Súddi, maðurinn sem spáði meti í Jöklu

Þessi 86 sentímetra hrygna veiddist í Hólaflúð í Jöklu í …
Þessi 86 sentímetra hrygna veiddist í Hólaflúð í Jöklu í morgun. Veiðimaður er Árni Kristinn Skúlason. Ljósmynd/Aðsend

Súddi Ólafur Staples, staðarhaldari og allt í öllu í Breiðdalsá og Jöklu, spáði meti í Jöklu í sumar. Í byrjun maí var Súddi í viðtali á Sporðaköstum og staðhæfði hann þá að Jökla myndi setja met.

Hann byggði þessa spá sína á tvennu. Í fyrsta lagi að staðan á Hálslóni var mun betri en síðustu tvö ár, þegar Jökla fór á yfirfall í byrjun ágúst. Og svo hitt, „Ég var búinn að sjá síðustu tvö ár, rétt fyrir yfirfall sem var bæði árin, fjórða ágúst, að laxinn var að hellast inn. Var að ganga af miklu krafti. Þannig að ég vissi að ef áin fengi frið fyrir þessu yfirfalli þá myndum við setja met. Það var aldrei ef í mínum huga,“ sagði Súddi í samtali við Sporðaköst í dag.

Súddi Ólafur Staples spáði meti og það gekk eftir. Súddi …
Súddi Ólafur Staples spáði meti og það gekk eftir. Súddi þekkir sína heimasveit. Ljósmynd/Aðsend

Nokkuð er síðan að yfirfallið hætti. En það var samt ekki fyrr en í gærkvöldi sem Jökla var orðin veiðanleg á nýjan leik. Sökum þurrka hafa hliðarárnar verið að skila minna vatni og því tekur lengri tíma fyrir Jöklu að hreinsa sig. 

Súddi landaði þremur löxum í morgun í Jöklu. „Félagi minn var með tvo, sem ég vissi um og svo voru karlarnir upp í Hólaflúð búnir að fá eitthvað. Ég veit ekki hvað marga. Það kæmi mér ekki á óvart að þetta yrði fimmtán til tuttugu laxa dagur. Nú er fullt af mannskap á leiðinni og ætlar að veiða fram til þrítugasta, sem er loka dagur. Skelfirinn, Þröstur Elliða og fleiri kappar eru á leiðinni.“

Hann býst allt eins við því að Jökla sleiki töluna níu hundruð ef vel gengur. Nú hafa veiðst 830 laxar í Jöklu en besta veiði fram til þessa var árið 2015 þegar hún gaf 815 laxa.

„Svo er svo magnað hvað mikið af ánni er ókannað. Við erum ekki að veiða nema í mesta lagi fjörutíu prósent af ánni. Ég ætla næsta sumar að eyða tíma í að finna nýja veiðistaði. Það er nóg af þeim en maður þarf bara að kortleggja þetta og vísa svo mönnum þangað,“ sagði Súddi sem var ánægður með stöðuna.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira