Eftir Hjálmar Jónsson hjalmar@mbl.is ÁRNI Magnússon félagsmálaráðherra segist telja að Íbúðalánasjóður muni áfram gegna hlutverki á húsnæðislánamarkaði, en það hlutverk geti hugsanlega breyst.
Eftir Hjálmar Jónsson hjalmar@mbl.is
ÁRNI Magnússon félagsmálaráðherra segist telja að Íbúðalánasjóður muni áfram gegna hlutverki á húsnæðislánamarkaði, en það hlutverk geti hugsanlega breyst. Nú sé verið að skoða hlutverk hans í þessum efnum og hann vonist til að niðurstaða í þeim efnum komi fyrir áramót. Það sem skipti mestu máli í þessu sambandi sé að fólkið í landinu, hvar sem það búi, njóti á hverjum tíma hagkvæmustu kjara á húsnæðislánum.

Árni sagði aðspurður um ummæli Seðlabankastjóra í gær út af fyrir sig geta tekið undir það sem Davíð segi um það að ríkisstjórnin geti verið stolt af jákvæðum umskiptum á umgjörð húsnæðislánakerfisins.

"Í ljósi reynslunnar má svo sem velta fyrir sér tímasetningum en þá verða menn að rifja það upp sem seðlabankastjóri gerði að á sama tíma og stjórnvöld höfðu sett niður fyrir sér áætlun um það að þessar breytingar tækju gildi á löngum tíma gengu bankarnir fram fyrir skjöldu og hækkuðu lánshlutfallið í 100% og höfðu engar takmarkanir á hámarksláni og ég tel auðvitað að það hafi haft kannski mest áhrif á verðmyndina á markaðnum," sagði Árni.

Ekkert útilokað

Hann sagði að nú væri verið að skoða hlutverk Íbúðalánasjóðs á þessum markaði og hvort skynsamlegt væri að ganga til breytinga.

"Niðurstaða í því vona ég að liggi fyrir áður en árið er liðið. Ég vil ekkert útiloka í þeim efnum. Menn hafa talað um að fara að draga úr hlutverki sjóðsins á smásölumarkaði og að hann einbeiti sér frekar að heildsölumarkaði. Það getur út af fyrir sig verið ein þeirra leiða sem kemur til greina.

Það sem ég þreytist ekki á að undirstrika og skiptir að mínu viti öllu máli í þessu er að halda í það markmið, sem um hefur verið pólitísk samstaða, að fólkið í landinu, hvar sem það býr, njóti hagkvæmustu kjara á húsnæðislánum. Til þess höfum við notað mismunandi verkfæri í gegnum tíðina. Verkfærið núna er Íbúðalánasjóður. Ég held að hann muni áfram gegna hlutverki á markaðnum, hugsanlegu breyttu hlutverki," sagði Árni enn fremur.