Jóhannes Jónsson, Þórarinn Tyrfingsson, Björgólfur Guðmundsson og Hendrik Berndsen hafa unnið ötullega að því að undanförnu að fá fyrirtæki til að styðja við opnun bráðamóttökunnar við Sjúkrahúsið Vog.
Jóhannes Jónsson, Þórarinn Tyrfingsson, Björgólfur Guðmundsson og Hendrik Berndsen hafa unnið ötullega að því að undanförnu að fá fyrirtæki til að styðja við opnun bráðamóttökunnar við Sjúkrahúsið Vog. — Morgunblaðið/RAX
Eftir Andra Karl andri@mbl.is BRÁÐAMÓTTAKAN við Sjúkrahúsið Vog verður opnuð í dag á nýjan leik eftir að hún var lögð af í byrjun ársins vegna fjárskorts. Móttakan var rekin árin 2003 og 2004.
Eftir Andra Karl andri@mbl.is
BRÁÐAMÓTTAKAN við Sjúkrahúsið Vog verður opnuð í dag á nýjan leik eftir að hún var lögð af í byrjun ársins vegna fjárskorts. Móttakan var rekin árin 2003 og 2004. Til að byrja með er lagt upp með þriggja ára reynslutíma en rekstur bráðamóttökunnar kostar á milli 40 og 50 milljónir ár hvert.

Opnunin kemur í kjölfar baráttu- og afmælisfundar Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ) sem haldinn var í byrjun októbermánaðar sl. þar sem yfirskriftin var "Bráðamóttaka eða biðlisti" en á þeim stutta tíma sem liðinn er frá fundinum hefur tekist að tryggja næga fjármuni til að opna á nýjan leik.

Það er ekki síst fyrir tilstilli tveggja fyrrverandi formanna SÁÁ, Björgólfs Guðmundssonar og Hendriks Berndsen ásamt Jóhannesi Jónssyni, að opnunin verður að veruleika en þeir buðu fram krafta sína til að hrinda verkefninu af stað og hafa unnið að því að fá fyrirtæki til að veita mánaðarleg fjárframlög.

"Við höfum lagt upp með þetta þannig að fyrirtækin gangast við því að borga ákveðna upphæð á mánuði í tvö til þrjú ár, sem við teljum vera upphafstímabilið til að athuga hvernig til tekst," segir Jóhannes Jónson en styrktarsjóður Baugs mun borga 300 þúsund krónur á mánuði næstu þrjú ár.

SÁÁ hefur þegar lagt til 10 milljónir í verkefnið en samtökin treysta á styrktarframlög til að verkefnið geti gengið. Söfnunin er rétt að hefjast og þegar hafa sex til sjö fyrirtæki gefið velyrði sitt fyrir mánaðarlegum fjárframlögum.

Innlögnum fjölgar um 250 á ári

Með opnun bráðamóttökunnar munu sjúklingar geta komið á móttöku Vogs alla virka daga og ef ástand þeirra þykir slæmt er möguleiki á því að leggja þá inn samstundis. Innlögnum mun fjölga um 250 á ári miðað við það sem nú er en bráðainnlögnum mun fjölga hlutfallslega meira og verða á milli fimm til sjö hundruð á ári.

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segir að þegar lagt var af stað með bráðamóttökuna á sínum tíma hafi ekki verið tryggur rekstrargrundvöllur fyrir henni, enda utan þjónustusamnings við ríkið. Þegar svo óhjákvæmilegt var að draga úr þjónustunni í byrjun árs hafi mikilvægi hennar bersýnilega komið í ljós og jafnframt hversu slæmt var að ganga til baka þegar búið var að koma ákveðinni þjónustu á.

Fleiri þurfa að koma að verki

Björgólfur Guðmundsson tók undir orð yfirlæknisins. Hann ítrekaði að fleiri þurfi að koma að söfnuninni og segir þá þremenninga munu verða á ferðinni á næstunni að kynna verkefnið.

"Við erum sem sé í þessu til að koma til móts við ákveðna þörf."