Slæm þjónusta ÉG fór ásamt tveimur vinkonum mínum á Ruby Tuesday í Skipholti um níuleytið á sunnudagskvöldið 12. júní sl. Ætluðum bara að fá okkur eitthvað létt svo ég pantaði mér súpu.

Slæm þjónusta

ÉG fór ásamt tveimur vinkonum mínum á Ruby Tuesday í Skipholti um níuleytið á sunnudagskvöldið 12. júní sl.

Ætluðum bara að fá okkur eitthvað létt svo ég pantaði mér súpu. Stúlkan tjáði mér að búið væri að ganga frá salatbarnum og súpunni en hún gæti samt komið með súpu handa mér svo að ég þáði það.

Þegar hún kemur svo með súpuna segir hún "láttu mig bara vita ef hún er ekki nógu heit, þá skelli ég henni bara aftur í örbylgjuofninn". Við vinkonurnar litum á hvor aðra, höfðum bara aldrei heyrt svona sagt á veitingastað. Jæja, súpan fór uppí munn og ofan í maga eins og áætlað var (fannst hún reyndar ekki alveg uppá sitt besta miðað við rjómalagaða brokkolísúpu) og síðan héldum við heim á leið.

Fljótlega eftir að ég kom heim tóku við þvílíkir magaverkir og þessari nótt eyddi ég að mestu á klósettinu og því var lítið sofið. Ég ákvað því að hafa samband við yfirmann veitingastaðarins. Ég vil taka það fram að ég hef sjálf unnið við margskonar afgreiðslustörf og veit það að betra er að kunna kurteisi þegar kúnnar eru annars vegar. Í þessu samtali mætti mér mesta ókurteisi sem ég hef nokkurn tímann upplifað, hans orð voru "það var ekkert að súpunni, þá væru fleiri búnir að hafa samband". Með öðrum orðum var ég að búa þetta til í hans huga. Ég spurði hann hvort sama súpan væri í pottinum allan daginn og hann jánkaði því. Ég efa það ekki að sennilega hefur súpan verið í góðu lagi fyrr um daginn, en upphituð eftir að hafa staðið allan daginn, það efast ég um að sé mönnum bjóðandi.

Ég tjáði honum það að mér fyndist hann ókurteis í alla staði og mér fyndist sjálfsagt að láta fólk vita af þessu, þannig að fólk hugsaði sig kannski um áður en það fer á Ruby Tuesday til að fá sér súpu eða annað.

Ég hringdi síðan aftur í þennan yfirmann til að láta hann vita af því að ég hefði látið af því verða að hafa samband við fjölmiðla. Og það var í lagi hans vegna, hann sagðist hafa farið sjálfur að smakka súpuna og ekkert óeðlilegt bragð af henni.

Kannski bjóða þeir uppá sömu súpuna dag eftir dag þangað til henni er lokið, hvað vitum við um það?

Kristín Halldórsdóttir.

Skrítinn húmor í auglýsingu

NÝLEGA komu fram í sjónvarpi nýjar auglýsingar þar sem verið er að auglýsa sælgætið "Staur" sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Finnst mér þessar auglýsingar virka mjög neikvætt á mig þar sem þær fjalla um fólk sem lendir í slysum, t.d. ung stúlka gengur á staur, ung stúlka keyrir á staur. Tel ég ekki rétt að nota óhöpp fólks í auglýsingaskyni, mér finnst þetta skrítinn húmor.

Ein húmorslaus.