Nýtt upphaf fyrir iðnaðinn

„Stofnun Samtaka iðnaðarins var stórt og mikilvægt skref í framþróun atvinnugreinarinnar á Íslandi, að ná saman þessum stóra og öfluga hópi og byggja á þeim sóknarhug og samtakamætti sem hefur einkennt starfsemi SI allar götur síðan,“ segir Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins, en samtökin fagna 30 ára afmæli í ár.

„Fram að stofnuninni hafði helstu verkefnum og hagsmunamálum iðnrekenda og atvinnurekenda í löggiltum iðngreinum verið sinnt á víð og dreif og eðlilega gekk misjafnlega að ná árangri í helstu stefnumálum iðnaðar og undirgreina hans, sökum þess að þetta voru minni einingar.

Það var því fullt tilefni til að búa til eina öfluga rödd fyrir iðnaðinn í heild sinni. Það skref sem þar var tekið, ásamt langþráðum friði á vinnumarkaði, gildistöku EES-samningsins og blómlegra efnahagslífi um miðjan tíunda áratug síðustu aldar, var að einhverju leyti nýtt upphaf fyrir íslenskan iðnað.“

Hröð nýsköpun

Samtök iðnaðarins héldu sitt árlega Iðnþing fyrir viku þar sem meðal annars var rætt um mikilvægar ákvarðanir í fortíð og framtíð, en Árni talar um að það sé vissulega hægt að fara enn lengra aftur en 30 ár til að skoða umdeildar og erfiðar ákvarðanir sem teknar hafa verið.

„Við erum enn þann dag í dag að njóta góðs af mörgum slíkum ákvörðunum, eins og til dæmis þegar ráðist var í gerð vatnsaflsvirkjana og lagningu byggðalínu. Tækifærin voru sótt og þetta voru sannarlega umdeildar ákvarðanir en hafa skilað mjög miklu, bæði í þjóðarbúið sem og fyrir hagsæld og lífsgæði þjóðarinnar.

Við þurfum að taka erfiðar ákvarðanir af skynsemi í bland við framsýni. Við stöndum til dæmis frammi fyrir því að raforka er uppseld á Íslandi, við glímum við áskoranir í húsnæðismálum og í viðhaldi og uppbyggingu innviða. Náttúruhamfarir á Reykjanesi ýta svo enn þá frekar undir skammtímaákvarðanir en enginn veit hvað verður, mögulega stöndum við frammi fyrir jarðhræringum og eldsumbrotum á þessu svæði í einhver ár eins og vísindamenn hafa látið í veðri vaka.

Það þýðir að við þurfum að styrkja alla innviði og nálgast hönnun þeirra með breyttri nálgun. Sú staða sem upp er komin sýnir okkur að í krísum sem þessari verður nýsköpun oft hraðari og þá hafa menn einfaldlega ekki tök á öðru en að taka ákvarðanir.“

Ekki forðast ákvarðanir

Árni segir að lengi hafi skort á að mikilvægar ákvarðanir væru teknar, það hafi verið ákveðin kyrrstaða á þingi og í stjórnkerfinu almennt í ýmsum málum. „Áskoranir og vandamál hrannast upp sem þarf að bregðast við og við leysum ekkert með því að forðast ákvarðanir. Sem betur fer erum við nú loksins að sjá rofa til í þessum efnum, því við þurfum að taka ákvarðanir. Við getum alveg gefið okkur að sumar þeirra verða erfiðar og umdeildar. Til að mynda ætlum við að ná markmiðum um orkuskipti og verða óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040 sem þýðir að við þurfum að minnsta kosti að umbreyta bíla- og skipaflotanum, auk þess að tryggja heimilum og atvinnulífi óhindraðan aðgang að grænni orku.

Það er alveg gríðarlega stórt verkefni og við þurfum að afla aukinnar grænnar orku svo okkur verði unnt að ná þessum markmiðum, og þá eru ekki talin með möguleg vaxtartækifæri í iðnaði. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi, en tíminn er orðinn mjög knappur. Við þurfum bæði að vanda okkur og hreyfa okkur á sama tíma mjög hratt í þessum málum. Við erum stöðugt á krossgötum þar sem annars vegar takast á löngunin til að halda okkur við það sem við þekkjum og hins vegar viljinn til að framkvæma og hugsa stærra.

Öflun nýrrar orku mun óhjákvæmilega hafa einhver áhrif á náttúruna, sem okkur Íslendingum er öllum mjög annt um, og við getum ekki annað en tekið tillit til þess þegar ákvarðanir eru teknar. En okkur verður engu að síður að vera kleift að færa okkur út úr þeirri einstefnugötu sem við höfum verið föst í allt of lengi, og taka nauðsynlegar ákvarðanir.“

Menntun til farsællar framtíðar

Þá segir Árni að þó honum verði tíðrætt um iðnaðinn þá skipti allar greinar atvinnulífsins gríðarlega miklu máli. „Þetta er ekki samkeppni á milli iðnaðar og ferðaþjónustu eða iðnaðar og sjávarútvegs. Við erum bræður og systur í því sem við gerum, þannig að það sem gerist í iðnaðinum kemur sér oftar en ekki vel fyrir sjávarútveginn. Fiskunum fjölgar því miður ekki mikið í sjónum en við nýtum þá fiska sem við veiðum miklu betur en áður, því tækni og nýsköpun hefur gert okkur það kleift. Og ferðaþjónustunni er unnt að taka á móti fleiri gestum til landsins af því að við getum byggt upp öfluga innviði og varðveitt náttúruperlurnar okkar með markvissum framkvæmdum. Allt spilar þetta saman.

Við vísum oft til þess að það sé varhugavert að vera með öll eggin í sömu körfunni. Við vinnum þetta í sameiningu og breikkum þannig flóru atvinnulífsins, fjölgum eggjunum og deilum þeim í fleiri körfur. Nú sem endranær þurfum við að tryggja að við eigum nægan mannauð í fjölbreyttum greinum fyrir þennan vöxt og sömuleiðis að menntakerfið horfi til framtíðar. Mannauðs- og menntamálin skipta okkur gríðarlega miklu máli því það er ein lykilforsenda þess að okkur takist ætlunarverkið, að skapa áfram bætt lífskjör fyrir alla landsmenn og farsæla framtíð fyrir samfélagið allt,“ segir Árni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert