Orkuskipti og umhverfismál

Björk Kristjánsdóttir, rekstrar- og fjármálastjóri Carbon Recycling International (CRI), er í broddi fylkingar þegar kemur að tæknilausnum sem umbreyta koltvísýringi í efnavörur og eldsneyti. Tækni félagsins opnar þar með nýjar leiðir í orkuskiptum og aðgerðum til þess að sporna við losun gróðurhúsalofttegunda. Starfsemi CRI er gott dæmi um hvernig hægt er að mæta brýnum umhverfisáskorunum á ábyrgan og áhrifaríkan hátt.

Björk segir mikilvægt að fá alla réttu hagaðilana að borðinu til að stuðla að hraðari umbreytingu orkukerfa. „Þessir ólíku hagaðilar hafa þær upplýsingar sem þarf fyrir góða ákvarðanatöku og frekara samstarf er því mikilvægt. Umbreyting orkukerfa tekur tíma og metnaðarfullum markmiðum þarf að fylgja eftir með raunhæfum aðgerðum í dag. Mikilvægt er að ríkisstjórn beiti reglugerðum og hvötum til þess að gæta almannahagsmuna en iðnaðurinn og orkufyrirtækin munu koma að lausnunum.“

Tækifærin og áskoranirnar

Spurð hvernig tækifærin og áskoranirnar séu á Íslandi í samanburði við önnur lönd segir Björk það skýrt að án frekari orkuöflunar verði ekki unnt að ná markmiðum um full orkuskipti á Íslandi. „Fyrir orkusækinn grænan iðnað hefur verið meiri óvissa um regluverk sem styður orkuskipti, hvata og fyrirsjáanleika í orkuöflun heldur en víða annars staðar.

Aðrar Norðurlandaþjóðir hafa til að mynda margar hverjar markað sér mun skýrari stefnu í þessum málaflokki. Þær sjá tækifærin sem felast í þeirri atvinnuuppbyggingu og nýsköpun sem orkuskiptin munu hafa í för með sér. Þetta sést síðan meðal annars á því að íslensk fyrirtæki, og þar á meðal CRI, sem starfa á alþjóðlegum mörkuðum hafa verið að forgangsraða þróunar- og uppbyggingarverkefnum erlendis.“

Stuðningur stjórnvalda mikilvægur

Stuðningi frá stjórnvöldum hefur að mestu verið forgangsraðað í rafvæðingu innlenda bílaflotans, en hvaða önnur skref telur Björk að séu mikilvæg til að stuðla að framgangi grænna lausna?

„Til þess að markmið náist í orkuskiptum á öðrum sviðum, svo sem þungaflutningum, sjávarútvegi og flugsamgöngum, þarf að koma til aukinn og annars konar stuðningur og regluverk. Mætti þar nefna stuðning við verkefnafjármögnun og einföldun á leyfisveitingaferli fyrir slík verkefni í samræmi við stefnu Evrópusambandsins. Áframhaldandi stuðningur við rannsóknir og þróun er einnig mikilvægur.“

Hvaða ráð myndir þú gefa öðrum fyrirtækjum sem vilja hefja ferðalag sitt í átt að sjálfbærari rekstri og hvaða áskoranir telur þú að þau gætu mætt á leiðinni?

„Það krefst ákveðinnar vinnu af stjórnendum fyrirtækja að setja sig inn í þennan málaflokk, að virkilega skilja þessa hluti og hvað er að eiga sér stað. Það þarf að skoða samspil regluverks og tæknilausna og horfa á heildarmyndina. Hafa hugrekki til að taka ákvarðanir og horfa á slíkar ákvarðanir sem fjárfestingu í framtíðarsamkeppnishæfni. Fyrirtæki þurfa svo að vera samkvæm sjálfum sér og sinni stefnu, jafnvel þó það sé ekki auðveldasti kosturinn til skemmri tíma litið,“ segir Björk að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert