Tryggja þarf öryggi vinnuvéla og tilskilin réttindi

Vinnueftirlitið hefur það hlutverk að stuðla að því að öll komi heil heim úr vinnu. Þannig er lögð rík áhersla á að styðja vinnustaði í því að tryggja öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks og koma í veg fyrir eða draga úr áhættuþáttum í vinnuumhverfinu. Stór hluti starfseminnar snýr því að öryggi vinnuvéla og tækja.

„Vinnueftirlitið leggur áherslu á að vinnustaðir innleiði menningu þar sem áhersla er á vellíðan og öryggi starfsfólks og að vinnuvernd sé hluti daglegrar starfsemi þeirra,“ segir Heimir Guðmundsson, sviðsstjóri sviðs vinnuverndar hjá Vinnueftirlitinu. „Í því felst meðal annars að atvinnurekendur gæti að því að vinnuvélar séu reglulega skoðaðar og að stjórnendur þeirra hafi tilskilin réttindi.“

Heimir segir ekki síður mikilvægt að starfsfólk sé upplýst um þær hættur sem fylgja notkun og umgengni við vinnuvélar en þær eru hluti af vinnuumhverfinu á fjölmörgum vinnustöðum.

Vinnuvélaskoðanir

„Með skilvirku vinnuvélaeftirliti er markmið okkar að stuðla að auknu öryggi starfsfólks við notkun vinnuvéla,“ segir Heimir og bætir við að meginreglan sé sú að skoða vinnuvélar árlega. Auk þess skal skoða þær fyrir og eftir viðgerðir og breytingar á burðarvirkjum. „Það er á ábyrgð eigenda að panta skoðun á vinnuvél og er hægt að gera það með auðveldum hætti á vefnum okkar vinnueftirlitid.is,“ upplýsir Heimir.

Hann segir það eina af frumskyldum atvinnurekenda að tryggja öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks og þar undir fellur meðal annars að gæta að öryggi vinnuvéla og tækja.

En hvernig fer skoðunin fram? „Sérfræðingur í vinnuvélaeftirliti á vegum Vinnueftirlitsins mætir á vinnustað og skoðar vélina,“ segir Heimir. „Niðurstaðan getur verið að vélin fái fulla skoðun og þá er nýr skoðunarmiði settur á. Vélin getur einnig fengið hálfa skoðun sem þýðir að gera þarf úrbætur en vélin má engu að síður vera í notkun. Panta þarf aukaskoðun að úrbótum loknum.

Skoðun getur hins vegar einnig leitt til þess að notkun á vélinni sé bönnuð. Þetta á við í þeim tilfellum þegar notkun hennar er hættuleg og þá má ekki nota hana fyrr en búið er að gera úrbætur. Þá er settur rauður miði á vélina og þarf að panta aukaskoðun að úrbótum loknum,“ útskýrir Heimir. Skoðunarskýrsla verður síðan aðgengileg eiganda hennar á island.is daginn eftir skoðun ásamt því að skýrslan er send með tölvupósti.

Vinnueftirlitið
Vinnueftirlitið Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Vinnuvélaréttindi

Allir sem ætla að stjórna réttindaskyldri vinnuvél á Íslandi verða að hafa tilskilin réttindi. Til að fá vinnuvélaréttindi þarf að ljúka bóklegu námskeiði í viðkomandi vinnuvélaflokki. Vinnueftirlitið heldur svokölluð frumnámskeið á minni vinnuvélar en einkaaðilar halda námskeið á stærri vélar.

Að því loknu fer fram verkleg þjálfun undir leiðsögn leiðbeinanda og að lokum er tekið verklegt próf á vegum Vinnueftirlitsins. Standist nemandi prófið er gefið út vinnuvélaskírteini sem veitir rétt til að stjórna tilgreindri vinnuvél. Auk hefðbundinnar útgáfu vinnuvélaskírteina er hægt að sækja um stafrænt vinnuvélaskírteini á island.is.

Að sögn Heimis er mikilvægt að gæta þess að starfsfólk sé ekki sett í þá stöðu að stjórna vinnuvél án þess að hafa tilskilin réttindi. „Það varðar bæði öryggi stjórnandans sjálfs, annars starfsfólks og annarra sem geta átt leið hjá í kringum vélina. Það getur verið dauðans alvara að stjórna vinnuvél án þess að hafa fengið viðeigandi þjálfun við stjórnun hennar. Það vill enginn lenda í þeirri stöðu að hafa orðið valdur að alvarlegum slysum og því mikilvægt að starfsfólk hafi tilskilin réttindi og þjálfun til að stjórna vinnuvélum.“

Vinnuvélaskrá

Vinnueftirlitið heldur skrá yfir allar vinnuvélar og tæki á Íslandi. Áður en vinnuvél er tekin í notkun þarf að skrá hana hjá stofnuninni. Nýskráningar fara fram rafrænt á Mínum síðum Vinnueftirlitsins. Skrá þarf eiganda, umráðamann ef um eignarleigu er að ræða, innflytjanda og upplýsingar um tækið sjálft eins og framleiðsluland, framleiðslunúmer, tegund, gerð, flokk, þyngd, lyftigetu og stærð hreyfils,“ útskýrir Ægir Ægisson, leiðtogi straums vinnuvéla og tækja hjá Vinnueftirlitinu.

