Til hvers er Samkeppnisstofnun? Var hún ekki sett á stofn til að tryggja frjálsa samkeppni í landinu? Stofnunin hefur gert margt gott en stundum tekur hún ákvarðanir, sem eru allt að því óskiljanlegar frá sjónarhóli hins almenna borgara.
Til hvers er Samkeppnisstofnun? Var hún ekki sett á stofn til að tryggja frjálsa samkeppni í landinu? Stofnunin hefur gert margt gott en stundum tekur hún ákvarðanir, sem eru allt að því óskiljanlegar frá sjónarhóli hins almenna borgara.

Á fimmtudag tók samkeppnisráð ákvörðun, sem tryggir FL Group (áður Flugleiðir) a.m.k. 80-85% hlutdeild í flutningum á frakt í lofti milli Íslands og annarra landa og að sumra mati jafnvel 90%.

Er þetta sjálfsagt?

Málið snýst um kaup FL Group á Bláfugli, fyrirtæki, sem verið hefur í fraktflutningum á milli landa. Tilkynnt var um þessi kaup fyrr á þessu ári. Samkeppnisstofnun tók málið til skoðunar. Kaupin voru samþykkt en stofnunin mun verja sig með því að sett hafi verið skilyrði fyrir kaupunum.

Hver eru skilyrðin?

M.a. þau að stjórnarmenn og starfsmenn Flugleiða-Fraktar ehf. og Icelandair ehf. megi ekki sitja í stjórn Bláfugls og öfugt. Að fyrirtækin megi ekki starfa saman að markaðsmálum. Að verð og viðskiptakjör skuli vera gagnsæ o.fl.

Hverjum dettur í hug, að skilyrði á borð við þessi hafi nokkra þýðingu? Raunar má skilja þau svo að stjórnarmenn í FL Group megi sitja í stjórn Bláfugls! Ef það er réttur skilningur er augljóst, að stjórnendur FL Group hafa í höndum allar þær upplýsingar, sem þeir þurfa um rekstur þess fyrirtækis.

Það getur ekki verið að Samkeppnisstofnun hafi fengið það hlutverk að setja gæðastimpil stjórnvalda á einokun einstakra fyrirtækja á ákveðnum mörkuðum en það er að gerast með þessari ákvörðun.

Þetta minnir á ákvörðun Samkeppnisstofnunar um að leyfa Baugi að kaupa 10-11, sem tryggði Baugi yfirburðastöðu á matvælamarkaðnum.

Var Samkeppnisstofnun sérstakt kappsmál að endurtaka þau mistök?