— Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is "AÐ MÍNU mati er langsótt að sú aðstaða sem fyrir er verði í heild sinni flutt burt, enda er í raun um algjöra lágmarksaðstöðu að ræða fyrir svæðið.
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is

"AÐ MÍNU mati er langsótt að sú aðstaða sem fyrir er verði í heild sinni flutt burt, enda er í raun um algjöra lágmarksaðstöðu að ræða fyrir svæðið. Aftur á móti er ekkert því til fyrirstöðu að frekari uppbygging á þjónustu fari fram á öðrum svæðum fjær laugasvæðinu og þess vegna alla leið niður í byggð," segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, þegar blaðamaður leitaði viðbragða hjá honum við hugmynd Karls Ingólfssonar, rekstrarstjóra ferðaskrifstofunnar Ultima Thule, um að flytja núverandi aðstöðu í Landmannalaugum norður fyrir Norðurbarm, en sem kunnugt er rekur Ferðafélag Íslands gistiskála í Landmannalaugum ásamt hreinlætishúsi.

Að sögn Páls ganga hugmyndir félagsins út á að byggja upp gestastofu við Landmannalaugar og bæta enn frekar aðstöðuna fyrir ferðamenn með það í huga að hægt verði að stýra umferðinni þar enn betur og vernda svæðið enn frekar, en þess má geta að árlega leggja rúmlega hundrað þúsund ferðamenn leið sína á svæðið. Bendir hann á að það verði þó ekki gert nema í samvinnu við sveitarfélagið í Rangárþingi ytra og Umhverfisstofnun og vinna þurfi deiliskipulag á svæðinu.

"Við fögnum því auðvitað að ferðaþjónustan í heild láti sig þessi mál meira varða og geri tilkall til þessara svæða sem hafa verið í umræðunni sem og til hálendisins, því ferðaþjónustan á auðvitað mikilla hagsmuna að gæta," segir Páll og tekur fram að markmið félagsins miði að sjálfsögðu að góðu nábýli við náttúruna. Aðspurður segist Páll ekki sammála því mati Karls að núverandi mannvirki við Landmannalaugar þrengi að upplifun ferðafólks á svæðinu og bendir máli sínu til stuðnings á þann mikla fjölda gesta sem leggur leið sína á svæðið ár hvert.

Strandar á fjármagni

Þegar leitað var viðbragða Árna Bragasonar, forstöðumanns náttúruverndar- og útivistarsviðs hjá Umhverfisstofnun, sagðist hann hins vegar sammála Karli. "Það geta samtímis verið nokkur þúsund manns í Landmannalaugum. Allir eru á þessum eina bletti og þarna eru menn mjög nálægt því sem verið er að skoða. Þannig að það myndi örugglega vera til bóta að færa þetta fjær," segir Árni og bendir á að það strandi hins vegar á fjármagni. Tekur hann þó líka fram að ákvörðun um flutning mannvirkja af svæðinu þurfi að taka í samvinnu Umhverfisstofnunar, viðkomandi sveitarfélaga og hagsmunaaðila. Bendir hann á að starfandi sé ráðgjafarnefnd fyrir friðlandið sem fundi reglulega. "Ég geri ráð fyrir að þetta verði til umræðu hjá ráðgjafarnefndinni á næstu fundum."

Aðspurður segir Árni umræðuna um mannvirkin við Landmannalaugar ekki nýja af nálinni. Bendir hann á að ákveðin hugmyndafræði liggi að baki öllu skipulagi í Landmannalaugum eins og það er nú, en sú hugmyndafræði var unnin í samstarfi sveitarfélaganna á svæðinu og Náttúruverndarráðs fyrir allmörgum árum síðan. "Eitt af því sem þessir aðilar hafa rætt er hvort flytja eigi aðstöðuna út að Sólvangi, en þar var áður aðstaða. Auk þess hefur verið rætt um að færa alla hestaumferð úr Landmannalaugum yfir í Landmannahelli til að dreifa álaginu."