Heilbrigðu börnin notuðu allan líkamann til að ná taki á leikfanginu en börnin sem áttu við vandamál að stríða notuðu hendurnar til að grípa en líkaminn virtist stífari og síður taka þátt í hreyfingunni.
Heilbrigðu börnin notuðu allan líkamann til að ná taki á leikfanginu en börnin sem áttu við vandamál að stríða notuðu hendurnar til að grípa en líkaminn virtist stífari og síður taka þátt í hreyfingunni. — Morgunblaðið/Jim Smart
SAMKVÆMT norskri rannsókn er hægt að segja til um hreyfifærni fyrirbura þegar þeir verða sex ára með prófi sem gert er við sex mánaða aldur.

SAMKVÆMT norskri rannsókn er hægt að segja til um hreyfifærni fyrirbura þegar þeir verða sex ára með prófi sem gert er við sex mánaða aldur. Þeir sem eiga í vandræðum með að ná taki á leikfangi við sex mánaða aldur eru líklegri til að hafa það sem kallast Moderat neurologic dysfunction við sex ára aldur, þ.e. væga truflun í taugaboðum.

Á síðustu árum hefur orðið bylting í umönnun fyrirbura og núorðið er hægt að bjarga lífi barna sem fæðast á 24. viku meðgöngu og vega aðeins um hálft kíló, að því er fram kemur á vefnum forskning.no.

Bjørg Fallang, lektor við Högskolan í Osló, rannsakaði 52 fyrirbura fjórum og sex mánuðum eftir áætlaðan fæðingardag og viðmiðunarhóp tólf heilbrigðra barna sem fæddust fullburða. Börnin voru einnig rannsökuð og greind við sex ára aldur. Börn með alvarlega fötlun voru ekki með í rannsókninni.

Fallang notaði skynjara og myndbandsupptöku til að greina hvernig börnin báru sig að við að ná taki á leikfangi. Rannsóknirnar sýndu að heilbrigðu börnin notuðu allan líkamann til að ná taki á leikfanginu en börnin sem áttu við einhver vandamál að stríða notuðu hendurnar til að grípa leikfangið en líkaminn virtist stífari og síður taka þátt í hreyfingunni.

Fallang leggur áherslu á að þótt börnin hafi greinst með truflun í taugaboðum við sex ára aldur gangi þau, hlaupi og syngi. Þau geti hins vegar verið klunnalegri og hrasað oftar en önnur. Mörg börn með þessa truflun höndli það vel og finni sér aðra hluti til að vera góð í.