Náttúra, kyrrð, samvinna og skíðamenning í sérflokki

Sveitarfélagið Dalvíkurbyggð hefur í áraraðir verið á vörum landsmanna hvað glæsilega náttúru, kyrrð, líflegt atvinnulíf og ýmis konar sérstætt í menningarsögu landsins varðar. Sveitarfélagið varð til árið 1998 þegar þrjú sveitarfélög við utanverðan Eyjafjörð, Dalvíkurbær, Svarfaðardalshreppur og Árskógshreppur, sameinuðust í eitt en einkennismerki Dalvíkurbyggðar er mynd af þeim þremur fjöllum sem tákna uppruna sveitarfélagsins.

Á Dalvík búa hátt í tvö þúsund manns en sjávarútvegur, fiskvinnsla og aðrar atvinnugreinar tengdar sjávarnytjum skipa öndvegissess en einnig eru þar öflug iðnaðarfyrirtæki og matvælafyrirtæki sem skapa fjölda fólks atvinnu. Þá hafa margir atvinnu af ýmiss konar þjónustu, viðskiptum og verslun. Dalvíkurhöfn er stór og umsvifamikil fiski- og vöruhöfn. Mjólkurframleiðsla er einnig helsta lífsviðurværi bændanna í Svarfaðardal og á Árskógsströnd en sauðfjárrækt hefur dregist saman síðustu árin.

Hestamennska er þá bæði stunduð meðal bænda og bæjarbúa en í Dalvík eru einnig hænsnabú og fleiri búgreinar þó í smærri stíl sé. Má þó heldur ekki gleyma því að ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein í sveitarfélaginu og hafa verið að byggjast upp sterk fyrirtæki á því sviði.

Mannlíf, hestar og réttir

Félags- og menningarlíf á sér langa og ríka hefð í Dalvíkurbyggð. Tónlistarlífið hefur lengi staðið með miklum blóma og vakið athygli víða. Starfræktir eru margir kórar og er öflugan tónlistarskóla að finna þarna. Þegar haustar taka hjól menningarlífsins að snúast eftir endurnærandi sumarfrí. Kórstjórar blása til æfinga og kynna efnisskrá vetrarins, leikfélagið fylkir liði sínu fyrir nýtt leikár.

Stærri og smærri félög og klúbbar taka til starfa og auglýst eru námskeið í öllu mögulegu sem lýtur að betra og bættara lífi og meiri sköpun. Má þess að auki geta að fimm þekktir tónlistarmenn eiga rætur sínar að rekja til Dalvíkurbyggðar: Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Matti Matt, Friðrik Ómar, Daníel Ágúst og Villi Naglbítur, en þeir þrír fyrstnefndu eru allir Eurovision-þátttakendur.

Leikstarfsemi hefur verið stunduð frá fornu fari á Dalvík og Leikfélag Dalvíkur er traust áhugaleikfélag sem setur upp eina til tvær leiksýningar á ári hverju. Fjárréttir eru á nokkrum stöðum í Dalvíkurbyggð en mest er fjörið jafnan á Tungurétt. Hvergi er þó færra fé á réttum en þar en á móti er gleðskapur þar áberandi mestur, mikill söngur og fólksfjöldi mikill. Þegar fé hefur verið smalað í byrjun október er svo hrossasmölun og stóðrétt. Er það jafnan tilkomumikil sjón að sjá hrossastóðið rekið til réttar og hrossin dregin í dilka.

Fjölmennt til fjölda ára

„Við erum sjálfsagt þekktust fyrir sjávarútveginn en bærinn okkar á sér líka mjög ríka og fjölbreytta sögu,“ segir Friðjón Árni Sigurvinsson, upplýsingafulltrúi hjá Dalvíkurbyggð, og stoltur Dalvíkingur. Friðjón segir ferðamannalífið hafa aukist að undanförnu, sér í lagi á skíða- og brettasvæðunum. Þá sé einnig greinilegt að fólk hafi áhuga af þeirri flóru sagna Dalvíkur og minninga sem upp úr standa en Friðjón kveðst sjálfur vera hæstánægður með bæjarsamfélagið og jákvæða hugarfar þess sem og afrek.

Friðjón rifjar þá upp þróunina á Fiskideginum mikla og segir þar hafa verið tíður viðburður á heimsmælikvarða. „Við vorum náttúrulega með stærstu fríu bæjarhátíð Íslands og menn tala um stærstu matarhátíð Evrópu,“ segir hann hress. Fiskidagurinn mikli var árlega helgina eftir Verslunarmannahelgi frá árinu 2001 til 2023, en aukin aðsókn fór smám saman að hrannast upp í þéttpakkaða dagskrá með viðburðum og tónleikahaldi um ár hvert. Fastir liðir voru einnig í boði eins og vináttukeðjan og flugeldasýning og gróflega má ætla að gestir Fiskidagsins mikla hafi frá upphafi verið um 600 þúsund talsins þegar öllu er á botninn hvolft. Fiskidagurinn var lagður í dvala í þrjú ár í kjölfar covid-faraldursins 2019 en var hátíðlega haldinn í síðasta sinn í ágúst 2023.

Friðjón segir það leitt að Fiskidagurinn mikli heyri sögunni til og segir ástæðurnar hafa verið margþættar: „Við erum tvö þúsund manna sveitafélag og það koma kannski um 40 þúsund manns á þessum tíma. Miðað við það eru orðnar svo gríðarlegar öryggiskröfur og annað í nútímasamfélagi að menn sáu sig ekki fært um að geta haldið svona stóra hátíð lengur. Þetta var bara of erfitt, of flókið og of dýrt, en við erum gríðarlega stolt af þessu engu að síður.“

Svarfdælingur sem stóð upp úr

Friðjón rifjar þá upp eftirminnilega goðsögn sem mikil eftirspurn er eftir: stærsta Íslendinginn í sögunni til þessa, Jóhann Svarfdæling eða Jóhann risa eins og hann var oft kallaður en hét að fullu nafni Jóhann Kristinn Pétursson. Sérstakt herbergi hefur einmitt verið tileinkað Jóhanni á byggðasafninu Hvoli á Dalvík og hefur það meðal annars að geyma hans persónulegu muni.

Saga Jóhanns er umfangsmikil og má þess geta að hann landaði nokkrum kvikmyndahlutverkum í Bandaríkjunum með ýmsum stórstjörnum síns tíma. „Til að mynda lék hann gegn Jodie Foster í kvikmyndinni Carny á níunda áratug síðustu aldar. Síðar meir varð Foster góðkunningi okkar Dalvíkinga eftir að hafa leikið í og séð um nýjustu True Detective-seríuna, sem var að hluta til tekin upp á Dalvík,“ segir Friðjón.

Jafnframt kom Jóhann fram í eigin persónu í heimildarmynd árið 1981 og þar var hann formlega titlaður hæsti maður heims. Jóhann var 2,34 metrar á hæð þegar hann mældist hæstur og vó þá 163 kg.

Jóhann var fæddur á Akureyri árið 1913 en ólst upp í Svarfaðardal sem hann er kenndur við. Átti Jóhann átta systkini en fjölskyldan var fátæk og hann var sendur í fóstur. Þrettán ára byrjaði hann að vaxa langt umfram það sem eðlilegt taldist. Eftir að hafa ferðast um Ísland við að sýna kvikmyndir, flutti Jóhann til Bandaríkjanna árið 1948 og bjó þar til ársins 1982. Þegar Jóhann kom í síðasta sinn til Íslands, settist hann að á Dalvík og bjó þar til hinsta dags. Hann lést árið 1984, þá 71 árs að aldri.

Veðursældin framúrskarandi

Það er ótrúlega mikil skíðamenning á Dalvík og til dæmis býður Skíðafélag Dalvíkur öllum grunnskólabörnum upp á frítt skíðanámskeið. Fjallaskíði hafa sérstaklega hitt í mark hjá gestum svæðisins og eru Dalvíkingar oft sagðir hafa bestu aðstæðurnar. Til að mynda er sérstaklega góð aðstaða fyrir brettaiðkendur á svæðinu við Böggvisstaðafjall. Landslagið er mjög fjölbreytt og stutt að fara fyrir þá sem vilja ganga á fjöll. Pallar og brautir eru jafnan útbúin með þarfir bretta- og skíðafólks í huga.

Hörður Finnbogason, framkvæmdastjóri Skíðasvæðis Dalvíkur, segir sveitafélagið vera í merkilegum sérflokki þegar kemur að umhverfi og iðkendum skíðaíþrótta. „Ég er sjálfur fæddur og uppalinn Akureyringur og vann lengi vel á skíðasvæðinu þar. Síðan tók ég við skíðasvæðinu hérna á Dalvík árið 2019, en svæðið hérna er að mörgu leyti alveg einstakt. Það skýrist fyrst og fremst af landfræðilegri staðsetningu hérna,“ segir Hörður.

„Skíðasvæðið byrjar í rauninni í 40 metrum yfir sjávarmáli og endar í 320, á meðan önnur svæði, eins og Hlíðarfjall, Tindastóll, Siglufjörður og fleiri svæði eru oft að byrja í kringum 500 metrunum og enda upp í þúsund. Við erum í miklu minni vind, landfræðilega séð, á þessu svæði. Veðursældin er ótrúleg hérna.“

Covid kallaði á ferðafólkið

Fjölmargar skíðagönguleiðir eru út frá svæðinu. Ber þar að geta tveggja kílómetra langan gönguhring sem er troðinn daglega af fólki ef og þegar aðstæður leyfa. Hringurinn liggur um hólanna umhverfis Brekkusel þar sem skáli skíðafélagsins er staðsettur og niður að sundlaug Dalvíkur, sem er í um 500 metra fjarlægð frá skíðasvæðinu.

„Við stælum okkur af því að við erum með flesta opnunardaga á vetri af öllum skíðasvæðunum,“ segir Hörður. Þá segist hann hafa fundið fyrir aukningu á ferðafólki og segir hann það vera í raun covid að þakka. „Þá voru ansi margir í til dæmis Hlíðarfjalli þar sem var uppselt og þurfti þá fólk að fara aðeins út fyrir kassann sinn, prófa önnur svæði og koma hingað. Það hefur greinilega gengið og hefur orðið talsverð mikil fjölgun, fyrst og fremst á innlendum ferðamönnum. Á þessum vetri núna höfum við séð töluverða aukningu en það er sennilega út af beinu flugi sem er komið á Akureyri.“

Þá fullyrðir Hörður að margt sé á döfinni hjá félaginu. „Við erum að hefja byggingu á nýju aðstöðuhúsi hérna á svæðinu núna í sumar,“ segir hann.

„Við erum að tvöfalda stærðina og gerum ráð fyrir að það verði tekið í notkun næsta vetur, ef allt gengur upp. Svo er í kortunum að kaupa færiband eða töfrateppi, sem er skíðalyfta fyrir krakka. Það eru að minnsta kosti mjög spennandi tímar fram undan og við tjöldum öllu til. Það er mikill hugur hjá sveitarfélaginu að gera vel við þetta svæði.“

Þá snýr umræðan að fjallaskíðum og fullyrðir Hörður Dalvíkursvæðið vera gráupplagt fyrir slíkt og það meira. „Nú ætla ég ekkert að ýkja mikið en þetta er bara vagga fjallaskíðamennskunar. Hér byrja flestir og enda flestir. Fjallendið er náttúrulega með ólíkindum og þegar aðstæður eru góðar þá kemur hingað gríðarlegur fjöldi,“ segir Hörður.

„Fjallaskíðin eru þannig að þú getur sett undir svokallað skinn og labbað síðan upp fjöllin. Það er helmingurinn af sportinu og má segja að þarna blandast saman almenn fjallamennska og gönguskíði. Menn verða að þekkja til í fjöllunum og vera í formi til að labba upp auk þess að vera þokkalegir skíðamenn til að komast niður. Þetta snýst rosa mikið um að komast upp á toppana, njóta útsýnis og almennrar útivistar.“

Fleiri upplýsingar um Skíðafélag Dalvíkur eru að finna á heimasíðu félagsins.

Hörður Finnbogason er framkvæmdastjóri Skíðasvæðis Dalvíkur.
Hörður Finnbogason er framkvæmdastjóri Skíðasvæðis Dalvíkur. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert