Bjartara yfir vorveiðinni í ár en í fyrra

Veiðimaðurinn Mark með sinn annan fisk úr North Esk í …
Veiðimaðurinn Mark með sinn annan fisk úr North Esk í morgun. Hann var að veiða á Canterland svæðinu. Þetta er þykkur og glæsilegur lax. Ljósmynd/Atlantic Salmon Fishing

Fyrstu vorlaxarnir sem hafa veiðist á Írlandi og í Skotlandi eru fáir og langt á milli þeirra. En, og það er stórt en. Þeir eru fleiri en í fyrra og tóninn í veiðiáhugafólki á þessum slóðum er jákvæðari en síðustu ár. Erfitt er að segja nákvæmlega til um af hverju það stafar en sá tónn er þó rökstuddur með aðeins fleiri fiskum á þessum fyrstu vikum veiðitímans.

Þeir veiðimenn sem Sporðaköst hafa verið að ræða við á þessum slóðum síðustu daga segja í raun og veru allir það saman, með mishörðum skoskum eða írskum hreim. „Þetta er það snemmt að það er lítið að marka stöðuna. En við erum að heyra af fleiri fiskum.“ Þessi tilvitnun er samsuða úr þeim svörum sem hafa borist.

Silfraður sautján pundari sem veiddist í Tay í dag á …
Silfraður sautján pundari sem veiddist í Tay í dag á Cargill svæðinu. Veiðimaðurinn fullyrti að hann hefði komið inn á síðdegisflóðinu. Útlitið bendir til þess. Ljósmynd/Atlantic Salmon Fishing

Myndir á samfélagsmiðlum eru fleiri en í fyrra og í raun fleiri en síðustu ár. Þessar myndir gleðja og fiskarnir eru svo magnaðir. Hvítir, þykkir og með marglita silfurgljáa sem gjarnan skín af nýgengnum fiski.

Fiskarnir sem hafa verið að veiðast þessar fyrstu vikur eru á bilinu átta pund og upp í tuttugu plús. Vel haldnir og þykkir.

Dagurinn í dag var sá líflegasti til þessa í skosku ánum. Flottum sautján punda hæng var landað í ánni Tay og fullyrti veiðimaðurinn sem fékk hann að hann hefði verið að koma inn á flóðinu. Sett var í nokkra fiska í North Esk og tveimur landað. Nokkrir misstir. Það virðist vera aðeins stígandi í þessu eins og þetta á að vera. Margir benda þó á að lítið sé að marka stöðuna fyrr en í apríl. En þeir eru að reitast upp og það er jákvætt.

Laxi sleppt í ánni Oich í Skotlandi í morgun. Þeir …
Laxi sleppt í ánni Oich í Skotlandi í morgun. Þeir hafa nokkrir veiðst þar þessa fyrstu daga. Almennt ríkir meiri bjartsýni í Skotlandi í upphafi veiðitímans. Vonandi eru innistæða fyrir henni. Ljósmynd/Atlantic Salmon Fishing

Áin Spey gaf lax á opnunardegi og sama má segja um North Esk en þær eru báðar fremur norðarlega í Skotlandi. Sömu sögu er að segja af Oich sem rennur í Loch Ness. Staðan er svipuð að á Írlandi en þar hafa undanfararnir verið að veiðast og var nýgengnum löxum landað þar í vikunni á nokkrum stöðum.

En eins og sagði í upphafi, þeir eru fáir og langt á milli þeirra en engu að síður fleiri en í fyrra. Hvort þetta er eitthvað fyrir íslenska veiðiáhugamenn til að lesa í er spurning. Hins vegar eru þeir vel haldnir og það bendir til góðra skilyrða á fæðuslóð.

Laxveiðitímabilið á Íslandi hefst 1. júní þegar Urriðafoss í Þjórsá opnar. Þangað til eru ekki nema 104 dagar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert