Hundrað laxar á átta stangir - T&S í Jöklu

William Daniel deildi stöng með Jim Coates sem skrifaði greinina …
William Daniel deildi stöng með Jim Coates sem skrifaði greinina í Trout and Salmon. Hér er William með einn af nokkrum löxum sem þeir félagar lönduðu. Ljósmynd/Strengir

„Það er til á þar sem laxastofninn hefur stækkað síðustu ár.“ Með þessum orðum hefst grein í nýjasta tölublaði Trout and Salmon um Jöklu. Umfjöllunin er hvorki meira né minna en tíu síðna grein hlaðin lofi á þessa „nýju“ laxveiðiá og fær Þröstur Elliðason leigutaki og frumkvöðull laxveiði í Jökulsá á Dal sem í daglegu tali er nefnd Jökla, sinn skerf af hrósinu.

Greinarhöfundur, Jim Coates veiddi Jöklu í júlí í sumar sem leið ásamt William Daniel sem vinnur með Þresti Elliðasyni að sölu og markaðssetningu á Jöklu til erlendra veiðimanna. Lárus Karl Ingason og Jim sjálfur tóku þær myndir sem prýða frásögnina.

Jim lýsir því í upphafi hvernig landslag Jöklu og nágrennis gerir hann nánast orðlausan. Hann líkir því við Skotland og Kólaskaga en svo á milli koma kaflar sem eru einfaldlega bara á Íslandi.

Í greininni rekur hann tilurð Jöklu, ef svo má segja. Þegar Hálslón varð til og megnið af jökulleirnum settist þar til botns og í framhaldi varð Jökla tær og hentugra búsvæði fyrir laxinn. Eftir sem áður voru tvö verkefni sem voru lykilatriði í að koma Jöklu á þann stað sem hún er á í dag. Sprengja haft sem var í ánni til að opna hrygningarstöðvar og fiskveg lengra fram á Dal. Svo var það hitt. Þröstur fór í að hjálpa náttúrulega stofninum með því að ala seiði og sleppa.Jim gerir skýran greinarmun á annars vegar ám sem byggja alfarið á seiðasleppingum og þeirri hjálp og flýtimeðferð sem Þröstur fór í með stofninn í Jöklu. Hann segir Þröst „heilann“ á bak við verkefnið og þar er engu logið.

Hugguleg lesning á laugardagsmorgni. Greinin er jákvæð umsögn um Jöklu …
Hugguleg lesning á laugardagsmorgni. Greinin er jákvæð umsögn um Jöklu á tímum þar sem lítið er um jákvæðar fréttir þegar kemur að laxastofnum. Já það er til á þar sem laxastofn fer stækkandi. Ljósmynd/ES

Fyrirsögn greinarinnar er „DYNAMITE FISHING“ og vísar þar bæði til þeirra aðgerða sem heimamenn fóru í að sprengja niður fyrirstöðu og hitt að veiðin fannst honum mögnuð. Jim veltir fyrir sér hvernig hefði gengið að fá leyfi fyrir sprengingum hjá yfirvöldum í Bretlandi. Hann veltir líka fyrir sér hvað Þröstur gæti gert fyrir árnar þeirra - sem sagt á Bretlandseyjum.

Það er ekkert skilið eftir í greininni. Fjallað er um yfirfallið sem stöðugt vofir yfir Jöklu þegar líður fram á sumar. Kemur fram að í meðalári er dagsetningin 20. ágúst en síðasta sumar hafi það gerst mun fyrr. Á köldu sumri geti yfirfallið komið í september og Jim bendir á í glettni að slík sumur geti komið á Íslandi.

Jim klikkir út með því að þær fjórar nætur sem hann dvaldi í Jöklu í júlí hafi hundrað laxar veiðst á stangirnar átta. Yfirfallið kom snemma úr Hálslóni í fyrra. Þegar það gerist verður áin jökullituð og veiðin verður nánast ómögulega nema í hliðaránum. Í fyrra var mokveiði í Jöklu þegar þessi tími rann upp. Samt fór Jökla í 520 laxa í heildarveiði. Haldi áfram sem horfi og yfirfallið komi ekki fyrr en í lok vertíðar á Jökla inni að fara vel yfir þúsund laxa.

Þröstur Elliðason sem er með Jöklu á leigu fær hrós …
Þröstur Elliðason sem er með Jöklu á leigu fær hrós og viðurkenningu í greininni. Hann segist finna það núna að Jökla sé komin á kortið í hinum alþjóðlega veiðiheimi. Ljósmynd/Strengir

Grein Jim Coates er mikil lofgjörð um Jöklu og það á tímum þar sem lítið er um góðar fréttir af laxastofnum Atlantshafsins. Hún vekur líka athygli á laxveiðum á Íslandi almennt. Þröstur Elliðason sagði í samtali við Sporðaköst að hann hefði þegar fundið fyrir miklum áhuga og fengið fyrirspurnir vegna greinarinnar. Hann segir greinilegt að Jökla sé komin á kortið sem spennandi valkostur í laxveiði og hafi hann fengið það staðfest á þeim sýningum erlendis sem hann hefur sótt í vetur.

Trout and Salmon hefur verið gefið út óslitið frá árinu 1955 og er eitt af virtari tímaritum í Evrópu um sportveiði. Á forsíðu segir að T&S hafi verið rödd sportveiðinnar frá 1955.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert