Iðnaður undirstaða verðmætasköpunar

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sat um langt árabil í formannsstóli Samtaka iðnaðarins þar sem hún var mikil talskona iðnaðarins og ekki síst iðnnáms. Hún hefur talað fyrir mikilvægi þess að við séum hér á landi með fært iðnmenntað fólk. „Iðnaður er ein stærsta undirstaða verðmætasköpunar á Íslandi og það er einstaklega mikilvægt að búa vel að iðnaðinum svo hann megi dafna íslensku samfélagi til heilla. Eitt af því sem ég hef lengi talað fyrir í því samhengi er mikilvægi iðn- og tæknimenntunar,“ segir Guðrún.

Hvernig hefur verið að fylgjast með gömlu liðsfélögunum í iðnaðinum rísa upp og vinna með þínu ráðuneyti í þessu stóra verkefni?

„Ég er alveg ólýsanlega stolt af þeim mannauði sem starfar hjá íslenskum iðnfyrirtækjum sem hafa sýnt það og sannað á viðsjárverðum tímum hvers megnugur hann er. Við höfum séð virði iðn- og tæknimenntunar fyrir hag og öryggi íslensks samfélags í þeim atburðum sem hafa átt sér stað að undanförnu á Reykjanesi,“ segir Guðrún.

Hún segir að þetta sé ekki sjálfgefið. „Við þurfum stöðugt að vera vakandi fyrir því að menntakerfið okkar sé öflugt og að við séum að tryggja að hér sé nóg af hæfu og öflugu iðn- og tæknimenntuðu fólki. Þetta er fólkið sem ber uppi íslenska innviði.“

Þessi virkni á Reykjanesinu hefur reynt gríðarlega á innviði svæðisins og dómsmálaráðherra hefur tekið stórar og mikilvægar ákvarðanir um uppbyggingu varnargarða sem hafa sannað gildi sitt. Guðrún segir að það sé ljóst að mikið hafi mætt á innviðunum. „Þar má helst nefna vegakerfin og veitukerfin í jarðhræringunum á Reykjanesi. Fólkið sem býr á Reykjanesi hefur fundið á eigin skinni hversu mikilvægir þessir innviðir eru fyrir daglegt líf og verðmætasköpun í landinu. Þess vegna hef ég lagt gríðarlega áherslu á að verja þá innviði.“

Telur þú að það þurfi að gera frekari ráðstafanir til að verja innviðina?

„Við þurfum að nálgast hlutina með öðrum hætti litið til framtíðar. Við þurfum að kortleggja alla okkar lykilinnviði, meta veikleika þeirra og gera viðeigandi ráðstafanir til að bæði verja þá en ekki síður byggja þá upp. Öll höfum við þar hlutverki að gegna og er þetta því verkefni okkar allra, stjórnvalda, sveitarfélaga og veitufyrirtækja.“

Guðrún segir að ekki dugi að bregðast eingöngu við þegar hættuástand skapist. „Við þurfum að gera allt hvað við getum til að undirbúa okkur, gera áætlanir og viðeigandi undirbúningsráðstafanir til að auka áfallaþol samfélagsins. Aukin virkni í landinu kallar á aukna kortlagningu innviða og náttúrvár sem síðan leiðir til þess að við þurfum að gera áætlanir um forvarnir. Við höfum byggt upp forvarnir á snjóflóðasvæðum og núna þurfum við að gera áætlanir vegna hraunflæðis til að verja mikilvæga innviði.“

Guðrún segir að það hafi verið unnin ótrúleg þrekvirki á Reykjanesinu. „Ég er óendanlega stolt af afrekum okkar iðnaðarmanna síðustu vikur og mánuði. Það er ekki sjálfgefið að við skulum búa yfir annarri eins þekkingu og getu til að bregðast við eins og hefur sýnt sig undanfarið. Án nokkurs vafa eru íslenskir iðnaðar- og tæknimenn á heimsmælikvarða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert