Helgi Jóhannesson, TBR, fagnaði þreföldum sigri á Íslandsmótinu í badminton í gær.
Helgi Jóhannesson, TBR, fagnaði þreföldum sigri á Íslandsmótinu í badminton í gær. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SEIGLA Helga Jóhannessonar í úrslitum einliðaleiks karla í badminton skilaði árangri en hann sneri taflinu sér í hag í úrslitaleiknum gegn Tryggva Nielsen.

SEIGLA Helga Jóhannessonar í úrslitum einliðaleiks karla í badminton skilaði árangri en hann sneri taflinu sér í hag í úrslitaleiknum gegn Tryggva Nielsen. Helgi sigraði í tveimur síðustu lotunum, sem voru æsispennandi en Tryggvi sigraði í fyrstu lotunni, mjög örugglega. Þetta er annað árið í röð sem Helgi heldur á Íslandsmeistarabikarnum í einliðaleik karla. Ragna Ingólfsdóttir fagnaði sigri í einliðaleik kvenna, fjórða árið í röð, en hún hafði mikla yfirburði í úrslitum gegn Söru Jónsdóttur.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson seth@mbl.is

Þetta leit ekki vel út eftir fyrstu lotuna, sem ég tapaði 15:3. Þar átti ég einfaldlega ekki möguleika gegn Tryggva sem lék vel á þeim tíma. Ég fékk síðan ráð frá þjálfara mínum fyrir aðra lotuna og hann sagði mér hvar Tryggvi hefði verið að skora flest stigin. Ég reyndi að loka sem mest á það og í kjölfarið fór ég að hafa meiri trú á sjálfum mér," sagði Helgi. Hann var um tíma 9:2 undir í oddalotunni en hann náði með seiglu að snúa leiknum sér í hag. "Það er í raun það eina sem maður er að segja við sjálfan sig, að gefast ekki upp. Útlitið var ekki alltaf gott en ég náði að vinna mig í gegnum mótlætið og það var því ljúft að fagna sigri," sagði Helgi.

Í 2. og 3. lotu ákvað Tryggvi að hækka upp í 17 stig þar sem jafnt var á með þeim í stöðunni 14:14, en sá leikmaður sem fyrr nær að skora 14 stig fær að ákveða hvort hækka eigi upp í 17 eða láta það duga að leika upp í 15 stig.

"Ég var ánægður með að Tryggvi skyldi hækka upp í 17 stig. Ég hefði líklega ekki náð að landa sigri með öðrum hætti," sagði Helgi en hann

segist hafa æft mun minna í vetur en áður. "Ég er í ströngu námi, í bóklegum hluta í atvinnuflugmannsnáminu, og það hefur tekið hug minn allan í vetur. Ég hef því ekki verið að æfa eins mikið og ég vildi. Þessi sigur var því enn sætari fyrir vikið," sagði Helgi Jóhannesson Íslandsmeistari í einliðaleik karla árið 2006.

Helgi bætti um betur síðar um daginn en hann sigraði í tvíliðaleik með Brodda Kristjánssyni og í tvenndarleik með Drífu Harðardóttur. Helgi er fyrsti badmintonmaðurinn sem sigrar þrefalt á Íslandsmótinu í 15 ár. Árni Þór Hallgrímsson sigraði þrefalt árið 1991.

Ragna stefnir á ÓL í Peking

Ragna Ingólfsdóttir átti ekki í vandræðum með að sigra Söru Jónsdóttur í úrslitum einliðaleiks kvenna í badminton í gær en Ragna vann báðar loturnar mjög örugglega, 11:1 og 11.2. Þetta er í fjórða sinn á jafnmörgum árum sem Ragna sigrar í einliðaleik kvenna en hún hefur sett stefnuna á Ólympíuleikana í Kína árið 2008.

"Jú þetta var frekar einfaldur sigur. Ég þekki mjög vel til Söru, veikleika hennar og styrkleika. Við höfum verið að æfa mikið saman í gegnum árin og það er því einfaldara að leika slíka úrslitaleiki," sagði Ragna en hún hefur átt við meiðsli að stríða í vetur og fyrir mánuði síðan var hún á þeirri skoðun að keppa ekki á Íslandsmótinu. "Skynsemin sagði mér að hvíla mig en keppnisskapið tók völdin. Ég vildi ekki sjá að bikarinn færi í hendurnar á einhverjum öðrum," sagði Ragna. Hún stundar nám í heimspeki og félagsfræðum við Háskóla Íslands en hún ætlar að ná sér góðri af meiðslunum áður en hún hefur undirbúning fyrir næstu törn fyrir Ólympíuleikana. "Ég hef verið meidd í tábergi, hásin, rist og ökkla á hægra fæti og því er af mörgu að taka. Ég ætla mér að ná mér af þessum meiðslum áður en ég fer að æfa og keppa næsta haust. Þá hefst undirbúningur fyrir Ólympíuleikana, ég þarf að safna mér inn stigum með því að leika á alþjóðlegum mótum. Ég fæ vonandi styrk frá Ólympíusambandinu en þetta verður erfitt verkefni að tryggja sér þátttökurétt á ÓL. Ég og Sara reyndum að komast á ÓL í Aþenu í tvíliðaleik en komumst ekki inn. Það er eitthvað búið að breyta reglunum í einliðaleiknum hvað varðar lágmörkin fyrir ÓL, og það ætti því að vera meiri möguleiki fyrir mig að komast inn en áður," sagði Ragna Ingólfsdóttir en hún sigraði einnig í tvíliðaleik en þar lék hún með Katrínu Atladóttur.