Gautaborg. Morgunblaðið. | Nemendur Ytterby-skólans í Svíþjóð sem niðurlægja aðra með kynþáttafordómum eiga á hættu að falla í samfélagsfræði.

Gautaborg. Morgunblaðið. | Nemendur Ytterby-skólans í Svíþjóð sem niðurlægja aðra með kynþáttafordómum eiga á hættu að falla í samfélagsfræði. Að sögn skólastjórans, Anne-Charlotte Brandberg, hafa komið upp vandamál í skólanum vegna slíkra fordóma og því er gripið til þessara aðgerða.

Ákvörðunin hefur vakið athygli og einnig gagnrýni menntamálayfirvalda fyrir að vera nokkurs konar skoðanakúgun. Lögfræðingur fræðsluskrifstofu segir að skoðanafrelsi ríki í landinu og framkoma eigi ekki að gilda sem hluti af einkunn.

Ytterby-skólinn er fyrir nemendur í 7.-10. bekk og er í Kungälv, nágrannasveitarfélagi Gautaborgar. Fulltrúar allra stjórnmálaflokka í bæjarstjórn hafa lýst stuðningi við ákvörðun skólastjórans.

Skólastjórinn segir ákvörðunina snúast um að kenna nemendum leikreglur lýðræðisins en hún sé ekki neins konar skoðanakúgun. Að hennar mati hafa allir rétt á að hafa eigin skoðun. Hins vegar á skólinn ekki að umbera kynþáttafordóma og tjáningu þeirra í skólanum þótt margir foreldrar taki of laust á slíku.