Norðurá gefi 3000 laxa hvernig sem árar

Gylfi Þór Sigurðsson opnaði Norðurá með Einari Sigfússyni vorið 2017. …
Gylfi Þór Sigurðsson opnaði Norðurá með Einari Sigfússyni vorið 2017. Nú verður opnunardagurinn 4. júní. Óvíst er hverjir verða gestir. Ljósmynd/Instagram

Ein af þeim laxveiðiám sem margir horfa til með nokkurri eftirvæntingu er Norðurá í Borgarfirði. Opnunardagurinn er 4. júní. Einar Sigfússon er umsjónaraðili Norðurár og hefur verið það um nokkurra ára skeið. Hvernig er hans tilfinning nú þegar styttist mjög í að veiðitímabilið hefjist?

„Þær tilfinningar eru nokkuð blendnar. Ég er nú bjartsýnn að eðlisfari en tvö undanfarin sumur hafa kippt mann svolítið niður á jörðina. Ég var nú sérstaklega óhress með síðasta sumar. Við vorum með væntingar um ágætis veiði og fiskifræðingar höfðu fylgt okkur að hluta í því máli. Mér fannst vanta skýringar á hvers vegna það gekk ekki eftir. Ég var búinn að heyra kenningar um að vargfugl hefði tekið mikinn toll af seiðum þar sem árnar hefðu verið erðið svo vatnslitlar. Mér fannst það ekki nægileg skýring. Ég horfi bara til Dalaánna. Þær eru alltaf vatnslitlar þegar kemur fram í júlí og ágúst og fuglinn er alltaf í veislu þá. En þær skila alltaf sínu. Svo heyrði ég viðtal við Guðna Guðbergsson fiskifræðing síðla árs í fyrra og þá hann minnti á að hrygningin sem fór fram 2014 og klaktist út 2015 hún hefði verið með því lélegasta sem hann hefði nokkurn tíma séð. Hann minnti á að fiskifræðingar hefðu spáð slökum árum 2019 og 2020. Ég verð að viðurkenna að ég var feginn að heyra einhverja rökræna skýringu.

Nýgenginn og kröftugur lax kominn í háfinn í Norðurá.
Nýgenginn og kröftugur lax kominn í háfinn í Norðurá. mbl.is/Einar Falur

En varðandi sumarið í sumar þá nefni ég fyrst til sögunnar að oft hefur farið saman góð grásleppuvertíð og góð laxveiði. Nú hef ég heyrt frá grásleppukörlum og það gengur vel. Það eykur manni bjartsýni en ég verð að segja að ég er ekki að búast við einhverju metsumri, en vonandi meðalári hvað veiðina varðar,“ sagði Einar Sigfússon í samtali við Sporðaköst.

Hann hefur fengið álit frá fiskifræðingum og hann segir þá vera að spá ágætu sumri.

„Ég ætla alveg að trúa því að þetta verði þokkalegt sumar. Hins vegar vekur það alltaf spurningar hjá manni hvað þessar ár eru sveiflukenndar. Norðuráin hefur orðið frekar illa úti í umræðunni því hún er oft tekin sem dæmi. En ég hef séð að þetta er í grunninn sama sveifla og er á Borgarfjarðarsvæðinu og í Húnavatnssýslunum. Rafn Alfreðsson hefur verið mjög klókur með Miðfjarðarána og farið þar í hrognagröft og fleira og það hefur komið vel út. Miðfjarðaráin stendur alveg upp úr og hann á heiður skilið fyrir þetta.

Einar Sigfússon vill að markmiðið verði að koma Norðurá í …
Einar Sigfússon vill að markmiðið verði að koma Norðurá í 3000 laxa veiði, óháð árferði. mbl.is/Golli

Við erum að fara þessa sömu leið og drógum á síðasta haust og erum í gangi með hrognagröft og fáum núna sumar alin seiði sem við ætlum að sleppa í hliðarárnar og læki og á svæði sem ekki er full setin. Næsta sumar fáum við gönguseiði úr þessum ádrætti sem við ætlum að setja í sleppitjarnir. Það liggur fyrir að þessar ár þurfa bara fullan stuðning. Ég hef sagt við bændur í Norðurárdalnum að við þurfum að horfa á eitthvert sameiginlegt markmið með þessum aðgerðum. Ég tel að það markmið eigi að vera þrjú þúsund laxa veiði á ári, sama hvernig árar hún á að skila þrjú þúsund löxum á ári. Þá þarf ekki að hafa áhyggjur af sölu eða veiði eða neinu. Þetta á í raun og veru við um allar þessar ár á Borgarfjarðarsvæðinu. Þær líða allar fyrir það sama.“

Frá Berghylsbroti í Norðurá. Náttúrufegurðin er mikil við ána á …
Frá Berghylsbroti í Norðurá. Náttúrufegurðin er mikil við ána á löngum köflum. nordura.is

Einar viðurkennir að þetta sé háleitt markmið en bendir á Norðausturhornið. Þar hefur verið stunduð mikið ræktunarstarfsemi og það hafi skilað sér og sé til fyrirmyndar.

Í ádrættinum síðasta haust kom ein hrygna sem mældist yfir hundrað sentímetrar, og segir Einar það í takt við þá aukningu sem er á stórlaxi í Borgarfjarðaránum og hefur verið stígandi í nú nokkur ár í röð.

Nokkrar breytingar verða í sumar á efra svæði Norðurár, svokallað Norðurá II. Nýtt veiðihús verður í boði er það í landi Háreksstaða í Austurhlíð dalsins, skammt frá Króki. Þar eru fjögur svefnherbergi með sex uppá búnum rúmum og huggulegt hús að mati Einars.

„Ég hef lagt það til núna við bændur að við breytum aðeins Norðurá II. Við erum með þrjár hliðarár sem hafa verið friðaðar. Það er Bjarnadalsá, Sanddalsáin og Hellisáin. Maður hefur heyrt sögur af veiðiþjófnaði og það er erfitt að vera með öflugt eftirlit með svo víðfeðmu vatnasvæði. Ég hef lagt til við bændur að ein af þeim þremur stöngum sem eru leyfðar megi vera í þessum hliðarám.“

Hann telur það bestu vörn gegn veiðiþjófnaði að veiðimenn séu á svæðinu og ígildi veiðieftirlits. Öllum fiski ber að sleppa í hliðaránum, enda hafa þær verið friðaðar í ljósi þess að þær eru taldar mikilvægir uppeldisstaðir. Eins og fyrr segir má aðeins ein stöng í einu vera í hliðaránum. Þetta mun hins vegar auka verulega möguleika veiðimanna á svæðinu.

„Íslendingar eru svolitlir Livingstonar í sér og hafa gaman af að kanna ný svæði og leggja ýmislegt á sig fyrir lax. Ég held að þetta geti verið sniðug viðbót og þessi tillaga verður tekin fyrir á aðalfundinum sem vonast er til að hægt að halda síðari hluta mánaðarins. Veiðin í Norðurá II byrjar 6. júlí þannig að menn hafa nægan tíma til að klára þetta.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira