Iðnaður sem leikur stórt hlutverk

Baltasar Kormákur, leikstjóri og framleiðandi
Baltasar Kormákur, leikstjóri og framleiðandi Lilja Jóns

Baltasar Kormákur, leikstjóri og framleiðandi, hefur verið í forystu íslenskrar kvikmyndagerðar síðustu áratugi. Frá því að hann framleiddi og leikstýrði 101 Reykjavík og til þáttaraðarinnar Kötlu hefur umhverfi kvikmyndagerðar gjörbreyst. Iðnaður sem áður takmarkaðist af takmörkuðum fjármunum og innviðum er nú blómlegur iðnaður sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar.

„Þegar ég hóf minn leikstjórnarferil var kvikmyndagerð á Íslandi svona eins og 10-12 ára barn. Það var alls konar að gerast en innviðir voru takmarkaðir. Það var ekki mikla peninga að sækja og lítil saga af árangri íslenskra kvikmynda erlendis. Friðrik Þór hafði verið tilnefndur til Óskarsverðlauna en dreifing á íslenskum kvikmyndum erlendis var rosalega lítil. Það voru engin stúdíó svo við þurftum að búa til stúdíó til að taka 101 í.

Þegar ég hugsa til baka man ég eftir köldum rútum og vondum mat. Það var margt gott gert en það var bara svo ofboðslega lítil þekking. Kvikmyndasjóður úthlutaði styrkjum bara einu sinni á ári svo fólk beið allt árið eftir því að fá að vita hvort það fengi styrk eða ekki og komast að því hvort það væri að fara að vinna næsta árið eða ekki. Endurgreiðslur vegna kostnaðar voru ekki til, þær komu síðar og hafa haft gríðarlega mikil áhrif á umfang kvikmyndagerðar á Íslandi.

Í dag eru miklu meiri innviðir, meiri þekking hjá tæknifólki, meiri fjölbreytni, bæði í verkefnum sem koma að utan og í íslenskri framleiðslu. Íslenskar kvikmyndir hafa náð miklu lengra, eru oft sýndar á stórum hátíðum og fara víða í dreifingu. Þannig að þetta eru algjörlega tveir ólíkir heimar og það er ekkert í samanburði við þessa aðstöðu sem við erum með hér í Gufunesinu í dag, hún var bara ekki til.“

Sterk tengsl við aðrar skapandi greinar

Spurður um það hvernig kvikmyndaiðnaðurinn geti stutt við aðrar skapandi greinar segir Baltasar að skörunin sé nú þegar mjög mikil. „Í framtíðinni verður tæknin nýtt enn meira og mun tengjast sterkt við tölvuleikjagerð. Tónlist leikur stórt hlutverk í kvikmyndum og við eigum þó nokkur afburða tónskáld, þar af tvö sem eru búin að ná alveg upp á toppinn, eins og Jóhann Jóhannsson, sem er fallinn frá, og Hildur Guðnadóttir. Íslenskt tæknifólk og klipparar eru farin að vinna í stórum og flottum erlendum verkefnum og koma síðan heim með þekkinguna. Þetta er allt samofið.

Myndlistarheimurinn er að vinna mikið í leikmyndum hérna og það styður við að fólk geti unnið við listgreinar. Það er kannski ekki nákvæmlega greinin sem viðkomandi lærði en hann getur unnið á tengdum sviðum. Myndlistarmenn þurfa þá ekki að vinna á kaffihúsi og fara svo að mála á kvöldin heldur geta þeir unnið í leikmynd. Fyrirtæki sem vinna með kvikmyndageiranum, eins og Kukl, Exton og Luxor, hafa öll vaxið og eru orðin eftirsótt fyrirtæki í dag sem hafa nóg að gera. Ef geirinn var eins og 10-12 ára barn þegar ég byrjaði er hann eins og 16-17 ára ungmenni núna svo við eigum mikið inni.“

Endurgreiðslur stuðla að samkeppnishæfni

„Endurgreiðslur á rekstrarkostnaði verkefna hafa skapað mikil tækifæri, án þeirra værum við ekki samkeppnisfær við útlönd. Við myndum ekki fá þessi verkefni til landsins nema við værum með þennan stuðning stjórnvalda,“ segir Baltasar.

