Persónuleg tengsl við viðskiptavini

@AM Anna Maria

„Það er kannski lummulegt að segja það en ég vil þakka viðskiptavinum fyrir traustið í gegnum árin. Við gætum ekki verið í þessari atvinnugrein í 20 ár án þess að vera með traustan og góðan viðskiptamannahóp. Eitt af því sem er svo skemmtilegt við þessa atvinnugrein er að það er mikið traust á milli aðila.

Það þarf að ríkja traust til að hlutirnir gangi upp af því að þetta er svo persónuleg atvinnugrein,“ segir Eyjólfur Pétur Pálmason forstjóri Vélfangs sem selur og þjónustar jafnt nýjar sem notaðar vélar sem og tæki fyrir landbúnað, vélaverktaka og sveitarfélög.

Vélfang er einmitt 20 ára gamalt um þessar mundir og Eyjólfur talar um að það verði eflaust gert eitthvað skemmtilegt á afmælisárinu til að fagna þessum skemmtilega áfanga.

Stórir framleiðendur

Vélfang er með umboð fyrir fjölmarga framleiðendur og þar á meðal JCB, Fendt, Claas, Kverneland, Kuhn og Schäffer en Eyjólfur talar um að nauðsynlegt sé að vera með margra framleiðendur til að sinna þeim mörkuðum sem Vélfang þjónustar.

„Við höfum farið þá leið að bjóða helst eingöngu upp á varahluti í vélar sem við höfum umboð fyrir og sinnum þannig okkar viðskiptavinum mikið betur heldur en að leita um allan heim að varahlutum á gráum markaði.

Við einblínum sem sagt á að veita okkar viðskiptavinum og vörumerkjum varahluti og þjónustu þó vitanlega aðstoðum við alla þá sem hafa ekki aðra möguleika í Reykjavík eða á Akureyri en okkar meginstefna er að þjónusta okkar vörumerki og okkar viðskiptavini,“ segir Eyjólfur og bætir við að Vélfang sé með alls kyns vélar, allt frá minnstu aukahlutum eins og skóflum og festingum og upp í stærstu vélarnar.

Vélfang ,jcb
Vélfang ,jcb Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Útibú á Akureyri

Það eru um 30 starfsmenn sem starfa hjá Vélfang, þar af sjö á Akureyri en Vélfang rekur útibú á Óseyri á Akureyri. „Við opnuðum á Akureyri árið 2006 en þar rekum við bæði sölu- og þjónustufyrirtæki. „Það er gríðarlega stór markaður norðan heiða sem þurfti betri þjónustu og betri viðveru heldur en við gátum boðið upp á frá Reykjavík,“ segir Eyjólfur einlægur.

„Ég held að það hafi verið mjög gott skref að opna á Akureyri á sínum tíma og sérstaklega að hafa þar þjónustuverkstæði sem þjónustar þetta svæði mjög vel.“

Stærri og öflugri tæki

Aðspurður hvort Vélfang hafi stækkað mikið í áranna rás segir Eyjólfur að umfang fyrirtækisins hafi aukist gríðarlega. „Bæði í veltu, fjölda starfsmanna sem og sölu fjölda tækja. Svo hafa tækin sjálf stækkað heilmikið og orðið öflugri. Þeim vélum sem ganga fyrir rafmagni er líka alltaf að fjölga þannig að það er gríðarleg þróun á þessum tuttugu árum frá því við stigum fyrstu sporin,“ segir Eyjólfur en tekur fram að dráttarvélar og stærri tæki séu ekki komin í rafmagn.

„JCB er komið mjög langt í þróun vetnis fyrir stærri tæki, eða þau sem eru yfir 75 hestöfl, en fyrstu tækin af þeirri gerð verða markaðssett síðar á þessu ári. En minni vélar, svo sem smágröfur, minni skotbómulyftarar og þess háttar, eru flestar komnar með rafmagn. Við fylgjum því og höfum selt mikið af rafmagnstækjum fyrir ákveðnar greinar. Til að mynda eru bændur komnir vel inn í rafmagnsöldina og þá eru líka verktakar og veitufyrirtæki farin að gera kröfur um rafmagnstæki í smágröfum og slíku.“

Vélfang var stofnað fyrir 20 árum síðar og hefur dafnað …
Vélfang var stofnað fyrir 20 árum síðar og hefur dafnað vel. Ljósmynd/Aðsend

Fjölbreytt og skemmtilegt

Eyjólfur talar um að vinnan hans sé mjög skemmtileg og atvinnugreinin sjálf ótrúlega skemmtileg og fjölbreytt. „Við kynnumst viðskiptavinum okkar mjög vel og þetta verður því svo persónulegt. Ef ég tek bændur sem dæmi þá er það oft öll fjölskyldan sem stendur að rekstrinum og við kynnumst þeim öllum mjög vel sem er mjög skemmtilegt. Ég er búinn að vera í þessu í 28 ár þannig að ætli þetta verði ekki bara ævistarfið. Og ég sé ekki eftir því,“ segir Eyjólfur og hlær.

„Fjölbreytnin er líka mjög mikil, sem gerir dagana svo spennandi. Til að mynda á verkstæðinu þá þarf kannski að gera við traktorsgröfu og rúlluvél og svo að standsetja sömu tæki sama daginn. Við erum því svo heppin að hafa mjög gott fólk á verkstæðinu sem hefur mjög breiða kunnáttu. Svo eru vélar orðnar svo tæknilegar í dag að allt er lesið með tölvum þannig að á verkstæðinu er nauðsynlegt að vera góður í handvirka hlutanum sem og í stafræna hlutanum. Það er því ýmislegt sem við þurfum að vera vakandi fyrir.“

Ögrum okkur á hverjum degi

Eyjólfur horfir bjartsýnn fram á veginn og segir að það verði skemmtilegt að fylgja fyrirtækinu inn í framtíðina. „Við höldum áfram að halda fókus á það sem við erum að gera, einbeita okkur að okkar kjarna og því sem við bjóðum upp á. Og passa okkur á því að stækka ekki of hratt.

Það mun margt breytast og við sjáum það þegar nýir orkugjafar eru það sem koma skal. Í landbúnaði verða sennilega færri en stærri bú og svo er nauðsynlegt að halda í við hraðann í þjóðfélaginu í byggingum, vegagerð og öðru. Sem og að geta útvegað þau tæki sem til þarf hverju sinni. Við munum halda áfram að ögra okkur á hverjum degi með þeim áskorunum sem við mætum,“ segir Eyjólfur glaðbeittur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert