AIMÉ Antheunis, landsliðsþjálfari Belga í knattspyrnu, sagði við Morgunblaðið að ef hann hefði átt kost á því, hefði hann valið Rúnar Kristinsson til að leika alla leiki belgíska landsliðsins undir sinni stjórn.
AIMÉ Antheunis, landsliðsþjálfari Belga í knattspyrnu, sagði við Morgunblaðið að ef hann hefði átt kost á því, hefði hann valið Rúnar Kristinsson til að leika alla leiki belgíska landsliðsins undir sinni stjórn. Antheunis var á meðal áhorfenda á laugardagskvöldið þegar Rúnar skoraði og var valinn maður leiksins í sínum 400. deildaleik á ferlinum.

"Ég set Rúnar í sama gæðaflokk og Pär Zetterberg og Marc Degryse. Hann er mjög öflugur með boltann, sem er vinur hans, og hann getur gert út um leiki með frábærum sendingum og gullfallegum mörkum.

Rúnar er of góður til að hætta eftir þetta tímabil og Lokeren ætti að semja við hann til allavega eins árs í viðbót, þó að hann myndi ekki spila alla leiki. Það yrði mjög erfitt fyrir Lokeren að finna leikmann í hans stað. Í þessum leik gegn Cercle Brugge var Rúnar besti maður vallarins eins og svo oft áður í vetur, hann er frábær og einn besti leikmaður belgísku knattspyrnunnar í dag," sagði Aimé Antheunis.