingaraðila og skoða eignir af yfirvegun og í rólegheitum. Í ljósi reynslunnar er það mikill misskilningur hjá fólki þegar það heldur að það sé að spara sér eitthvað með því að fara þessa leið. Í stuttu máli er það svo að það er seljandinn sem greiðir söluþóknunina og því er okkar þjónusta gagnvart kaupendunum ókeypis og því um að gera að nýta sér okkar þekkingu og faglega aðstoð í gegnum allt kaupferlið og það allt á okkar ástkæra tungumáli; íslenskunni.“

Vildarklúbbur með meiru

Bjarni stofnaði Spánarheimili árið 2008 og árangurinn fór fram úr hans björtustu vonum sem þótti sérlega lukkulegt þar sem stefndi í hrun á Íslandi á þessu tímabili. „Þetta var dálítið sérstakur tími. Það stoppaði allt saman fyrst og það var ekkert um að vera. Síðan fór salan hægt og rólega af stað aftur,“ segir Bjarni.

Bjarni talar um að covid-faraldurinn hafi heldur ekki skaðað viðskiptin heldur hafi þau þvert á móti blómstrað. „Við seldum viðunandi vel í kringum covid en þá vorum við með rafrænar kynningar í gegnum netið ásamt því að starfsfólk okkar á Spáni var mjög upptekið við að skipuleggja fyrir okkar viðskiptavini beint leiguflug til og frá Alicante. Þetta var þegar allt flug lá niðri og var gert til að hafa eftirlit með eignum viðskiptavina okkar sem ekki komust til Spánar. Undir stoðþjónustu okkar sem við bjóðum viðskiptavinum upp á fellur fasteignaumsjón og eftirlit með eignum ásamt því að ganga erinda þeirra þegar þeir eru ekki á Spáni.“

Hjá Spánarheimilum starfar öflugur og reyndur hópur Íslendinga, fjórtán talsins sem vinna bæði á skrifstofum á Íslandi og Spáni. „Í okkar röðum erum við með íslenskan og spænskan lögfræðing, fyrrverandi íslenskan útibússtjóra spænsks banka og löggiltan skjalaþýðanda en við höfum áralanga reynslu af sölu fasteigna á Spáni sem og fjármögnun fasteignakaupa þar og þekkjum því vel til allra aðstæðna og staðhátta á Costa Blanca- og Costa Calida-svæðinu enda hluti starfsmanna búsettur á Spáni,“ segir Bjarni.

„Við sjáum þá líka um neyðarnúmer, þrif og akstur frá flugvelli fyrir leigjendur. Svo erum við líka með deilibíla en viðskiptavinir okkar geta fengið góð kjör á bílum og þeir sem eiga bíla úti geta leigt þá út og haft tekjur af þeim. Við deilum bílunum á milli eigenda til að það þurfi að greiða minna fyrir afnot af þeim.“

Allir Íslendingar sem kaupa fasteign á Spáni í gegnum Spánarheimili ganga í sérstakan Vildarklúbb á vegum fyrirtækisins en það er fríðinda- og upplýsingarvettvangur sem stuðlar að því að gera góða upplifun enn betri. „Okkur langaði til að bjóða viðskiptavinum okkar upp á eitthvað meira en bara „til hamingju með eignina; takk, búið, bless“. Við vildum aðstoða viðskiptavininn við að komast inn í hlutina á erlendri grundu og vera um leið hollustu- og fríðindaklúbbur en nefna má að allir vildarvinir okkar frá afslátt af bílaleigubílum og flugi auk þess sem þeir ganga sjálfkrafa í GÍS, Golfklúbb Íslendinga á Spáni sem veitir allt að 55% afslátt af golfi á Spáni,“ segir hann.

Að máta sig við svæðið

Ottar Geirsson

Bjarni segir að fólk sé oft ekki tilbúið að kaupa fasteign strax og vilji kannski prófa að byrja á að leigja í nokkra mánuði til að vita hvort svæðið henti því. „Þá bjóðum við upp á að fólk geti leigt eignir í gegnum okkur og fengið tilfinningu fyrir svæðinu. Við köllum þetta að máta sig við svæðið.“

Fasteignaviðskipti á Spáni lúta eðli máls samkvæmt spænskum lögum og reglum og kaupferlið allt öðruvísi en þekkist á Íslandi. „Það er að mörgu að hyggja og margir pyttir að varast og því hafa Spánarheimili boðið fram sína þjónustu í öll þessu ár og leitt fólk í gegnum þetta allt saman á íslensku. Við seljum bæði nýjar og notaðar eignir og erum því í samstarfi við alla byggingaraðila hér á Spáni ásamt því að vera í gagnagrunni fasteignasala á svæðunum, allt frá Valencia til Murcia, þannig að við höfum góðan aðgang að öllum eignum á því svæði. Söluskráin okkar er ekki tæmandi talning á eignum til sölu á hverjum tíma heldur þarf viðskiptavinur meira að velja okkur sem sinn fasteignamiðlara og við byrjum að leita að draumaeigninni,“ segir Bjarni.

En hvers vegna Spánn? Aðspurður segir Bjarni svo margt við landið sem heilli gífurlega og heyri hann endurtekið slíkt frá viðskiptavinum sínum ásamt fleirum. „Það er náttúrlega veðrið fyrst og fremst; mikil sól, glæsilegir golfvellir, stór svæði, sterkir innviðir, gott heilbrigðiskerfi, fallegar strendur og yndisleg suðræn menning sem heillar. Auk þess er þetta í sama tímabeltinu, sem þykir þægilegt,“ segir Bjarni.

„Það er líka þessi lífsstíls- og menningarhlið sem fólk finnur fyrir og kynnist best með því að prófa. Þú ert að koma í miklu hægara, afslappaðra umhverfi með minna stressi, annað en tíðkast gjarnan heima. Svo eru líka góðar flugsamgöngur til Alicante, sem er okkar starfssvæði. Það er beint flug hingað þrisvar í viku á veturna og sjö sinnum á sumrin. Auk þess er fasteignaverðið mjög gott miðað við Ísland og rekstrarkostnaður mjög lágur miðað við Ísland. Leigumöguleikar eru líka góðir, svo það er auðvelt að leigja út íbúðir. Það er hægt að borga rekstrarkostnað fyrir allt árið með því að leigja íbúð út bara yfir sumartímann.“

Ekki bara eldri borgarar

Ottar Geirsson

Bjarni segir það vera mýtu líkast núorðið að einungis eldri borgarar fari í auknum mæli til Spánar, það sé mikið um yngra fólk sem vill kaupa þar eignir og barnafjölskyldur ekkert síður að hans sögn.

„Við höfum fundið að viðskiptavinahópurinn hefur yngst undanfarin ár. Það kjósa líka margir að eiga sumarhús á Spáni í staðinn fyrir að kaupa sumarbústað á Íslandi enda er það í flestum tilfellum ódýrara,“ segir Bjarni.

„Það sem hefur breyst er að leigudeildin okkar í gegnum heimasíðuna sumarhusaspani.is hefur stækkað gífurlega mikið á síðustu árum. Varðandi kúnnahópa sjáum við að fólk er að yngjast meira og fáum við til okkar ungt fjölskyldufólk, vinahópa, golffélaga eða vinnustaði að kaupa sumarhús á Spáni og hafa góðar leigutekjur af eignum sínum til að standa undir árlegum rekstrarkostnaði.“

Á vefsíðu Spánarheimila eru ítarlegar upplýsingar um hvernig fasteignakaup á Spáni ganga fyrir sig en einnig er heimasíða www.spann.is ákveðin yfirlitssíða þar sem hægt er að nálgast á einum stað nokkra þjónustuþætti sem Íslendingum standa til boða í Spánartengdum málum. Spánarheimili eru með samstarfssamninga við spænskar fjármálastofnanir, alla byggingaraðila á svæðinu svo og við fasteignafélög og stærri og betri fasteignasölur á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert