[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikarar landsins skríða nú úr myrkum leikhúsunum út í bjarta sumarnóttina og njóta lífsins eins og aðrir leikmenn. Um helgina var þá að finna í ýmsum hlutverkum á börum borgarinnar ...
Leikarar landsins skríða nú úr myrkum leikhúsunum út í bjarta sumarnóttina og njóta lífsins eins og aðrir leikmenn. Um helgina var þá að finna í ýmsum hlutverkum á börum borgarinnar ... Til dæmis reyndist Fóstbróðirinn mikli, Gussi , vera dyravörður á Oliver , glænýjum bar í húsakynnum gömlu Kaffi Listar . Hann hefur greinilega verið duglegur að hamast með svitabandið og lítur rosalega vel út; hefur grennst, er fallega brúnn og með sítt, hraustlegt hárið í snyrtilegu tagli. Gussi hleypti brosmildur inn kollegum sínum eins og Unni Ösp Stefánsdóttur , Brynhildi Guðjónsdóttur og Ilmi Kristjánsdóttur . Það var einstæð upplifun að sjá Edith Piaf og Línu Langsokk glaðbeittar að skemmta sér á öldurhúsi. Oliver virðist þegar hafa skapað sér sess í fjölbreyttu klúbbalífi Reykjavíkur og er þar oft röð fyrir utan. Hún gengur þó frekar hratt, sérstaklega þegar maður getur stytt sér stundir við að dreyma um að hitta sæta hróka eins og Hrafn Jökulsson á barnum þegar inn er komið. Skákað í skjóli nætur ...

Nú, næst var stefnan tekin á Næsta bar og þar var varla þverfótað fyrir leikarastéttinni; mátti meðal annars sjá Sigga Sigurjóns og Ólafíu Hrönn í góðum fíling. Ingvar E. Sigurðsson , ofurleikari, og eiginkona hans og kollegi, Edda Arnljótsdóttir , voru líka í sumarstuði. Hinn bráðhuggulegi Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson , formaður Rithöfundasambandsins, og Hilmar Jónsson , leikstjóri, settu svo klassabrag á barinn. Annars furðulegt hversu stöðugum vinsældum þessi sjúskaði bar hefur náð að halda en þar er nákvæmlega ekkert lagt upp úr umhverfi og svo er auðvitað engin tónlist. En kannski er það einmitt öðruvísi og listamannalegt ...

Reynir Lyngdal , kvikmyndaleikstjóri og Elma Lísa Gunnarsdóttir , leikkona og eiginkona hans, eru potturinn og pannan í mergjuðum markaði sem setur stórborgarbrag á Laugaveginn um þessar mundir. Þar var náungi nokkur sem útfærði brillíant hugmynd en hann bauð fólki að syngja við undirleik, tók upp á disk og seldi hina persónulegu afurð á 500 krónur. Hugleikur Dagsson var með bás á markaðnum og margir fleiri spennandi borgarbúar voru að losa sig við gömul föt og muni af háaloftinu. Flugan keypti sér geggjaða hvíta hælaskó og klikkaða sérhannaða eyrnalokka fyrir slikk hjá þessum kostulegu kaupmönnum og skartaði herlegheitunum á barröltinu um kvöldið. Glamúrinn þarf ekki að kosta mikið ...

Á flugi milli bara í miðbænum rakst Flugan á Barða í Bang Gang á næturröltinu. Strákurinn sá er alltaf svo yfirmáta rólegur og lét ekki drykkjulætin og barflugurnar trufla yfirvegaðan göngutaktinn þar sem hann sveif mjúklega eftir Austurstræti .

Í portinu á bak við Jómfrúna spilaði hljómsveitin Schpilkas gleðilega gyðingamúsík en þeir eru líklega helstu boðberar klezmer-tónlistar á Íslandi. Skapaðist hressandi Balkanskagastemmning i portinu, hvergi mögulegt að krækja sér í sæti, það klingdi í bjórkönnum og hraður takturinn sleginn af ákafa. Takturinn var líka góður hjá þróttmiklum Jagúarmönnum sem blésu til útgáfutónleika í Galleríi Humar eða frægð?

Jazzvakning var öflug og hélt tónleika til minningar um Niels-Henning á Nordica og útgáfutónleika í Hásölum í Hafnarfirði en Ziegler/Scheving-kvintettinn lék snilldarlega fyrir gesti eins og Vernharð Linnet og Ragnheiði Ástu Pétursdóttur , hina ástsælu útvarpsþulu allra landsmanna.

Ragnar Kjartansson (Kjartans Ragnarssonar og Guðrúnar Ásmundsdóttur) söngvari í Trabant , var einn þeirra sem sleiktu sólina af áfergju á Austurvelli um helgina. En eins og allir vita er tónlist Trabant eftirlæti forsetafrúarinnar okkar, Dorritar , og strákarnir hirðhljómsveit Bessastaða . | flugan@mbl.is