Bernd og börnin hans stór og smá.
Bernd og börnin hans stór og smá. — Ljósmyndir: Kristinn Ingvarsson
Ég er upphaflega tónlistarmaður, spila á flautu, gítar og á píanó. Ég tengi það beint í brúðuleikhúsið sem ég hef verið ástfanginn af frá því að ég var fimm ára gamall," segir þýski brúðuleikarinn Bernd Ogrodnik.
Ég er upphaflega tónlistarmaður, spila á flautu, gítar og á píanó. Ég tengi það beint í brúðuleikhúsið sem ég hef verið ástfanginn af frá því að ég var fimm ára gamall," segir þýski brúðuleikarinn Bernd Ogrodnik. Hann er einn sá fremsti í heiminum á sínu sviði og hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín. M.a. smíðar hann og stýrir brúðunum í söngleik Þjóðleikhússins um Klaufa og kóngsdætur, auk þess sem hann smíðaði brúðuna í Koddamanninum. "Þótt ég hafi verið að smíða brúður og halda leiksýningar fyrir nágrannana og krakkana í hverfinu frá því að ég var smábarn, lærði ég tónlist, því ég vissi ekki að nein brúðuleiklist væri til. Ég tengdi fyrirbærið bara skemmtun fyrir krakka, eins og margir reyndar gera. Líka margir brúðuleikarar. Ég lærði svo nudd og náttúrulækningar í nokkur ár, og það styrkir það sem ég er að gera núna. Ég hef einnig lært austurlenskar bardagalistir, tai-chi og karate, sem styrkir mig líkamlega og ekki síður andlega."

Brúðan er framlenging á orkunni | "Ég er mjög hrifinn af japanskri menningu, og öllu sem hún kennir um líkamann, stjórnina á honum og fullkomna einbeitingu. Þessari "zen-nálgun" og sverðabardagalist. Það er það sama og brúðuleikhúsið."

- Hvernig þá?

"Líkt og samúræjarnir þarf maður að ganga alla leið. Sverðið þeirra er framlenging af orkunni þeirra. Það er ekki bara til að drepa fólk. Þetta snýst allt um einbeitingu og jafnvægi í líkamanum. Sama í brúðuleikhúsinu. Það þarf að finna orkupunkt í brúðunni til að geta unnið með hana, en fyrst þarf maður að finna orkupunktinn innra með sér. Maður þarf að vera í mjög góðu líkamlegu jafnvægi til að stjórna brúðum. Ég reyni að byggja brúðurnar líkt og Stradivarius smíðaði sínar fiðlur, ef við miðum við klassíska tónlist. Þær þurfa að vera algerlega 100%. Og til að nota brúðurnar þarf að æfa líkt og hljóðfæraleikari. Það eru ekki margir brúðuleikarar í heiminum sem æfa sig og yfirleitt er gæðastigið í brúðuleikhúsi ekki mjög hátt. Hins vegar er til japanskt brúðuleikhús sem heitir Bunraku, sem ég tek mér frekar til fyrirmyndar. Þar eru þrír brúðuleikarar sem stjórna einni brúðu. Einn heldur hausnum og vinstri hendinni, annar heldur hægri hendinni og sá þriðji hreyfir fæturna. Sá sem hreyfir fæturna gerir ekkert annað í tíu ár en að læra að hreyfa fæturna og tjá tilfinningar í gegnum þá. En alls tekur það minnst 25 ár að verða góður brúðuleikari. Þetta brúðuleikhús er bara fyrir fullorðna," segir Bernd sem er að undirbúa einleikssýningu sína sem hann frumsýnir í Þjóðleikhúsinu næstkomandi vetur og er fullorðinssýning. Sagan er ekki eingöngu gleði og gaman, heldur er einnig snert á mörgum ágengum efnum eins og að eldast, alkóhólisma og kynferðislegri misnotkun svo eitthvað sem nefnt, og það er Bernd sem skrifar sögurnar sjálfur. Og gerir í raun allt sjálfur, nema kannski að leikstýra.

Skref í kvikmyndasögunni | En Bernd hefur líka tekið þátt í einu allra viðamesta brúðuverki í heimi, en það er kvikmyndin Strings eftir danska leikstjórann Anders Rønnow-Klarlund. Hún er bara gerð með strengjabrúðum og hefur verið seld til ótal landa um allan heim, ekki þó til Íslands. "Þetta er epískt drama um það að við mannfólkið erum öll strengjabrúður. Efst uppi erum við öll tengd saman. Anders hafði leitað í tvö ár að brúðuleikara sem gæti bæði smíðað brúðurnar og haft yfirumsjón með öllum brúðuleikurunum, þegar hann fann mig. Hann sendi mér teikningar af því hvernig hann sá myndina fyrir sér og ég vildi strax taka þátt. Ég varð að búa til nokkrar nýjar tegundir af strengjabrúðum því í þessu er fullt af nýjum hlutum sem hafa aldrei verið gerðir áður. Eins og að láta strengjabrúður kafa, ganga niður stiga og ganga í skógi. Engin hreyfing í allri myndinni er tölvugerð, allt er handstýrt. Anders hafði látið teikna upp hvernig hver karakter leit út og ég þurfti að breyta því í strengjabrúðu. Ég var yfirsmiður og þurfti líka að kenna og stjórna öllum brúðuleikurunum sem voru 15 talsins og komu alls staðar að úr heiminum."

- Þetta hefur verið risastórt verkefni?

"Já, ég fékk bæði grá hár og gleraugu þetta ár," segir Bernd brosandi. Eftir að Bernd kom inn í verkefnið tóku undirbúningur og upptökurnar alls tvö ár, og Bernd var mikið í Danmörku. "Það var mikið álag að vinna við þessa mynd. Í fyrsta lagi af því að þetta hafði aldrei verið gert áður, og líka því við unnum ekki við neinar Hollywood-aðstæður. Í stað þess að hafa viku fyrir hvert atriði, var það undirbúið kvöldið áður, og tekið upp morguninn eftir. En það var mjög gaman að taka þátt í þessu ævintýri, myndin er visst skref í kvikmyndsögunni og ekki síður í brúðuleiklistinni.

Listin býr til menninguna | - En hvað finnst þér skemmtilegast í öllum þessum stóra og fjölbreytta brúðuheimi?

"Því er erfitt að svara. Það var gaman að gera kvikmynd, ekki síst því þá veit ég að fólk um allan heim mun sjá hana, í Kanada, Ástralíu, Japan og jafnvel Afríku, það er frábært. En ég elska að sýna fyrir fólk sem situr fyrir framan mig, vera í návígi við áhorfendur. Ekki síst fyrir framan börnin, þau eru frábærir áhorfendur, svo er aldrei of snemmt að kynna list fyrir börnum. Það er listin sem býr til menninguna," segir Bernd að lokum. Hann er á leiðinni í Skíðadalinn sinn norðan heiða að vinna að næsta verkefni sem er jóladagatal fyrir Stöð 2. "Skíðadalur er einn fallegasti staður í heimi. Þangað fer ég til að safna orku og ná andlegu jafnvægi. Þar hef ég stórt vinnupláss, undirbý næstu verkefni, og fer síðan aftur út í heim, fullur af krafti og vinnugleði." | hilo@mbl.is