*ÍTÖLSKU stórliðin Juventus og AC Milan riðu ekki feitum hesti frá viðureignum sínum við botnliðið í ítölsku A-deildinni á laugardagskvöldið.
*ÍTÖLSKU stórliðin Juventus og AC Milan riðu ekki feitum hesti frá viðureignum sínum við botnliðið í ítölsku A-deildinni á laugardagskvöldið. Ítalíumeistarar Juventus urðu að láta sér lynda markalaust jafntefli við langneðsta lið deildarinnar, Treviso , og AC Milan tapaði fyrir Lecce , 1:0, sem er í næst neðsta sæti deildarinnar.

* JUVENTUS sem gerði sitt þriðja jafntefli í síðustu fjórum leikjum er í góðri stöðu en meistararnir hafa sjö stiga forskot á AC Milan í efsta sæti. Svíinn Zlatan Ibrahimovic komst næst því að skora fyrir Juventus en hann átti skot í markstöngina í fyrri hálfleik. Pavel Nedved var í banni og þá lék Alessandro Del Piero ekki vegna meiðsla og líklegt er að hann missi af leiknum gegn Arsenal í Meistaradeildinni á miðvikudaginn.

* AC MILAN sem tekur á móti Lyon í Meistaradeildinni annað kvöld hvíldi Andriy Shevchenko , Kaká og Alessandro Nesta .

* MIDDLESBROUGH sigraði Manchester City 1:0 á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Steve McClaren , knattspyrnustjóri Middlesbrough , segir að framtíðin sé björt hjá Middlesbrough en hann var mjög ánægður með frammistöðu sinna manna. ,,Ég hafði mjög gaman af þessum leik. Við vorum með marga unga leikmenn sem spiluðu fyrir okkur í dag og það er ljóst að framtíðin er björt hjá Middlesbrough. Við spiluðum frábærlega og við hefðum getað skorað fleiri mörk. Munum við nýta færin betur í næstu leikjum," sagði Steve McClaren

* OLIVER Kahn markvörður Bayern Munchen átti mjög dapran dag á milli stanganna þegar Bæjarar urðu að láta sér lynda 2:2 jafntefli við Köln sem er eitt af botnliðum í þýsku 1. deildinni. Köln komst tvígang yfir í fyrri hálfleik og skrifuðust bæði mörkin á þýska landsliðsmarkvörðinn sem var tekinn af velli í hálfleik.

* GRETNA , sem til skamms tíma lék í enskri héraðsdeild, sex deildum fyrir neðan úrvalsdeildina, er komið í úrslit skosku bikarkeppninnar. Gretna , sem er frá 2.500 manna samnefndum bæ á landamærum Englands og Skotlands , vann Dundee , 3:0, í undanúrslitum á Hampden Park í Glasgow.

* GUÐJÓN Þórðarson og lærisveinar hans í Notts County gerðu 1:1 jafntefli við Leyton Orient í ensku 3. deildinni. Notts County er í 15. sæti deildarinnar með 49 stig og er aðeins sjö stigum frá fallsæti.

* ROGER Federer frá Sviss leikur til úrslita á 11. tennismótinu í röð í keppni atvinnumanna en hann sigraði David Ferrer í undanúrslitum í Miami um helgina.