Ísbjörninn sat fyrir þeim í bátnum

Árni Baldursson kominn í flugstjórnarklefann á leið til Great Whale …
Árni Baldursson kominn í flugstjórnarklefann á leið til Great Whale til að veiða lax í afar afskekktri á í Kanada. Ljósmynd/Valgerður Árnadóttir

Ævintýramaðurinn Árni Baldursson er löngu orðin eins konar lifandi goðsögn meðal veiðimanna. Nú er þessi víðförli atvinnuveiðimaður á heimleið úr nýjasta ævintýraleiðangrinum sínum. Hann veiddi í viku í einni nyrstu laxveiðiá Kanada sem fóstrar Atlantshafslax. Þetta er Great Whale áin í Quebec héraði sem á ós í Hudsonflóa.

Árni lýsir ferðinni sem stórkostlegu ævintýri og segist tilbúinn að leggja á sig þetta ferðalag á hverju ári þar til hans drepst, svo notað sé hans orðalag. Með í för var dóttir hans Valgerður Árnadóttir, eða Vala litla eins og hann kallar hana.

Flogið er frá Montreal og alls eru þetta þrír leggir …
Flogið er frá Montreal og alls eru þetta þrír leggir þaðan áður en komið er á áfangastað. Ljósmynd/Árni Baldursson

Ferðin hófst með flugi til Montreal í Kanada og þaðan var flogið í nokkrum leggjum upp til Great Whale. „Við flugum tvisvar með svona flotflugvél sem gat lent á vatni og enduðum loks í kampinum sem er byggður á eyju svo erfiðara sé fyrir ísbirnina og öll hin bjarndýrin að komast að veiðimönnum,“ sagði Árni í samtali við Sporðaköst í gærkvöldi og var þá kominn aftur til Montreal.

Fyrsta spurning var að sjálfsögðu hvort þau hefðu komist í tæri við birni. Svo var ekki. „En það er ekki langt síðan að spurðist til hvítabjarnar í eyjunni og hann var svangur, horaður, reiður og illskeyttur. Það var mikið búið að leita honum en hann fannst ekki. Menn voru hræddir vitandi af dýrinu í eyjunni. Svo þegar veiðimenn komu út um morguninn og ætluðu um borð í bátana þá hafði hann falið sig í einum bátnum. Lá í honum og stökk á þá. Þetta var bara fyrirsát. Leiðsögumennirnir voru sem betur fer með riffla og gátu skotið hann.“

Vala að landa einum mörgum löxum sem þau feðgin veiddu …
Vala að landa einum mörgum löxum sem þau feðgin veiddu í ferðinni. Bæði segja þau þetta hafa verið mikla lífsreynslu. Ljósmynd/Árni Baldursson

Árni segir að veiðihúsið sé um sjötíu kílómetra inni í landi og hvítabirnirnir eru mest við ströndina. „Svo er iðulega eitthvað af dýrum sem verður eftir á svæðinu þegar kemur sumar og þeir geta verið hættulegir. Veiðihúsinu var valinn staður í eyju þannig að birnirnir þurfi að hafa fyrir því að synda þangað, en það hefur gerst nokkrum sinnum.“

Einn veturinn hreiðruðu skógarbirnir um sig í stærsta húsinu í aðstöðu veiðimanna og áttu þar afkvæmi og létu fara vel um sig. Þegar rekstraraðilar mættu svo að vori höfðu birnir yfirgefið svæðið en húsið var hreinlega ónýtt og þurfti að byggja það upp á nýjan leik.

Margir laxar sluppu enda víða gríðarlegur straumþungi í Great Whale …
Margir laxar sluppu enda víða gríðarlegur straumþungi í Great Whale ánni. Í baksýn má sjá hluta af fossasvæðinu. Ljósmynd/Valgerður Árnadóttir

En veiðin. Hvernig var hún?

„Alveg mögnuð. En það er svo skrítið í þessari stóru og miklu á að laxinn lítur ekki við neinu nema mjög smáum flugum. Þú getur alveg kastað þarna stórri Snældu í viku og færð ekki högg. Það vildi svo skemmtilega til að við hittum þarna dóttir mannsins sem fann þessar ár á sínum tíma og byggði upp aðstöðu fyrir veiðimenn. Hún var með ösku foreldra sinna og var að fara dreifa henni þarna á svæðinu. Pabbi hennar, doktor Manning tók upp á því 94 ára gamall að deyja og sama dag þá missti konan hans lífsviljann og dó líka, 98 ára gömul. Alveg mögnuð saga.

En það eina sem virkar á þennan fisk eru smáar flugur og allt með Portlandsbragði. Bara hitch, hitch og aftur hitch. Þetta er sko tröllaá. Ég hljóp af stað með stórar flugur í þessari stóru á. Nei, ekkert slíkt. Það er bara flotlína og fínir taumar og flugur á bilinu átta til fjórtán. Green But og Green Machine einkrækjur. Íslensku micro hitchin voru að svínvirka þarna. Hann alveg bilaðist í það. Maður gat notað Sunray í fossum og flúðum en hvergi annars staðar. Þetta er alveg stórfurðulegur lax. Hann er eitthvað svo fíngerður þegar kemur að fluguvali. En ef maður er með réttu tækin þá er hann tökuglaður. Þetta eru stórmerkilegir fiskar. Það var magnað að upplifa að maður gat jafnvel reist sama laxinn aftur og aftur. Maður þurfti að skipta endalaust um flugur. Maður reisti hann og svo hætti hann að koma þangað til maður skipti um flugu og þá kom hann aftur. Svona gekk þetta oft og svo á endanum tók hann.“

Flottur og nýgenginn lax sem tók þurrflugu eða bomber hjá …
Flottur og nýgenginn lax sem tók þurrflugu eða bomber hjá Völu. Tuttugu sinnum var hún búin að sjá þá ógna flugunni áður en einn tók hana. Ljósmynd/Árni Baldursson

Þau feðgin veiddu líka á þurrflugur eða bombera og sagði Árni að það hefði hreinlega verið stórkostlegt. „Litla Vala fékk æðislegan lax í einhverri fossholunni. Hún var tuttugu sinnum búinn að fá viðbrögð þar sem þeir komu og ógnuðu flugunni með opinn kjaftinn og gerðu sig líklega. Svo allt í einu kom einn og negldi það.“

Er mikið af stórum laxi þarna? Fengu þið eitthvað stórt?

„Þeir kölluðu þetta tuttugu pundara en mér fannst það vera svona stærst átján pund. Alveg svona hrein átján pund. Ég missti þrjá fiska sem voru vel yfir tuttugu pund. Einn synti í gegnum háfinn. Reif bara netið og synti burt með línu, flugu og háfinn. Þetta voru alveg trylltir fiskar. Maður missir alla þessa stóru sem maður setur í þarna í fossunum. Átt bara ekki séns. Svo eru rólegri veiðistaðir líka og þar nærðu þessum fiskum.

Það var mest af svona tíu til fjórtán punda fiskum sem voru að veiðast. Svo er líka töluvert um átján til tuttugu plús. En það er ekki mikið um smáan lax á svæðinu.“

Flestir laxarnir voru á bilinu tíu til fjórtán pund en …
Flestir laxarnir voru á bilinu tíu til fjórtán pund en Árni missti líka þrjá sem hann telur sig vita að voru yfir tuttugu pund. Ljósmynd/Valgerður Árnadóttir

Og aðstaða fyrir veiðimenn er hún góð?

„Já. Það fór vel um alla. Þarna eru leyfðar sex stangir og nóg pláss fyrir alla. Þessi kampur var byggður 1970 og hefur ekkert breyst. Nýir ættliðir fjölskyldunnar taka bara við og nú voru hjón með þrjú börn að reka þetta. Allt er eins, meira að segja matseðillinn hefur ekkert breyst. Það er allt eins. Eins og þetta var allt stórkostlega fínt þá er þetta allt frekar hrátt og það er líka svo fallegt. Maturinn var mjög góður en frekar einfaldur og engin froða eða svoleiðis.“

Það er ekkert grín að takast á við stórlax við …
Það er ekkert grín að takast á við stórlax við þessar aðstæður. Grannur taumur og smáfluga. Laxinn á mikinn séns í þessum straumþunga. Ljósmynd/Árni Baldursson

Verðið á veiðileyfi í Great Whale ánni var rétt rúmlega þúsund dollarar á dag fyrir Covid. Það verð hefur væntanlega eitthvað hækkað síðan en þúsund dollarar leggja sig á rétt tæpar 140 þúsund íslenskar og það var verð fyrir stöngina, með fæði, leiðsögumanni og flugi með flotflugvélinni. Hollin þarna eru vikutími enda ferðalagið langt.

Kominn til Montreal og í skyrtunni dýru. Hún eyðilagðist á …
Kominn til Montreal og í skyrtunni dýru. Hún eyðilagðist á veitingahúsi skömmu eftir að þessi mynd var tekin. Ljósmynd/Valgerður Árnadóttir

Ekkert símasamband er á svæðinu en Sporðaköst náðu tali af Árna Baldurssyni þegar þau feðgin voru komin til Montreal á heimleið til Íslands. „Úff. Ég lenti í hræðilegu hérna í borginni. Ferðataskan er bara úldin. Táfýlan er slík upp úr henni að ég hugsa að ég hendi henni bara. Maður hefur ekkert þvegið í tíu daga og ég ákvað að kaupa mér skyrtu og fór inn í einhverja búð og mátaði margar. Fann svo eina sem passaði rosa vel og ég skellti mér í hana og tók upp kortið. Þá kostaði hún 340 dollara. Það er bara einhver fimmtíu þúsund kall. Ég gat ekki bakkað út úr þessu þar sem ég var byrjaður að svitna í hana og allt. Ég hef aldrei keypt svona dýra skyrtu. En afgreiðslumaðurinn sagði að þetta væri flottasta merki í skyrtum í heiminum. Ég man ekki hvað það heitir.“

Eftir að hafa svitnað í skyrtunni fram á kvöld í miklum hita í borginni, endaði þessi saga ekki vel því sósa heltist yfir hana á veitingastað um kvöldið og segir Árni skyrtuna ónýta.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.
101 cm Víðidalsá Rögnvaldur Guðmundsson 12. september 12.9.
103 cm Ytri - Rangá Adrian Stauss 8. september 8.9.

Skoða meira