Aðstandendur sýningarinnar í Hönnunarsafni Íslands sitja á norskum stólum sem safninu voru gefnir.
Aðstandendur sýningarinnar í Hönnunarsafni Íslands sitja á norskum stólum sem safninu voru gefnir. — Ljósmynd/Sóla
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Völu Ósk Bergsveinsdóttur valaosk@mbl.is NÚ stendur yfir sumarsýning Hönnunarsafns Íslands á norskri hönnun en sýningin er haldin í tilefni af 100 ára sjálfstæðisafmæli Norðmanna.
Eftir Völu Ósk Bergsveinsdóttur valaosk@mbl.is
NÚ stendur yfir sumarsýning Hönnunarsafns Íslands á norskri hönnun en sýningin er haldin í tilefni af 100 ára sjálfstæðisafmæli Norðmanna.

Jorunn Haakestad, forstöðukona Listiðnaðarsafnsins í Bergen, var viðstödd opnun sýningarinnar laugardaginn 11. júní og gaf safninu tvo stóla frá hönnunarfyrirtækinu Cirkus Design og tvo aðra eftir unga hönnuði sem kalla sig Norway says.

"Íslenska hönnunarsafnið átti einungis einn norskan hlut á móti 75 frá Danmörku. Þess vegna var tilvalið að gefa þessu systursafni okkar nokkra hluti af sýningunni," segir Haakestad.

Stólahönnun vinsæl

Sýningin er haldin að frumkvæði stjórnvalda í Noregi sem eru farin að leggja meiri áherslu á hönnun. Haakestad segir menningu og ferðaþjónustu á góðri leið með að verða stærri atvinnugreinar en til dæmis sjávarútvegur og tími sé kominn til að viðurkenna það. "Hönnun er sterk atvinnugrein og stjórnvöld hafa gert sér grein fyrir því að við erum ekki einungis í samkeppni við aðrar atvinnugreinar heldur líka aðrar þjóðir," segir Haakestad.

Samkvæmt Haakestad eru stólar ýmiss konar ákveðið hönnunartákn á Norðurlöndum og til eru söfn sem sýna aðeins hönnunarstóla. "Stóll er eins og manneskja. Hann hefur fætur, arma, bak og botn. Það hefur því ákveðna þýðingu að hanna stól og hægt að persónugera þá. Ef litið er til gamalla tíma, eins og víkingatímabilsins, þá sátu háttsettir menn í hásætum og þrælarnir á kollum, stólar segja því mikið," segir hún.

Hönnun er vinsæl grein í Noregi, líkt og hér á landi, og hefur áhugi fólks vaxið mikið síðustu sjö til átta ár. Haakestad segir ástæðuna eiga meðal annars rætur að rekja til mikils góðæris á Norðurlöndunum. Það geri það að verkum að fólk hugsar meira um fallega hluti fyrir heimilið.

Nútímahönnun er því í blóma og ný kynslóð ungra og kraftmikilla hönnuða hefur litið dagsins ljós og skapað sér nafn bæði innanlands sem og erlendis.

Þar má fyrst nefna Norway says-hópinn sem hefur verið mjög áberandi undanfarin ár. Þeim var boðið á Salone Satelite hönnunarsýninguna í Mílanó árið 2000, en þá hafði Norðmönnum ekki verið boðin þátttaka þar í 30 ár. Hópurinn fékk svo verðlaun Norska hönnunarráðsins árið 2004 fyrir blaðagrindina Papermaster.

Íslensk hönnun glaðleg

Aðrir eftirtektarverðir norskir hönnuðir eru Cathrine Maske, sem vinnur með gler, postulínsframleiðandinn Figgo er notið hefur mikillar velgengni um allan heim, Cirkus Design húsgagnaarkitektar og Scandinavian Surface sem fæst við mynstur á alls konar yfirborð; efni, veggfóður, borðplötur, tannbursta og jafnvel flugvélar ef vill.

Húsgagnamarkaðurinn nýtur hæfileika norskra hönnuða einna best og má þar til dæmis nefna hinn fræga Tripp Trapp barnastól og Balans heilsustólinn.

Nú stendur yfir sýningin The Coastland í Listiðnaðarsafninu í Bergen en sú sýning er hluti af hátíðarhöldum sjálfstæðisafmælis Noregs. Þar eru sýndir menningarlegir, sögulegir og listarlegir þættir sem mótað hafa landið síðustu 100 árin en einnig er lögð áhersla á framtíðina.

Haakestad segist því miður ekki hafa kynnst íslenskri hönnun nægilega vel en skynjar mikla gleði og óformlegheit í því sem hún hefur séð. Tíðarandinn sé svipaður í íslenskri hönnun, kvikmyndum og tónlist og því hefur hún gaman af.

Sýning Hönnunarsafnsins í Garðabæ, Sirkús - Ný hönnun frá Bergen, verður opin til 4. september og er aðgangur ókeypis.