Þórhallur Hróðmarsson
Þórhallur Hróðmarsson
Þórhallur Hróðmarsson fjallar um kristna trú og samkynhneigð: "Óski einhverjir samkynhneigðir að láta vígja samband sitt í kirkju þá eru þeir að minnsta kosti trúaðri en ég."
"ELSKA skaltu náunga þinn eins og sjálfan þig og breyttu við aðra eins og þú vilt að aðrir breyti við þig," finnst mér vera inntakið í kristilegum siðaboðskap.

Orðið bókstafstrúarmaður hefur undanfarið verið notað í neikvæðri merkingu um ýmsa öfgamenn Múhameðstrúar. En nú geysast fram á ritvöllinn kristnir bókstafstrúarmenn íslenskir og lýsa hneykslun sinni yfir því að nokkrum skuli detta í hug að vígja sambúð samkynhneigðra. Ég trúi því að Kristur hafi verið til og er viss um að hann hefði skoðað þetta mál af skilningi.

Ég lít á Biblíuna sem mannanna verk. Ef Guð er faðir alls sem er, hlýtur hann einnig í þeim skilningi að vera faðir Jesú. Ég trúi ekki að Guð almáttugur hafi fíflað heitkonu Jósefs og held að þar hafi guðspjallamennirnir farið offari. Hvort Heilagur andi hafi gert það, eins og stendur í trúarjátningunni, treysti ég mér ekki til að fullyrða um, enda veit ég engin deili á þeim kauða.

Sá Guð sem ég kýs að trúa á hefði aldrei látið son sinn saklausan líða til að friðþægja fyrir syndir mannanna.

Um eitt get ég verið sammála mörgum sem hneykslast, að það er alfarið kirkjunnar að taka ákvörðun í þessu máli.

Ég held að kirkjan ætti í leiðinni að endurskoða trúarjátninguna, sem þulin er í hverri messu, svo að allir meðlimir þjóðkirkjunnar geti farið með hana án þess að fá klígju.

Ég þekki ekki heilagan anda, sem er tvisvar nefndur í trúarjátningunni. Ef ég trúi á fyrirgefningu syndanna, þá veit ég ekki til hvers Kristur á að koma og dæma lifendur og dauða. Ég hef ekki græna glóru um hvað samfélag heilagra þýðir, en finnst það bera með sér einhvers konar lítilsvirðingu á þeim, sem ekki eru heilagir. Ég þekki hvorki Hel né Himnaríkið þar sem Jesús Kristur situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs (eru örvhentir óæðri af því að þeir eru færri?).

Samkynhneigðum er það áskapað að elska sitt eigið kyn, það er þeirra eðli. Þeir hafa ekki það sem við hin köllum eðlilega kynhneigð, en sambönd þeirra byggjast á kærleika ekki síður en sambönd gagnkynhneigðra. Óski einhverjir samkynhneigðir að láta vígja samband sitt í kirkju þá eru þeir að minnsta kosti trúaðri en ég.

Höfundur er framhaldsskólakennari á eftirlaunum.