„Auðvitað þarf að meta hverju sinni þjóðhagslega hagkvæmni þess að vera samkeppnisfær við löndin í kringum okkur. Nú er til dæmis verið að hækka endurgreiðsluna í 40% í Bretlandi sem mun hafa áhrif á okkur. Ég er á því að við séum á fínum stað eins og er og það er náttúrulega margt annað sem hefur áhrif en endurgreiðslan, svo sem gjaldeyrir og vinnuafl á Íslandi sem þarf að taka til greina.

Það þarf að horfa á heildarmyndina og taka til greina margar breytur. Það er margt sem er dýrara hér en í Austur-Evrópu, og annað sem er hentugra hér en í Bretlandi. Það eru margar breytur sem hafa áhrif á samkeppnishæfni.“

Þegar þú gerðir 101 Reykjavík var ekkert stúdíó til. Nú er komið stórt kvikmyndaver í Gufunesi og margir sjá fyrir sér þróun samfélags í kringum það. Hvað finnst þér skipta mestu máli í þróun Gufuness?

„Það sem skiptir mestu máli er að kvikmyndaverin fái að stækka og dafna, en á sama tíma finnst mér mjög mikilvægt að búa til blómlegt samfélag þar sem fólki líður vel og það skapist góð vinnuaðstaða. Tengslin á milli iðnaðarins og samfélagsins þurfa líka að virka vel. Ég hef unnið í mörgum stúdíóum erlendis sem eru í iðnaðarhverfum langt frá hringiðunni og þá er óaðlaðandi að vinna þar.

Hugmynd mín var alltaf að búa til bíómyndir á svæði sem er gott að vera á. Þar getur verið kaffihús og bakarí í heillandi umhverfi, gróður og svæði nálægt útivist. Ef loforð borgarinnar gagnvart þessu svæði standast gæti risið hér einstakt svæði á heimsmælikvarða. Nú þegar er fólk að koma að utan og finnst þetta með því flottasta sem það hefur séð, og ekki bara á Íslandi, heldur í heiminum.

Við erum alveg í dauðafæri við að gera eitthvað hér sem gæti orðið okkur til sóma og þjóðhagslega hagkvæmt til frambúðar, ef við höfum styrk til að standa við það sem við erum að gera og halda þessu áfram. Það er svo mikilvægt að menn eins og ég, og fleiri sem hafa verið að fjárfesta og þurft að taka verulega áhættu til að vera í þessum áhættusama bransa, getum tekið meðvitaðar og upplýstar ákvarðanir og treyst því að umhverfið verði stöðugt og að stjórnvöld standi í lappirnar með þetta. Það þarf ekki mikið að fara úrskeiðis til að þetta verði allt unnið fyrir gýg.“

Framtíðin er björt

Baltasar horfir björtum augum til framtíðar íslensks kvikmyndalífs og þess hæfileikaríka fólks sem er að taka sín fyrstu skref í bransanum. „Ég held að það sé að vaxa upp kynslóð af feikilega efnilegu kvikmyndagerðarfólki. Ég get nefnt leikstjóra eins og Uglu Hauksdóttur og Guðmund Arnar. Ég held að það hafi ákveðin breidd skapast í sjónvarpsvinnu þannig að ungt fólk fær vinnu fyrr, ungir leikstjórar geta unnið að þáttum án þess að þurfa að taka fulla ábyrgð á heilli bíómynd sem geta verið mikil þyngsli í kringum og fjárhagsleg áhætta. Það kæra sig ekki allir um að þurfa að veðsetja húsið sitt og framtíð barnanna sinna fyrir kvikmyndagerð.

Hin hliðin er svo að fólk eins og ég og fleiri geti elst í bransanum. Út af þessu harkalega umhverfi og fjárhagsáhættu sem fylgir kvikmyndabransanum hætta margir of ungir að vinna samanborið við hvað tíðkast til dæmis í Bandaríkjunum. Með hækkandi aldri hverfur oft áhættusæknin og fólki finnst þetta ekki lengur þess virði að gera, sem er mjög slæmt því þegar reynslumikið fólk dettur út tapast mjög mikið af þekkingu. Eldri einstaklingar eru ekki að taka pláss af unga fólkinu, plássið er að skapast fyrir það með stækkandi bransa. Það er mikilvægt fyrir unga fólkið að fá þekkingu, reynslu og söguna frá þeim sem eldri eru.“

Baltasar Kormákur , leikstjóri og framleiðandi
Baltasar Kormákur , leikstjóri og framleiðandi Lilja Jóns
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert