Eftir Hrund Þórsdóttur hrund@mbl.is BÆJARSTJÓRN Vesturbyggðar hefur kært úrskurð Skipulagsstofnunar frá því í febrúar um mat á umhverfisáhrifum varðandi Vestfjarðaveg nr. 60, Bjarkalundur - Eyri í Reykhólahreppi.
Eftir Hrund Þórsdóttur hrund@mbl.is

BÆJARSTJÓRN Vesturbyggðar hefur kært úrskurð Skipulagsstofnunar frá því í febrúar um mat á umhverfisáhrifum varðandi Vestfjarðaveg nr. 60, Bjarkalundur - Eyri í Reykhólahreppi. Skipulagsstofnun féllst á framkvæmd svokallaðrar leiðar B með skilyrðum en lagðist gegn þeim hluta framkvæmdarinnar sem fól í sér að Djúpifjörður og Gufufjörður yrðu þveraðir. Til þess að þvera þá þyrfti að fara í gegnum Teigsskóg, en hann er á Náttúruminjaskrá. Annar möguleiki sem helst er í umræðunni, leið D, felur í sér endurbætur á leið sem liggur meðal annars yfir Hjallaháls og Ódrjúgsháls.

"Við viljum styttri, einfaldari, þægilegri, snjólausari, beinni og betri veg," segir Geir Gestsson, bæjarstjórnarmaður í Vesturbyggð. Hann segir að vissulega hafi bæjarstjórnin áhyggjur af raski á náttúrunni sem óhjákvæmilega yrði ef leið B væri farin, en að ekki sé hægt að sætta sig við að íbúarnir séu settir í annað sætið. Þá bendir hann á að Skipulagsstofnun hafi fengið þær hugmyndir frá Vegagerðinni að aðeins ein leið væri fær í gegnum skóginn.

"Við erum búin að margbenda á að hægt er að fara margar leiðir, fyrir ofan hann og neðan hann og mismunandi leiðir í gegnum hann og síðan eru til margar leiðir við að leggja veg. Það þarf ekki endilega að eyðileggja skóg sem nemur öllu helgunarsvæði vegarins," segir Geir. "Það þarf ekki að gera þetta eins stórkostlega flókið og Vegagerðin lagði til í sinni umsögn til Skipulagsstofnunar. Hún var skrítin því Vegagerðin mælti á endanum með því að fara eftir lausn B."

Mikil slysahætta á fjallvegum

Geir segir enga Íslendinga fá að kynnast fjallvegum eins svakalega og Vestfirðingar. "Okkur finnst til háborinnar skammar að þegar við eigum möguleika á að taka tvo fjallvegi í burtu, þá sé sagt nei vegna nokkurra hríslna," segir hann. "Á sama tíma erum við að berjast fyrir að koma Látrabjargi á kortið varðandi meiri vernd, erum að græða upp allt í kringum okkur og fleira en svo er látið bitna á okkur að við viljum láta fara í gegnum smá kjarrlendi."

Geir segir leið D ekki ásættanlega þrátt fyrir að endurbætur yrðu að veruleika. "Þetta er og verður fjallvegur. Sjálfur hef ég tvisvar sinnum farið út af á þessum vegi," segir hann og nefnir að vegrið hafi vantað á fjallvegum á Vestfjörðunum.

"Við höfum mestar áhyggjur af slysahættunni en líka vegalengdinni. Þetta yrði 22 kílómetra bein stytting en ígildi 60 kílómetra styttingar með því að færa fjallveg á láglendi."

Geir kveðst bjartsýnn á framhaldið þar sem hin lausnin sé alls ekki nógu góð. Kæran var póstlögð þann 30. mars og ráðherra hefur átta vikur til þess að úrskurða í málinu.

"Það eru samt fordæmi fyrir að það hafi tekið fimm til sex mánuði," segir Geir. "Við erum búnir að bíða eftir góðum vegum í þúsund ár og verðum bara að hinkra aðeins lengur."