Hugo Chavez
Hugo Chavez
Eftir Ásgeir Sverrisson asv@mbl.is FLOKKAR, sem styðja Hugo Chavez, forseta Suður-Ameríkuríkisins Venesúela, hafa náð yfirburðastöðu á þingi landsins eftir þingkosningarnar á sunnudag.
Eftir Ásgeir Sverrisson asv@mbl.is

FLOKKAR, sem styðja Hugo Chavez, forseta Suður-Ameríkuríkisins Venesúela, hafa náð yfirburðastöðu á þingi landsins eftir þingkosningarnar á sunnudag. Þetta hefur í för með sér að Chavez getur nú hert tök sín um valdataumana í landinu og breytt stjórnarskrá þess til að tryggja stöðu sína enn frekar.

Talsmenn flokka, sem styðja forsetann, sögðu í gær að frambjóðendur þeirra hefðu unnið öll 167 sætin, sem tekist var á um í kosningunum. Fimm helstu flokkar stjórnarandstöðunnar neituðu að taka þátt í kosningunum á þeim forsendum að þær væru hvorki frjálsar né leynilegar. Kjörsókn var afleit; einungis um fjórðungur þeirra 12 milljóna manna, sem á kjörskrá voru, nýtti sér atkvæðisréttinn.

William Lara, formaður Hreyfingar fimmta lýðveldisins ("Movimiento Quinta República"), flokks Chavez, sagði að flokkar samsteypustjórnarinnar, sem nú fer með völdin, hefðu unnið öll þingsætin. Þau eru 167 að tölu en þing Venesúela starfar í einni málstofu. Kvað hann MVR-flokk forsetans hafa fengið 114 menn kjörna en stuðningsflokkar afganginn.

"75,13% sátu heima"

Talsmenn stjórnarandstöðunnar lögðu áherslu á dræma kjörsókn og kváðu hana til marks um að alþýða manna hefði orðið við því ákalli að hundsa kosningarnar. Ljóst væri að nýkjörið þing endurspeglaði á engan veg vilja og afstöðu þjóðarinnar þó svo að strangt til tekið teldust kosningarnar löglegar.

Þessi afstaða var áberandi í þeim fjölmiðlum, sem hlynntir eru stjórnarandstöðunni. Þannig lagði dagblaðið El Nacional áherslu á lélega kjörsókn. "75,13% sátu heima" sagði í aðalfyrirsögn blaðsins í gær. Oswaldo Alvarez Paz, leiðtogi Þjóðarbandalagsins, ("Alianza Popular") sagði þetta sögulega niðurstöðu í samtali við dagblaðið La Hora . "Sú goðsögn að Chavez sé ósigrandi hefur verið borin til grafar," sagði Alvarez Paz. Þetta er í fyrsta skiptið í 46 ár sem stjórnarandstaða sniðgengur kosningar í Venesúela. Þá ákvörðun lagði Chavez að jöfnu við "skemmdarverk" og kvað þjóðir heims vita að "raunverulegt lýðræði" hefði verið innleitt í Venesúela. Jorge Rodriguez, formaður kjörstjórnar, kvað miklar rigningar víða um land hafa orðið til þess að minnka kjörsókn.

Nú þegar flokkar hliðhollir forsetanum hafa tekið öll völd á þingi Venesúela þykir sýnt að Chavez geti breytt stjórnarskránni. Hún kveður m.a. á um að kjörtímabil forseta megi ekki vera fleiri en tvö en forseti er kjörinn til sex ára í senn. Chavez hyggst leita eftir endurkjöri í desember á næsta ári og þykir líklegt að hann fái stuðningsmenn sína á þingi til að beita sér fyrir stjórnarskrárbreytingu í því augnamiði að fjölga kjörtímabilum forsetans eftir árið 2012.