Hann bendir jafnframt á að hægt sé að sækja um skráningu vinnuvélar í almenna umferð, eða svokallaða götuskráningu, samhliða nýskráningu. „Mikilvægt er að götuskrá vinnuvél sem vitað er að þurfi að keyra í almennri umferð utan vinnusvæðis en þegar vinnuvél er komin í almenna umferð gilda umferðarlög,“ upplýsir Ægir.

Skráningarnúmer vélarinnar verður aðgengilegt á Mínum síðum Vinnueftirlitsins innan þriggja virkra daga frá skráningu. Tilkynning er einnig send í tölvupósti á skráð netfang. Þá er hægt að tollafgreiða vélina og koma henni á vinnustað.

Ægir leggur áherslu á að vélin verði að vera CE-merkt. „Það er skilyrði við skráningu. Vinnueftirlitið hefur eftirlit með því að vélar, tæki og fleiri vörur sem fluttar eru inn til landsins séu CE-merktar en CE-merking er til marks um það að framleiðandi, innflytjandi eða dreifingaraðili vöru ábyrgist að hún uppfylli grunnkröfur um öryggi og almennt heilbrigði. Því miður hafa komið upp dæmi þar sem dýrar vélar hafi verið fluttar inn til landsins sem ekki eru CE-merktar en þá er óheimilt að taka slíkar vélar í notkun,“ útskýrir Ægir.

Ef eignarhald vinnuvélar breytist þarf að tilkynna um þá breytingu til Vinnueftirlitsins. „Það er gert rafrænt á Mínum síðum Vinnueftirlitsins. Seljandi og kaupandi bera báðir ábyrgð á að tilkynna eigendaskipti. Þegar seljandi hefur stofnað til eigendaskipta fær kaupandi vikulega áminningu um að fara inn á Mínar síður og samþykkja skráninguna. Eftir að báðir aðilar hafa samþykkt skráninguna staðfestir Vinnueftirlitið hana,“ segir Ægir.

Hann segir líka að mikilvægt sé að afskrá vinnuvél sé hún tekin úr notkun. Á það við hvort sem vélin er tekin tímabundið úr notkun eða endanlega. „Það er líka gert á Mínum síðum en í afskráningarferlinu þarf að gefa upp ástæðu fyrir afskráningu.“

Vinnueftirlitið
Vinnueftirlitið Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Stafræn vegferð

Heimir og Ægir segja mikla áherslu hafa verið lagða á að stafvæða þjónustuferla í kringum skráningu, skoðanir og útgáfu vinnuvélaskírteina að undanförnu til einföldunar og hagsbóta fyrir notendur. Hið sama gildir um stafræn námskeið en markmiðið er að öll námskeið Vinnueftirlitsins verði stafræn innan tíðar. „Það nýjasta í stafrænni vegferð stofnunarinnar er að nú geta eigendur vinnuvéla séð yfirlit yfir allar vélar og tæki í sinni eigu á Mínum síðum. Þar er jafnframt hægt að sjá skráningardag, síðustu skoðun, umráðamann, orkugjafa og staðsetningu tækis. Við höfum skynjað mikla ánægju með það,“ segir Ægir.

Öll heil heim

Þá hvetja Heimir og Ægir alla atvinnurekendur til að gæta vel að öryggi véla sinna og tækja og einnig að öryggi við notkun þeirra. „Það er gert með því að tryggja að vélum og tækjum sé reglulega viðhaldið og þau skoðuð af Vinnueftirlitinu. Eins með því að sjá til þess að stjórnendur þeirra hafi tilskilin réttindi,“ segir Heimir.

„Jafnframt getur verið mikilvægt að upplýsa annað starfsfólk um hugsanlegar hættur sem geta tengst umræddum vélum eða tækjum, merkja aksturs- og gönguleiðir um vinnusvæði og minna á að fara þurfi að með gát í kringum vélar og tæki. Einnig er brýnt að vélar og tæki séu eingöngu notuð í réttum tilgangi. Gaffallyftarar eru til að mynda ekki ætlaðir til að lyfta fólki nema í þartilgerðri mannkörfu en hún verður að vera skráð og skoðuð af Vinnueftirlitinu,“ segir Ægir.

Heimir segir ekki hvað síst mikilvægt að þær hefðir og venjur sem viðgangast á vinnustaðnum styðji við öryggismenningu og að bæði starfsfólk og stjórnendur taki þátt í að tryggja öruggar vinnuaðstæður. „Þannig er stuðlað að því að öll komi heil heim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert