— Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SKRÁÐIR atvinnuleysisdagar í maímánuði voru rúmlega 73.700 á landinu öllu. Þetta kemur fram í skýrslu Vinnumálastofnunnar um ástand á vinnumarkaði í maí. Þetta jafngildir því að 3.
SKRÁÐIR atvinnuleysisdagar í maímánuði voru rúmlega 73.700 á landinu öllu. Þetta kemur fram í skýrslu Vinnumálastofnunnar um ástand á vinnumarkaði í maí.

Þetta jafngildir því að 3.332 manns að meðaltali hafi verið á atvinnuleysisskrá í mánuðinum og jafngildir það 2,2% atvinnuleysi. Áætlaður mannafli á vinnumarkaði í maí var 153.641 samkvæmt áætlun Efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Atvinnuleysi minnkaði því um 0,1 prósentustig frá fyrra mánuði og um 1,1 prósentustig frá því í maí í fyrra.

Ekki minna síðan 2002

Atvinnuleysi í maímánuði hefur ekki mælst svo lítið í fjögur ár eða síðan í maí 2001 en þá var það 1,6%. Í einstaka mánuðum árið 2002 mældist atvinnuleysi minna en nú en hefur ekki gert það síðan.

Fjöldi atvinnulausra var að meðaltali tæplega 6% minni en í apríl og um 32% minni en í maí á síðasta ári. Þannig fækkaði atvinnulausum að meðaltali um 210 frá því í apríl en um 1.568 frá fyrra ári.

Minnkar meðal karla

Atvinnuleysi minnkaði meðal karla í maímánuði og voru alls 1.388 karlar atvinnulausir, um 1,6%. Um er að ræða 0,2 prósentustiga fækkun frá því í apríl og 1,1 prósentustigs fækkun frá því í maí í fyrra. Atvinnuleysi meðal kvenna var nánast óbreytt í maímánuði en alls voru um 1.944 konur atvinnulausar, um 3%. Frá því í maí í fyrra fækkaði atvinnulausum konum um 1,1 prósentustig.

Aukin spenna á vinnumarkaði

AUKIN spenna á vinnumarkaði gæti ýtt undir frekari verðbólguþrýsting að mati Greiningar Íslandsbanka. Í nýlegu Morgunkorni Íslandsbanka segir meðal annars: "Spenna virðist hafa myndast á vinnumarkaði og launaskrið er líklegt á næstu misserum í því ljósi. Skráð atvinnuleysi var 2,2% af mannafla í maí samkvæmt tölum sem Vinnumálastofnun birti í gær. Hefur skráð atvinnuleysi því minnkað lítillega frá fyrri mánuði þegar það var 2,3% en á sama tíma í fyrra var það 3,3% af mannafla. Samhliða miklum hagvexti hefur atvinnuleysi minnkað verulega að undanförnu og þegar litið er til árstíðarsveiflu má reikna með að atvinnuleysi sé nú aðeins um 2,1% af mannafla. Verðbólguþrýstingur sökum launaskriðs gæti aukist á næstu misserum vegna spennu á vinnumarkaði sem bætist nú ofan á þann eftirspurnarþrýsting sem þegar er til staðar."