Ný laxveiðiá „í smíðum“ – Laxá á Keldum

Guðmundur Ingi Hjartarson og Lýður Skúlason hafa lagt mikla vinnu …
Guðmundur Ingi Hjartarson og Lýður Skúlason hafa lagt mikla vinnu í verkefnið Laxá á Keldum undanfarin ár. Dommi er framkvæmdastjóri og Lýður stjórnarformaður félagsins sem stofnað var um verkefnið. Ljósmynd/GIH

Ný laxveiðiá er „í smíðum“ ef svo má taka til orða. Stórhuga veiðiáhugamenn hafa undanfarin ár verið að sleppa löxum og laxaseiðum ofan við Tungufoss í Eystri–Rangá. Sá foss er ekki laxgengur en þar fyrir ofan tekur við 23 kílómetra langt svæði sem lax gæti nýtt sér og að öllum líkindum hrygnt á. Undirbúningsvinna hefur staðið í nokkur ár og það er einkahlutafélagið Fossdalir Austurheiði ehf sem hefur veg og vanda að verkefninu. Þar stýrir för maðurinn sem hefur til þrjátíu ára átt sér þann draum að koma laxi upp á þetta svæði. Guðmundur Ingi Hjartarson, eða Dommi eins og hann er jafnan kallaður er maðurinn með drauminn. Þessi draumur hans hefur í dag alla burði til að rætast.

Búið er að stofna veiðifélag um svæðið, en átta jarðir eiga land að ánni ofan Tungufoss. „Við ákváðum að gefa svæðinu nýtt nafn og köllum hana Laxá á Keldum. Auðvitað mætti segja að þetta væri efsta svæðið í Eystri–Rangá en við ákváðum að fara þessa leið.“

Nú eru þeir búnir að opna vefsíðu um verkefnið laxakeldum.is og eru einnig undir því nafni bæði á Instagram og Facebook.

Hér blasir við Tungufoss í Eystri-Rangá. Hann er farartálmi fyrir …
Hér blasir við Tungufoss í Eystri-Rangá. Hann er farartálmi fyrir laxinn upp í Laxá á Keldum. Vinstra megin á myndinni má sjá merkt með bláum lit hvernig fiskvegurinn gæti litið út. Ljósmynd/GIH

Fyrsta stóra verkefnið þegar pappírsvinnan er að baki er að gera Tungufoss laxgengan. Málið er í ferli en ekki er þörf á umhverfismati við framkvæmdina. „Gangi þetta eftir þá viljum við hefja framkvæmdir sem fyrst og vonum að hægt verði að klára fiskveg upp Tungufoss í vor. Það hefur verið að brotna mikið úr fossinum og ég sé ekki betur en að stutt sé í að laxinn komist upp af sjálfdáðum en það gætu verið einhver ár í það án framkvæmda.“

Fyrstu laxarnir gætu mætt í sumar

Enn eru nokkur skref eftir til að gera draum Domma að veruleika. En býsna mörg eru að baki. Gangi allt upp getur Laxá á Keldum borið átta stangir, telur Dommi. Fyrstu laxarnir gætu numið land af sjálfsdáðum í sumar, svo fremi að leyfi fáist og framkvæmdir gangi að óskum.

„Við erum nú þegar búnir að leggja í mikla vinnu þarna og höfum í tvö ár flutt mikið af fiski upp fyrir foss. Við höfum verið að grafa hrogn á svæðinu og árið 2022  grófum við 22 holur og settum niður 130 þúsund hrogn. Í fyrra grófum við 250 þúsund hrogn og það var þriðja árið í hrognagreftri. Við höfum líka verið að sleppa seiðum og í fyrra slepptum við sextíu þúsund tveggja ára laxaseiðum úr Eystri–Rangá.“

Jóhannes Sturlaugsson frá Laxfiskum er hér við rafveiðar og niðurstöðurnar …
Jóhannes Sturlaugsson frá Laxfiskum er hér við rafveiðar og niðurstöðurnar komu vel út. Bæði fundu þeir klakseiði og einnig litu seiðin vel út sem hafði verið sleppt. Ljósmynd/GIH

Að verkefninu hafa komið fræðimennirnir Jóhannes Sturlaugsson, fiskifræðingur hjá Laxfiskum og Björn Theodórsson fiskeldisfræðingur. Þeir hafa rannsakað svæðið í nokkurn tíma til að svara stóru spurningunni. Getur þetta gengið upp? Skýrsla frá þeim félögum leit dagsins ljós í ágúst á síðasta ári og er hún jákvæð hvað varðar grunnforsendur. Eins og Dommi hefur bent á þá var það almenn trú heimamanna í sveitinni að; „Það lifir ekkert þarna upp frá.“

Jákvæðar niðurstöður vísindamanna

Spurningar sem þurfti að svara voru meðal annars botngerð, vatnshiti og fleira. Í skýrslu Jóhannesar og Björn segir; „Niðurstöðurnar sýna að þessar tvær grunnforsendur fyrir sjálfbæru lífi laxins, botngerðin og hitafarið eru fyrir hendi á þessu svæði Eystri-Rangár ofan Tungufoss sem fiskfært verður ef laxinum verður opnuð leið upp fyrir Tungufoss. Þriðja grunnforsenda fyrir sjálfbæru lífi lax ofan Tungufoss er ennfremur fyrir hendi, þ.e.a.s. sú staðreynd að um leið og tiltölulega einfaldri hjáleið vestan Tungufoss hefur verið komið í gagnið þá er fiskfært fyrir laxinn upp á hrygningarstöðvarnar á þessu svæði ofan Tungufoss. Til þess að laxinn skili sér þangað þá þarf að ungviði hans að alast þar upp og taka þar upp sitt heimilisfang samhliða því að seiðin taka út sjóþroska sinn og hefja lífsferil gönguseiðisins.“

Víða eru fallegir veiðistaðir í Laxá og þeir verða bara …
Víða eru fallegir veiðistaðir í Laxá og þeir verða bara enn fallegri ef lax mætir á svæðið. Gangi verkefnið eins og best verður á kosið gætu fyrstu laxarnir mætt á svæðið í sumar. Ljósmynd/GIH

Þannig að svarið er einfaldlega, já þetta getur gengið upp.

Ef við hlaupum svo í heildar niðurstöðu skýrslunnar þá hljóðar hún svo; „Forathuganir 2021–2023 vísa til þess að ársvæðið ofan Tungufoss í Eystri-Rangá henti laxi þegar komið er upp fyrir lindána Teitsvötn. Þetta eru upplýsingar sem gleðja þá sem standa að því að koma upp sjálfbærum laxastofni í þessari verðandi vin laxins í Eystri-Rangá. Um leið er ekki að efa að veiðiréttarhafar neðan Tungufoss samgleðjast enda fara hagsmunir þessara aðila saman. Framundan eru spennandi verkefni sem felast í því að koma málum þannig fyrir að laxaseiði dafni í sem mestum fjölda á þessu svæði ofan Tungufoss – sem og í því að vinna samhliða að því að að ganga frá fiskvegi sem geri laxi af svæðinu fært að ganga á þetta nýja búsvæði til hrygningar þegar hann skilar sér úr hafi.“

Dommi segir að rafveiðar sem Jóhannes Sturlaugsson fór í, á seiðum í fyrra líti vel út og bæði hafi fundist klakseiði og seiði sem sleppt var, voru að þroskast vel. Þá fannst einnig mikið magn af bleikjuseiðum.

Veiðislóðar, fiskvegur og heilsárshótel

Málið hefur verið kynnt og unnið að hluta til í samstarfi við veiðifélagið sem er um Eystri – Rangá. Í kynningu sem Dommi og Lýður Skúlason, landeigandi settu saman fyrir veiðifélag Eystri- Rangár á sínum tíma kemur fram hversu stórhuga þessi framkvæmd er. Þar kemur fram að búið er að leigja jarðir sem liggja að vatnasvæðinu og áform um veiðislóða eru í vinnslu. Þá segir í kynningunni að fyrirhugað sé að reisa hótel í tengslum við verkefnið. Í kynningunni segir segir; „Gert er ráð fyrir smíði heilsárshótels þar sem áherslan er lögð á laxveiði í mikilfenglegu og fallegu umhverfi sem býður upp á allar aðstæður fyrir veiðimenn. Hótelið verður svo nýtt til frekari ferðaþjónustu eins og skíðaferðir á jökla í nágrenninu, hestaferðir, slökun og aðra ferðatengdrar starfsemi.“

Töluverðu magni af laxi hefur verið sleppt fyrir ofan Tungufoss. …
Töluverðu magni af laxi hefur verið sleppt fyrir ofan Tungufoss. Hér gefur Jóhannes einum fullorðnum frelsi ofan Tungufoss. Ljósmynd/GIH

Í kynningunni er vitnað í fiskifræðingana Jóhannes og Björn. „Það má segja að þetta verkefni sé nánast ekki með fordæmum.“ Og, „…að þetta væri líklega eina stóráin sem enn væri hægt að byggja á Íslandi og þó víðar væri leitað. Við rannsóknir síðasta sumar kom oft upp spurningin; Af hverju er enginn búinn að gera þetta?“

Fram kemur í kynningunni að verkefnið kosti hundruð milljóna króna en að sama skapi sé mögulegur ávinningur fyrir sveitarfélagið og jarðeigendur mikill. Bent er á að verkefnið geti bæði styrkt búsetu í sveitinni og skilað tugum milljóna í tekjur. Nauðsynlegt sé hins vegar að þolinmótt fjármagn sé til staðar.

Fyrstu veiðileyfin verða seld á svæðinu í sumar ef áætlanir ganga eftir. Guðmundur Ingi viðurkennir að það verði undir formerkjum tilraunaveiði og er með ýmsar hugmyndir þar að lútandi. Til dæmis að sleppi menn laxi í kistur í Eystri–Rangá geti gjaldið fyrir það verið í formi veiðileyfa í Laxá á Keldum.

Jóhannes, Lýður og Dommi við hrognagröft síðastliðið haust. Það var …
Jóhannes, Lýður og Dommi við hrognagröft síðastliðið haust. Það var þriðja árið sem hrogn voru grafin á svæðinu. Ljósmynd/GIH

Keldur eitt af höfuðbólum Oddaverja

Þegar Dommi er spurður um hversu margar stangir geti mögulega orðið á svæðinu ef og þegar þetta verkefni verður gengið upp að fullu, svarar hann því til að þær gætu orðið átta talsins. Hann bætir því við að það sé samt sett fram án ábyrgðar og meta þurfi stöðuna þegar málinu fram vindur.

Hluthafar í Fossdölum Austurheiði ehf eru þeir Guðmundur Ingi, Lýður Skúlason og  Finnur B. Harðarson sem nú leigir Stóru–Laxá í Hreppum.  Dommi hefur gantast með það við Finn og Lýð að Stóra–Laxá sé bara æfing fyrir Laxá á Keldum verkefnið.

Hlutafélagið um verkefnið var stofnað í byrjun maí 2022. Lýður Skúlason er stjórnarformaður. Hann er sonur Drífu og Skúla á Keldum, en Drífa Hjartardóttir er fyrrverandi þingmaður Suðurlands og síðar Suðurkjördæmis og sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1999 – 2007. Dommi er bróðir Drífu og þeir frændur hafa skottast um þetta svæði í einhverja áratugi.

Svæðið sem opnast fyrir laxinn verði Tungufoss fiskgengur, er um …
Svæðið sem opnast fyrir laxinn verði Tungufoss fiskgengur, er um 23 kílómterar að lengd með fjölmörgum áhugaverðum framtíðar veiðistöðum. Ljósmynd/GIH

Þetta er mikið sögusvæði og jarðirnar Keldur, Foss, Árbær og Reynifell koma við sögu í nokkrum af þekktustu Íslendingasögunum eins og Brennu-Njáls sögu, Sturlunga sögu og Þorlákssögu. Fyrsti ábúandi Keldna var landnámsmaðurinn Ingjaldur Höskuldsson sem kemur við sögu í Njálu. Þar var jafnframt eitt af höfuðbólum Oddaverja.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert