Þegar fundurinn er hálfnaður kveður Andrew McManus sér hljóðs með drambsömum hósta. Hann er vitgrannur Skoti, rumur með axlir á stærð við Chesterfieldsófa.
Þegar fundurinn er hálfnaður kveður Andrew McManus sér hljóðs með drambsömum hósta. Hann er vitgrannur Skoti, rumur með axlir á stærð við Chesterfieldsófa. Hann tilkynnir fundarmönnum að hann verði að yfirgefa samkunduna því að dóttir hans Catriona sé að fara að keppa í sundi og hann hafi lofað henni að pabbi myndi koma að horfa. Allir láta eins og þetta sé eðlilegasti hlutur í heimi. Ungu, barnlausu strákarnir depla ekki auga. Þeir velta því kannski stundum fyrir sér að eignast börn einn daginn en ekki fyrr en Porsche Boxster verður framleiddur með fullkomnu skiptiborði. Fundarmennirnir sem þegar eiga börn baða sig í sameiginlegri og samsærislegri sjálfumgleði og af vörum Momo, sem veit ekki betur, má lesa: "En sæææætt." Celia Harmsworth flettir meira að segja af sér grimma drottningarhamnum og galdrar fram eitthvað sem mætti kalla bros og segir: "En gaman, Andrew! Alltaf jafn pottþéttur," eins og hann hafi stýrt Dow-vísitölunni upp um 150 stig, einn síns liðs. Andrew tekur eftir því að ég er sú eina í hópnum sem kvittar ekki á viðurkenningarskjal honum til handa. Hann ypptir öxlum og segir: "Æ, þú veist hvernig þetta er, Kate." Hann fer í jakkann sinn og út úr herberginu.

Ó, jú, ég veit nákvæmlega hvernig þetta er. Karlmaður tilkynnir að hann þurfi að skreppa frá til að fylgjast með tómstundasprelli barns síns og honum er hampað sem óeigingjarnri og elskulegri fyrirmynd annarra foreldra. Kona tilkynnir að hún þurfi að skreppa frá til að sinna barni sínu á sjúkrabeði og hún er sökuð um að vera óskipulögð, óábyrg og sýna fyrirtækinu ekki nægilega hollustu. Ef faðir slær sig til riddara fyrir að vera faðir lítur fólk á það sem styrkleikamerki. Ef móðir lætur of mikið í það skína að hún sé móðir túlkar fólk það sem óþolandi viðkvæmni. Ég elska jafnrétti kynjanna."