Húseyjarkvísl stefnir í slakt meðalár

Síðasta holl í kvíslinni landaði tólf löxum. Þar var á …
Síðasta holl í kvíslinni landaði tólf löxum. Þar var á ferðinni félagsskapur sem kallar sig Mokveiðifélagið og þeir stóðu undir nafni. Hér er háfað fyrir ungan veiðimann. Ljósmynd/Aðsend

Húseyjarkvísl er ein af þessum skemmtilegu tveggja stanga ám sem oft gefa ótrúlega veiði, sérstaklega þegar horft er til stangafjölda. „Það hefur bara gengið mjög vel hjá okkur. Það eru komnir 76 laxar í bók og við getum ekki kvartað í þessu árferði,“ sagði Valgarður Ragnarsson, leigutaki að Húseyjarkvísl í Skagafirði, í samtali við Sporðaköst.

„Síðasta holl var með tólf laxa og sá töluvert af fiski í ánni. Mér sýnist á þessu að við séum að fara að enda í svona 120 til 160 löxum. Meðalveiðin hjá okkur er um 200 laxar á sumri. Þetta stefnir í lélegt meðalár hjá okkur,“ sagði Valgarður eða Valli eins og hann er kallaður. Þegar spurt er um magn af fiski í ánni svarar hann að það sé algerlega í flútti við veiðina. Það þýðir að það er heldur minna en í meðalári.

„Þó að kvíslin fari aldrei undir 5,7 rúmmetra þá er þetta erfitt. Vatnið er fúlt og staðið. Fiskurinn gengur illa upp ána. Við vonum að um leið og kólni aðeins þá fari hlutirnir að gerast. Það er einmitt útlit fyrir kuldakafla og það hentar okkur vel. Svo er sjóbirtingurinn að fara að mæta og það hressir upp á þetta.“

Valli segist gjarnan hafa viljað fá meira af smálaxi en það er töluvert af stórlaxi í Húseyjarkvísl.

„Við erum með einhverja 45 tveggja ára fiska í bók þannig að restin er smálax, en þeir mættu vera fleiri. Þetta stefnir í lélegt meðalár hjá okkur,“ sagði Valli í samtali við Sporðaköst.

Nú stefnir í rigningar norðan heiða en Valli hefur efasemdir. Það þurfi hreinlega syndaflóð. „Það rigndi um daginn og rigndi bara helling og hún fór úr sex rúmmetrum í 7,4 rúmmetra. Svo hætti að rigna og hún datt hratt niður í sex rúmmetra aftur. Það eina sem gæti breytt þessu er vikurigning og að allt fari í kakó.“

Valli hefur ekki landað hnúðlaxi, en hefur hins vegar séð þá og er það eins og í flestum ám á Íslandi þetta sumarið.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
105 cm Blanda Nigel Hawkins 8. júlí 8.7.
104 cm Svalbarðsá Viggó Júlíusson 6. júlí 6.7.
104 cm Nesveiðar Hugo 29. júní 29.6.
104 cm Nesveiðar Aron Pálmarsson 27. júní 27.6.
107 cm Nesveiðar Hilmar Hafsteinsson 25. júní 25.6.
101,5 cm Laxá í Kjós Guðjón Þ. Guðjónsson 23. júní 23.6.
101 cm Blanda Pétur Pálsson 21. júní 21.6.

Skoða meira