Út er kominn geisladiskurinn Íslensku lögin með salonhljómsveitinni L'amour fou. Á honum er að finna mörg af eftirminnilegustu og vinsælustu dægurlögum 6. og 7.
Út er kominn geisladiskurinn Íslensku lögin með salonhljómsveitinni L'amour fou. Á honum er að finna mörg af eftirminnilegustu og vinsælustu dægurlögum 6. og 7. áratugarins, svo sem Vegir liggja til allra átta, Dagný, Frostrósir, Tondeleyo, Þú og ég og Litli tónlistarmaðurinn.

Lögin heyrast nú í nýjum tangóskotnum útsetningum sellóleikara hljómsveitarinnar, Hrafnkels Orra Egilssonar, en auk hans skipa sveitina Hrafnhildur Atladóttir á fiðlu, Guðrún Hrund Harðardóttir á víólu, Tinna Þorsteinsdóttir á píanó og Gunnlaugur Torfi Stefánsson á kontrabassa. Sveitin var stofnuð 1999 og hefur haldið tónleika víða á síðustu árum, meðal annars í Kaffileikhúsinu og Iðnó. Undirtektir gesta hafa einatt verið góðar og þeir hrifist með heillandi og eilítið stríðnislegum útsetningum á dægurtónlist sem fylgt hefur þjóðinni í áratugi, stytt henni stundir og létt henni lund.

Í tilefni af útgáfu geisladisksins efnir L'amour fou til útgáfutónleika í Þjóðleikhúskjallaranum 15. desember nk., kl. 21. Það var ekki einfalt að ná hópnum saman til tónleikahalds því að hljóðfæraleikararnir ungu hafa í mörg horn að líta og sinna tónlistargyðjunni víða um heim. Hljómsveitin stendur sjálf að útgáfunni en um dreifingu sjá 12 tónar.