Leikstjóri: Frank Marshall. Aðalleikarar: Paul Walker, Bruce Greenwood, Jason Biggs, Moon Bloodgood, August Schellenberger. 120 mín. Bandaríkin 2006.

TEKIÐ er að hausta á Suðurskautslandinu þegar Jerry (Walker), leiðsögumaður á lítilli rannsóknarstöð, fær það verkefni að fara með vísindamanninn Davis (Greenwood), nokkrar dagleiðir út á auðnina. Tilefnið að hafa uppi á nýföllnum loftsteini og ferðast þeir félagar á sleða, dregnum af átta stórum og stæltum sleðahundum. Jerry er jafnframt þjálfari þeirra, umsjónarmaður og vinur.

Tvímenningarnir hafa ekki fyrr haft uppi á steininum en boð berast frá stöðinni að þeir snúi sem skjótast til baka, ofviðri er í uppsiglingu. Þeim tekst að ná til bækistöðvanna í tæka tíð og samstundis er rokið í loftið en ekkert pláss er fyrir hundahjörðina og verða þeir strandaglópar.

Þegar heim til Bandaríkjanna er komið getur Jerry ekki á heilum sér tekið, finnst hann hafa brugðist vinum sínum illilega og gerir margar en árangurslausar tilraunir til að hrinda af stað björgunarleiðangri eftir þeim. Það tekst ekki fyrr en að hálfu ári liðnu.

Að einhverju leyti styðst myndin við atburði sem áttu sér stað um miðja síðustu öld í búðum japanskra Suðurpólfara. Það skiptir ekki máli að öðru leyti en því að þeir sanna hve sleðahundar eru sterk og vitur dýr og vel búin til að takast á við ótrúlegar þolraunir.

Eight Below er tekin í ægifögru vetrarríki, að vísu á norðurhveli jarðar, en það truflar engan (nema þá helst mörgæsaaðdáendur). Á hinn bóginn eru stúdíótökur og brellur ekki jafn trúverðugar og svipaða sögu er að segja um leikarana sem fá einkum vondar línur og standast ekki samanburðinn við notalega frammistöðu ferfætlingana sem eignast í manni hvert bein.

Þegar Disney er í fjölskyldustellingum er við hæfi að gefa heilasellunum frí, landfræðilegar staðreyndir, veðurfræði og aðrir slíkir smámunir eru algjört aukaatriði í þeim ævintýraheimi. Engan skal undra þó það sé sumar og sól á Suðurpólnum þegar þar ríkir, samkvæmt hnattstöðu, bleksvört vetrarnóttin,. Til hvers að ergja sig yfir því og ýmsum öðrum smámunum? Eight Below er hönnuð fyrir fjölskylduna, ekki síst yngstu meðlimina og er blessunarlega laus við allt sem heitir ofbeldi, sem gerist harla fátítt, jafnvel í fjölskyldumyndum. Á hinn bóginn útskýrir hún, á sinn einfalda hátt, þau sterku og bætandi bönd sem myndast á milli mannsins og besta vinar hans.

Sæbjörn Valdimarsson