*HRAFNHILDUR Skúladóttir , landsliðskona í handknattleik, meiddist á fingri á æfingu hjá SK Aarhus á föstudag og lék þar af leiðandi ekki með liðinu gegn VRI í næstefstu deild danska handknattleiksins á sunnudag.
*HRAFNHILDUR Skúladóttir , landsliðskona í handknattleik, meiddist á fingri á æfingu hjá SK Aarhus á föstudag og lék þar af leiðandi ekki með liðinu gegn VRI í næstefstu deild danska handknattleiksins á sunnudag. Þrátt fyrir fjarveru Hrafnhildar , sem verið hefur einn besti leikmaður liðsins á keppnistíðinni, vann SK Aarhus öruggan sigur, 31:25. Á heimasíðu SK Aarhus er vonast til að Hrafnhildur verði klár í slaginn á ný þegar liðið mætir Silkeborg/Voel í toppslag deildarinnar næsta sunnudag.

* HALLDÓR J. Sigfússon og samherjar hans hjá þýska handknattleiksliðinu Tusem Essen unnu fjórtánda leikinn í sínum riðli 3. deildarinnar um helgina. Þá lögðu þeir TV Korschenbroich , 33:27. Halldór lét lítið fyrir sér fara við markaskorun, gerði aðeins eitt mark.

* DRÖFN Sæmundsdóttur tókst ekki að skora fyrir lið sitt FA Göppingen þegar það tapaði naumlega, 33:32, fyrir TSG Ober-Eschbach í suðurhluta þýsku 2. deildar kvenna í handknattleik á sunnudag. FA Göppingen er í 7. sæti af 15 liðum í deildinni með 12 stig að loknum 10 leikjum.

* STEFAN Kretzschmar leikur ekki með Magdeburg fyrr en eftir sex vikur eftir að hafa meiðst illa á hægri ökkla í upphafi leiks Magdeburg og Barcelona í meistaradeild Evrópu í handknattleik á sunnudag. Þetta þýðir að Kretzschmar leikur næst með liðinu í febrúar, að loknu hléi sem gert verður á þýsku deildakeppninni vegna Evrópumótsins í Sviss .

* BALDVIN Jón Hallgrímsson, knattspyrnumaður úr Val, er genginn til liðs við 1. deildarlið Þróttar . Baldvin , sem er 28 ára varnarmaður, lék með Val 2003 og 2004 en spilaði síðan sem lánsmaður með Völsungi í 1. deildinni síðasta sumar.

* KRISTÓFER Sigurgeirsson , knattspyrnumaðurinn reyndi sem lék með Fram síðasta sumar, er genginn til liðs við 1. deildarlið Fjölnis úr Grafarvogi. Kristófer er 33 ára og hefur leikið ýmsar stöður á vellinum, aðallega sem varnarmaður síðustu árin. Hann á að baki 196 deildaleiki með Fram og Breiðabliki , þar af 132 í efstu deild, og hefur spilað með Västra Frölunda í Svíþjóð og grísku liðunum Aris Saloniki og Ethnikos Pireus .