Tækni og nýsköpun í heilbrigðisþjónustu

Arna Harðardóttir er framkvæmdastjóri Helix
Arna Harðardóttir er framkvæmdastjóri Helix Vísir/Vilhelm

Helix Health, áður þekkt sem heilbrigðislausnir Origo, stendur nú sem sjálfstætt dótturfyrirtæki innan félagsins og hefur áratugareynslu í þróun byltingarkenndra heilbrigðislausna.

Starfsemin byggist á tækni, hugviti og innsæi og miðar Helix að því að bæta líf þeirra sem þiggja velferðarþjónustu og þeirra sem veita hana. Fyrirtækið er í fremstu röð þegar kemur að nýsköpun í heilbrigðiskerfinu, þar sem markmiðið er að straumlínulaga kerfið, minnka útgjöld heilbrigðisstofnana og auka yfirsýn heilbrigðisstarfsfólks.

Helix sinnir þessu mikilvæga hlutverki með því að bjóða upp á ýmsar heilbrigðislausnir og fór blaðamaður á fund með Örnu Harðardóttur framkvæmdastjóra Helix til að spjalla um stórar breytingar og áskoranir í heilbrigðiskerfinu.

Stórar áskoranir

„Það eru miklar og stórar áskoranir sem heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir í dag og mikilvægt er að nýta tæknina til að kljást við þær. Helix er með ýmis verkefni þar sem við styðjum við kerfið og hjálpum því. Til að mynda er appið Iðunn fyrir hjúkrunarheimili algjörlega nauðsynlegt í því stóra verkefni sem öldrun þjóðar er. Iðunn hjálpar hjúkrunarheimilum að halda betur utan um skráningu á allri þeirri umönnun sem á sér stað á heimilunum.

Þetta er algjörlega nauðsynlegt upp á að auka gæði umönnunar og öryggi íbúanna. Þetta hjálpar líka hjúkrunarfræðingum og stjórnendum hjúkrunarheimila að fá betra yfirlit yfir starfsemi heimilanna, sem verður alltaf þyngri og þyngri,“ segir Arna og bætir við að Helix sé líka með í þróun lausnina Vissu sem snýr að því að valdefla einstaklinginn sjálfan.

„Einstaklingurinn sjálfur er mjög vannýtt auðlind í sinni meðferð innan heilbrigðiskerfisins og hægt að nýta hann mun betur. Einstaklingurinn getur þá í gegnum öruggar „mínar síður“ sett inn ýmsar upplýsingar sem auðvelda lækninum sitt starf. Vissa býður líka upp á fjarlækningamöguleika sem er núna í notkun til að mynda hjá Húðvaktinni og hefur verið gríðarlega góð reynsla af.

Til framtíðar þurfum við líka að nýta gögnin betur. Gögn eru grunnurinn að því að geta nýtt gervigreind innan heilbrigðistækninnar. Það er gríðarlegt tækifæri í því að nýta gervigreind til að styðja við daglegt starf heilbrigðisstarfsfólks og hagræða í rekstri. Gervigreindin getur kallað fram mikilvægustu upplýsingar um einstakling hverju sinni, forflokkað erindi svo þeim sé sinnt af réttum aðila og í réttri röð svo eitthvað sé nefnt.“

Fjárfesting í tæknilausnum

Spurð um helstu áskoranir við þróun og innleiðingu á nýjum tæknilausnum í heilbrigðisgeiranum bendir Arna á mikilvægi skýrrar framtíðarsýnar.

„Helsta áskorunin við að innleiða nýjar lausnir í heilbrigðiskerfinu er skortur á fjármagni til heilbrigðisstofnana til kaupa á heilbrigðistæknilausnum. Til að innleiða nýjungar sem eiga að hagræða í rekstri eða þjónustu til frambúðar þá þarf fjárfestingu til að koma lausnunum af stað, allt frá því að lausnin er keypt, þau tæki og tól sem þarf að kaupa til að nýta lausnina og mannskap til að koma innleiðingu í gegn og breyta núverandi ferlum.

Það þarf að gefa tíma og fjármagn í að innleiða lausnir almennilega og horfa á það sem fjárfestingu til lengri tíma sem kemur margfalt til baka. Það er nauðsynlegt að setja stefnu til framtíðar en ekki bara bregðast við vandamáli dagsins í dag. Þá er alltaf hætta á að það sé verið að plástra og búa til lausnir sem verða úreltar fljótt.“

Nýta tímann sem best

Það er mikið rætt í samfélaginu um mögulegar ógnir af völdum gervigreindar og oft beinist sá ótti að viðkvæmum málum eins og persónulegum upplýsingum um heilsu einstaklinga. Arna segir þó tækifærin gríðarmörg.

„Gervigreindin færir okkur svo mikil tækifæri og það sem er næst okkur í tíma í dag er gervigreind sem styður við ferla og rekstur. Hægt er að létta á starfi lækna til muna með því að nýta gervigreind til að forflokka og kalla fram réttar upplýsingar svo eitthvað sé nefnt.

Gervigreindin er ótrúlega spennandi tækifæri og afl til að hjálpa okkur að takast á við þær áskoranir sem eru nú þegar til staðar og eru stækkandi. Við fjölgum ekki læknum eða öðru heilbrigðismenntuðu starfsfólki á sama hraða og þörfin á heilbrigðisþjónustu eykst. Sem þýðir að við þurfum að nýta þann takmarkaða tíma sem heilbrigðisstarfsólk hefur mun betur og á réttum stöðum.“

Fyrirtæki og stofnanir

Helix vinnur nú þegar með ýmsum stofnunum og fyrirtækjum á Íslandi. Arna segir nauðsynlegt að vinna náið með endanotendum kerfanna til að skilja betur þarfir þeirra og væntingar. „Þar sem áskorunin sem við stöndum frammi fyrir er svo stór og umfangsmikil er nauðsynlegt að fyrirtæki snúi bökum saman og að við nýtum styrkleika hvers og eins til að vinna að sameiginlegu markmiði okkar allra. Hugmyndirnar, þekkingin og reynslan sem býr í íslenskum heilbrigðistæknifyrirtækjum er mikil og getur saman leyst allar þær tæknilegu áskoranir sem heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert