BANDARÍSKA dagblaðið Washington Post hafði í gær eftir bandarískum leyniþjónustumönnum og sérfræðingum í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi að þeir teldu að stjórnvöld í Íran myndu svara hugsanlegri árás á kjarnorkumannvirki þeirra með því að skipa...

BANDARÍSKA dagblaðið Washington Post hafði í gær eftir bandarískum leyniþjónustumönnum og sérfræðingum í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi að þeir teldu að stjórnvöld í Íran myndu svara hugsanlegri árás á kjarnorkumannvirki þeirra með því að skipa útsendurum leyniþjónustu Írans og Hizbollah-hreyfingunni í Líbanon að fremja hryðjuverk víða um heim.

Sérfræðingarnir spáðu því að Íranar myndu standa fyrir árásum á Bandaríkjamenn í Írak þar sem íranska leyniþjónustan er nú þegar með marga menn. Að sögn Washington Post telja sérfræðingarnir að útsendarar írönsku leyniþjónustunnar myndu einnig skipuleggja árásir á óbreytta borgara í Bandaríkjunum, Evrópu og víðar.

George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur sagt að hann hyggist reyna að leysa deiluna um kjarnorkuáætlun Írans með friðsamlegum hætti en bætt við að öll úrræði komi til greina til að afstýra því að Íranar eignist kjarnavopn.

Heimildarmenn Washington Post sögðu þó að áhugi bandarískra embættismanna á starfsemi leyniþjónustu klerkastjórnarinnar í Íran benti ekki til þess að árás á Íran væri yfirvofandi eða líkleg.

Hugsanleg árás rædd í London

Breska dagblaðið The Daily Telegraph sagði í gær að breska stjórnin hygðist halda leynilegan fund með yfirmönnum hersins í dag til að ræða afleiðingar hugsanlegrar árásar á Íran. Blaðið hafði eftir heimildarmönnum sínum að loftárásir á kjarnorkumannvirki í Íran yrðu "óhjákvæmilegar" ef þarlend stjórnvöld yrðu ekki við kröfu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að hætta auðgun úrans.

Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, sagði þó í síðasta mánuði að árás á Íran væri "óhugsandi".