Sest í stjórn AST með Bretaprinsi

Haraldur Eiríksson togast á við vænan urriða í Gálufit í ...
Haraldur Eiríksson togast á við vænan urriða í Gálufit í Mývatnssveit. Nú bíða hans ný og áhugaverð verkefni með haustinu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Haraldur Eiríksson, einn af þekktari veiðimönnum landsins og umboðsmaður Hreggnasa ehf á Bretlandseyjum, hefur tekið sæti í stjórn AST eða Altantic Salmon Trust. Halli var tilefndur á stjórnarfundi og er kominn í afar virðulegan félagsskap, með Karli Bretaprinsi og mörgum fleiri stórmennum.

„Þau höfðu samband við mig eftir tilnefninguna og mér finnst þetta mikill heiður. Kannski sérstaklega í ljósi þess að ég er sá fyrsti sem tek sæti í stjórninni, sem ekki er breskur ríkisborgari,“ sagði Halli í samtali við Sporðaköst. „Fólkið í stjórninni og sem starfar fyrir hönd sjóðsins eru einstaklingar sem láta sig málefni laxins varða. Verndari sjóðsins er Karl Bretaprins og það skiptir náttúrulega miklu máli að sjóður eins og þessi njóti krafta einstaklinga í áhrifastöðum.“

Halli hefur enn ekki mætt á stjórnarfund en hefur setið nokkra aukafundi.

„Nú er í gangi risastórt verkefni á vegum sjóðsins sem gengur undir nafninu Missing salmon project. Þar erum við að merkja seiði á austurströnd Skotlands og fylgjast með þeim með gervihnöttum. Markmiðið er að reyna að átta sig á hvar afföllin verða. Þeim er sleppt í ár og svo er þeim fylgt á haf út og vonandi fæst þá skýrari mynd af hvar þau eru að farast eða týnast. Þetta geta orðið mjög dýrmætar upplýsingar og varpa líka ljósi á hvert fiskurinn fer í ætisleit.“

Haraldur Eiríksson með stórlax úr Höfðafljóti í Laxá í Dölum. ...
Haraldur Eiríksson með stórlax úr Höfðafljóti í Laxá í Dölum. Nú mun hann funda með annars konar stórlöxum. Skúli Kristinsson

Nú ert þú fyrsti einstaklingurinn utan Bretlands sem tekur sæti í sjóðnum. Varstu hissa?

„Já. Þetta kom mér á óvart. Ég varð frekar hissa.“

Hefurðu hugmynd af hverju þeir tilnefndu þig?

„Nei, en dettur helst í hug að ég er búinn að vera lengi í þessum bransa og þekki mörg andlit í þessum geira.“

Halli fer inn í þann hluta rekstrar sjóðsins sem sér annars vegar um fjármögnun og hins vegar vísindalegar rannsóknir. Sjóðurinn er með einn virtasta vísindamann á þessu sviði á launum. Það er Ken Wheelan og hann er Íri og hefur gegnt lykil hlutverki í rannsóknum á Atlantshafslaxinum.

Skiptir máli fyrir Íslandi að eiga fulltrúa í stjórn AST?

„Sjóðurinn horfir mikið til Íslands og ég held að það skipti meira máli fyrir þá. Þeir horfa til þess að laxveiðiám hér er vel stjórnað og svo hefur ekki farið framhjá þeim sú háværa barátta sem hefur farið fram gegn sjókvíaeldi á Íslandi. Sú barátta hefur verið mjög áberandi og við höfum farið nýjar leiðir.“

Hversu alvarleg er staðan sem AST er að horfa á í Skotlandi, Írlandi og víðar?

„Grafalvarleg. Gríðarlega alvarleg. Þeir eru með miklu lengra veiðitímabil en er á Íslandi og efnahagsáhrifin er margföld þar á við hér heima. Veiðin hefur hnignað ótrúlega mikið og í sumum þessara áa er veiði í raun og veru sjálfhætt og ætti að loka þeim.“

Halli tekur sem dæmi að hann hafi verið að veiða hina fornfrægu laxveiðiá Tweed í Skotlandi fyrir skemmstu og hann var að forvitnast um samfélagslegu áhrifin þar sem laxagengd hefur dregist ótrúlega saman. Hann fékk þær upplýsingar að í föstu starfi væru 62  leiðsögumenn. Þetta var að vori til og yfir sumarið fjölgar þeim upp í áttatíu. Hann segir að svo megi bæta við hótelunum, bílaleigunum og öllu öðru sem veiðimenn þurfa að kaupa þjónustu af. Þarna eru milljarðar króna í húfi, þar sem veiðitímabilið er tíu mánuðir.

Hvenær ertu að fara á fyrsta fund og hitta Karl Bretaprins?

„Ég á nú ekki von á því að hann sitji alla fundi,“ hlær Halli. „Ég reikna með að byrja af krafti í haust þegar veiðitímabilinu er lokið hér heima á Íslandi.“

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is