Þurfum að nýta samtakamáttinn

Samtök iðnaðarins eiga 30 ára afmæli í ár og á þessu afmælisári segir Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins að mikilvægt sé að líta bæði til fortíðar sem og framtíðar. „Af fortíðinni getum við lært það að allt breytist og þróast og við getum líka lært það að þau sem á undan okkur komu fengu góðar hugmyndir og hrintu þeim í framkvæmd. Þau náðu einhvern veginn að nýta samtakamátt til þess að vinna að framförum í samfélaginu.

Við þurfum einnig að virkja samtakamáttinn núna til þess að taka mikilvægar ákvarðanir og stuðla að framförum. Sem dæmi má nefna stöðu raforkumála þar sem skerðingar og möguleg skömmtun raforku er nýr veruleiki fyrir landsmenn og það er ekki útlit fyrir að það breytist mikið á næstu árum, en ný raforka kemur líklega ekki inn á kerfið fyrr en kannski eftir þrjú til fjögur ár.

Svo er það staðan í menntamálum. Það vantar til dæmis þúsundir sérfræðinga til starfa í hugverkaiðnaði á næstu árum ef vaxtaráætlanir eiga að ná fram að ganga. Skólakerfið mun ekki anna þeirri eftirspurn,“ segir Sigurður og bætir við að í nýlegri greiningu SI komi einnig fram að á næstu fimm árum þurfi 800 nýja rafvirkja til starfa og svipaða sögu sé að segja í flestum greinum iðnaðar.

„Á sama tíma og við sjáum þessa miklu þörf hefur á milli 600-1.000 umsóknum verið hafnað þegar kemur að iðnnámi á hverju ári vegna þess einfaldlega að það er ekki til skólapláss. Það vantar því ekki upp á aðsóknina heldur annar skólakerfið ekki eftirspurninni. Þetta eru dæmi um atriði sem eru ekki í lagi hjá okkur. Og svo má ekki gleyma innviðunum en staða þeirra er heldur ekki góð. Við þekkjum það ágætlega eftir atburði síðustu ára. Hvort sem það er Reykjanesið með þeim hörmungum sem hafa dunið yfir þar, óveður árið 2019 sem setti hluta landsins alveg á hliðina og varðskip þurftu að útvega rafmagn fyrir heilu bæjarfélögin svo dögum skipti og fleira í þeim dúr. Innviðir landsins eru brothættari en við viljum sjá.“

Mörg heimatilbúin vandamál

Sigurði verður því tíðrætt um að við sem þjóð þurfum að hrinda hugmyndum í framkvæmd. Það þurfi að taka ákvarðanir og það þurfi að framkvæma. „Á Iðnþingi var okkur mjög hugleikið að það er ákveðinn samtakamáttur sem þarf að vera til staðar. Samtakamáttur sem getur verið hjá litlum hópi sem tekur sig saman um að vinna einhverri hugmynd brautargengi eða jafnvel í samfélaginu sem tekur sig saman um að vinna að framförum.

Það eru yfirleitt mörg heimatilbúin vandamál sem okkur sem samfélagi auðnast einhvern veginn ekki að takast á við, hvort sem það eru orkumál, húsnæðismál eða staða innviða,“ segir Sigurður og viðurkennir að hann viti í raun ekki af hverju okkur takist ekki að leysa þessi vandamál. „Það vita allir af þessu, það vilja allir leysa úr því en svo bara einhvern veginn gerist það ekki. Ég veit ekki hvort það er erfiðara að taka ákvarðanir núna en það var, meðal annars út af samfélagsmiðlum. Ég held að það vanti ekkert upp á vilja eða annað en einhvern veginn gerist alltof lítið hjá okkur.“

Fyrirskjálftar í íslenskum iðnaði

Þá talar Sigurður um að það hafi verið aðdáunarvert að fylgjast með viðbrögðum og björgun á Reykjanesi og sérstaklega að sjá að iðnaðurinn var algjörlega klár þegar kallið kom. „Vélar og mannskapur var kominn á svæðið, beið eftir grænu ljósi frá Alþingi og ráðherra og hófust iðnaðarmenn handa um leið og merkið kom. Um leið og við þurfum að bregðast við og fáum verkefni í fangið þá förum við í málin og það gengur mjög vel hjá okkur. Þá eru okkur einhvern veginn allir vegir færir.

Við þurfum að tileinka okkur það á fleiri sviðum, skipuleggja okkur meira fram í tímann, líta á vandamálin og öll viðvörunarmerkin og bregðast við áður en það er í óefni komið. En þegar það er komið í óefni þá einhvern veginn er orðið of seint að taka á því og þá fyrst er brugðist við. Þetta eru fyrirskjálftarnir sem íslenskur iðnaður upplifir og ólíkt því sem gerist þegar kemur að náttúruöflunum þá höfum við stjórn á mörgum þessara áskorana og getum gripið til aðgerða og bætt úr.“

Verðmætur hugverkaiðnaður

Yfirskrift Iðnþings í síðustu viku var Hugmyndalandið og Sigurður talar um að það sé nauðsynlegt að virkja hugvitið í enn meiri mæli en nú er. Það sé okkar stærsta auðlind og þar felist tækifæri framtíðar. „Þá á ég við hugvit sem við notum alls staðar í samfélaginu en ekki bara í hugverkaiðnaði.

Á síðustu 30 árum hefur iðnaðurinn þróast mjög mikið og ég er sannfærður um að það mun líka verða mikil þróun á næstu áratugum, bæði verða nýjar greinar til sem og þróun í núverandi greinum. Við sjáum líka fram á að hugverkaiðnaður getur orðið verðmætasta útflutningsgrein hagkerfisins áður en þessi áratugur er á enda, ef rétt er á málum haldið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert