Nokkrar ljósmyndir úr stóru safni Hjörleifs Guttormssonar voru sýndar á málstofunni. Hér ræðir Hjörleifur við Odd Sigurðsson jarðfræðing sem einnig er kunnur fyrir myndir sínar.
Nokkrar ljósmyndir úr stóru safni Hjörleifs Guttormssonar voru sýndar á málstofunni. Hér ræðir Hjörleifur við Odd Sigurðsson jarðfræðing sem einnig er kunnur fyrir myndir sínar. — Morgunblaðið/jt
Eftir Jóhannes Tómasson joto@mbl.is NAUÐSYNLEGT er að skoða landslagsheildir, vistkerfið og samhengið í náttúrunni en ekki að einblína á bletti því blettafriðun blekkir okkur, segir Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur í samtali við Morgunblaðið.
Eftir Jóhannes Tómasson joto@mbl.is

NAUÐSYNLEGT er að skoða landslagsheildir, vistkerfið og samhengið í náttúrunni en ekki að einblína á bletti því blettafriðun blekkir okkur, segir Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur í samtali við Morgunblaðið. Guðmundur Páll var meðal ræðumanna á málþinginu Stefnumót við Hjörleif sjötugan sem haldið var nýlega til heiðurs Hjörleifi Guttormssyni sem varð sjötugur á liðnu hausti. Þar kynnti Guðmundur Páll m.a. hugmyndir sínar um víðtæka hálendisþjóðgarða. Að málþinginu stóðu ellefu samtök og félög sem starfa að náttúruvernd og útivist. Hjörleifur flutti ávarp í lok málþingsins og sagði hann m.a. að umhverfis- og auðlindavernd yrðu stærsta alþjóðlega viðfangsefni aldarinnar samhliða baráttunni fyrir friði.

"Íslendingar hafa ávallt verið tregir að vernda," segir Guðmundur Páll ennfremur. "Þeir óttast friðanir og það að vernda og lagabókstafurinn er á þann veg. Þetta á bæði við um náttúru og menningarminjar, einkum heildir.

Sláandi dæmi um andvaraleysið er til dæmis þorpið í Flatey á Breiðafirði sem núorðið er heildstæðasta byggingararfleifð frá 19. öld og byrjun 20. og það nýtur engrar verndar þrátt fyrir að húseigendur í gamla Flateyjarþorpi hafi þrásinnis beðið um slíkt sl. 30 ár. Svipað gildir um náttúru Íslands, sem er öðruvísi menningararfur. Stunduð er eins konar blettafriðun eða frímerkjafriðun og hún hefur afar takmarkað gildi. Þetta mun breytast svolítið með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs en ef á heildina er litið er verndun íslenskrar náttúru bæði ómarkviss og metnaðarlítil og þetta stafar fyrst og fremst af þekkingarleysi en líka skaðlegri ofuráherslu á orkuframleiðslu."

Breytir ímyndinni út á við

Guðmundur Páll segir að Íslandsgarðar séu byggðir á hugmyndum Sigurðar Þórarinssonar um þjóðvanga þar sem fjölþætt starfsemi fari fram og nýting þurfi jafnvel ekki að breytast verulega nema hvað varðar framkvæmdir sem skaða vistkerfin. "Samt myndi sýn okkar á landið gjörbreytast. Hún myndi einnig breyta sjálfsímynd okkar og samhygð svo og ímynd landsins út á við til góðs. Ég hef gert tillögu um tvo megingarða. Miðgarður nær frá Reykjanestá norður á Melrakkasléttu og Langanesfonti og um fjallageim Tröllaskaga. Í Miðgarði eru allir meginjöklar landsins og svo til allt gosbeltið en einnig mikilvæg vistkerfi eins og Arnarvatnsheiði og heiðar fyrir austan. Hinn garðurinn er Ásgarður sem nær yfir Vestfirði frá Hornstrandafriðlandi en síðan mest um hásléttu og fjöll Vestfjarðakjálka en líka Látrabjarg og Breiðafjörð.

Við það eitt að setja svona hugmyndir á blað "stækkar" Ísland og verður að miklu voldugri heild en áður. Blettafriðunin blekkir okkur og við náum engu samhengi. Hér þarf nýja hugsun og skilning svo og nýja nálgun hjá löggjafanum og framkvæmdavaldinu - en ekki síður hjá sveitarstjórnum, landeigendum og almenningi yfirleitt. Þetta er hagsmunamál allrar þjóðarinnar og eitthvað sem gæti sameinað þjóðina á ný."

Auk þess sem Guðmundur Páll brá upp sýn á hálendisþjóðvang ræddu nokkrir aðrir fyrirlesarar myndir af óbyggðum Íslands í nútíð og framtíð og fjallað var um alþjóðlegt samstarf og náttúruvernd á norðurslóðum.

Árni Bragason, forstöðumaður náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar, fjallaði um þjóðgarða og verndarsvæði, Andri Snær Magnason ræddi um náttúruna andspænis raunverleikanum, Skúli Skúlason, rektor Hólaskóla, talaði um líffræðilega fjölbreytni og heimskautasvæðin, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir skýrði frá rannsóknum á borkjörnum úr Grænlandsjökli og Sigmar A. Steingrímsson frá Hafrannsóknastofnun ræddi kórallasvæði við Ísland og friðun þeirra.

Tækfæri til að fræða og ræða

Hjörleifur Guttormsson sagði í samtali við Morgunblaðið að hann hefði í fyrstu verið hikandi að boða til málstofu sem þessarar og tengja hana nafni sínu. Hann hefði hins vegar ekki getað annað en glaðst við þegar hann skynjaði hversu mikill floti náttúruverndarfólks stæði á bak við málstofuna og hún væri kærkomið tækifæri til að fræða og ræða þessi mál. Samþykkt var á Alþingi árið 1997 þingsályktunartillaga Hjörleifs um verndun hálendisins og þar gerði hann ráð fyrir ákveðnum mannvirkjabeltum á milli jökla, m.a. vegna vegagerðar.

Í ávarpi sínu sagði Hjörleifur að náttúruvernd væri ekki sérfræði heldur tilfinning og skilningur á framvindu í umhverfinu. Hann sagði að félagslegt og pólitískt áralag í baráttunni fyrir náttúruvernd skipti miklu og samstarfsmenn sínir á þessu sviði á Austurlandi hefðu átt rætur í öllum stjórnmálaflokkum. Hann kvaðst hafa á tilfinningunni að þátttaka sín í stjórnmálum hafi ekki truflað störf ópólitískra almannasamtaka sem hann hefði lagt lið, náttúruverndarsamtaka eða Ferðafélags Íslands. Ráðlagði hann náttúruverndarfólki að forðast ekki stjórnmálabaráttuna heldur ýta á flokkana og gera þá kröfu að þeir tali skýrt í þessum efnum sem öðrum.