Umhverfismálin eru áríðandi

„Ég er mjög upptekinn af innviðum okkar. Atburðirnir á Reykjanesi sýna okkur að við megum ekki án þeirra vera. Við tökum þeim sem sjálfsögðum hlut í daglegu lífi okkar en þegar fólk finnur á eigin skinni hvernig það er að hafa ekki hitaveitu í nokkra daga þá skilur fólk betur hvað þetta er ofboðslega ómissandi,“ segir Reynir Sævarsson, stjórnarformaður Eflu og formaður Félags ráðgjafarverkfræðinga.

„Það má líka sjá þegar rætt er um viðgerðina á þessum skemmdum að við erum mjög knöpp með raforku, við megum varla við því að aftengja í einn dag því það er ekkert svigrúm í orkukerfinu til að taka neitt út. Það er misjafnt hvað heyrist í þjóðfélagsumræðunni, sumir segja að það sé orkuskortur og aðrir segja að það sé enginn orkuskortur. En að það sé hreinlega ekki hægt að slökkva á einni framleiðslu á raforku í einn dag finnst mér vera skilgreining á því að það sé alvarlegur orkuskortur í landinu.“

Mismunandi viðfangsefni

Í Félagi ráðgjafarverkfræðinga eru tæplega 30 fyrirtæki en talað er um að öll ráðgjafarverkfræðingastéttin hér á landi telji um 2.000 manns. Reynir segir að félagið hafi verið í Samtökum iðnaðarins í tíu ár og það hafi verið mikið heillaskref að ganga í samtökin.

„Við höfum stækkað við það auk þess að njóta góðs af starfinu þar og það er líka ánægjulegt að geta unnið saman með öðrum aðildarfélögum. Augljósasta dæmið um afrakstur þess að vera í samtökunum er innviðaskýrslan sem Félag ráðgjafarverkfræðinga gefur út með Samtökum iðnaðarins þar sem verkfræðingar hafa skoðanir á stöðu mála varðandi innviði en fyrirmyndina að svona skýrslu fengum við erlendis,“ segir Reynir og bætir við að viðfangsefnum ráðgjafarverkfræðinga hafi fjölgað síðustu ár.

„Þetta eru ekki eingöngu húsateikningar eins og var hér áður fyrr. Í dag hafa mörkin á milli mismunandi ráðgjafar máðst svolítið út og við komum inn á alls kyns greiningar, umhverfismál og alls kyns ráðgjöf tengda klassísku verkfræðinni. Við aðstoðum í raun bara við það sem viðskiptavinir okkar þurfa aðstoð við og þurfa að gera. Stærsta viðbótin er klárlega umhverfismálin sem eru orðin gríðarlega umfangsmikil, flókin og áríðandi.“

Óþægileg tilhugsun

Reynir tók þátt í umræðum á Iðnþingi hjá Samtökum iðnaðarins í síðustu viku þar sem hann fór aðeins yfir atburðina á Reykjanesskaganum, hvað hefði gengið vel og hvað væri fram undan. Hann segir mikilvægt að skoða hvort við höfum brugðist rétt við og hvað sé hægt að gera betur. „Við þurfum líka að skoða hvernig sé best að tækla þetta vandamál til lengri tíma því það stefnir allt í að þetta ástand vari í langan tíma. Það er alltaf hægt að gera betur og sérstaklega auðvelt að vera vitur eftir á.

Það hefur að mestu tekist að verja innviðina og auðvitað hefðum við kosið að vera búin að klára að undirbúa stofnlagnir fyrir hraunrennsli en hingað til hefur þetta svo sem sloppið til og gengið vel. En við erum alveg sérstaklega hrædd um stöðuna sem kæmi upp ef við misstum framleiðsluna á heitu vatni í Svartsengi út til lengri tíma. Við erum bara ekki tilbúin í þá sviðsmynd ennþá. Og það er mjög óþægileg tilhugsun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert