ÚTGERÐARFYRIRTÆKIÐ Samherji á Akureyri skilaði 3,1 milljarðs króna hagnaði á síðasta ári, sem er 200 milljónum króna betri afkoma en árið 2004. Rekstrartekjur samstæðunnar námu 21,3 milljörðum króna og jukust um ríflega 27% frá árinu áður.

ÚTGERÐARFYRIRTÆKIÐ Samherji á Akureyri skilaði 3,1 milljarðs króna hagnaði á síðasta ári, sem er 200 milljónum króna betri afkoma en árið 2004.

Rekstrartekjur samstæðunnar námu 21,3 milljörðum króna og jukust um ríflega 27% frá árinu áður. Aukningin stafar að stærstum hluta af áhrifum dótturfélaga sem nú eru að fullu inni í rekstrartekjum ársins 2005 auk sölu fastafjármuna.

Rekstargjöld ársins voru 17,4 milljarðar og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 3,9 milljarðar. Afskriftir voru 1,4 milljarðar króna og voru fjármagnsliðir jákvæðir um 1.227 milljónir.

Heildareignir samstæðunnar í árslok 2005 voru bókfærðar á 28,7 milljarða króna. Skuldir og skuldbindingar námu rúmum 21 milljarði. Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 25% en var áður 43% og stafar lækkunin af samruna við Fjárfestingafélagið Fylki ehf., en við samrunann lækkar eigið fé Samherja um 6.885 milljónir króna.

"Þrátt fyrir að úthlutaður loðnukvóti á síðustu vetrarvertíð hafi verið mun minni en væntingar stóðu til og vertíðin staðið stutt, eru horfur fyrir árið 2006 þokkalegar. Skýrist það annars vegar af góðu verði fyrir afurðir á helstu mörkuðum félagsins og hins vegar að gengi íslensku krónunnar er að færast nær því gildi sem telja má viðunandi fyrir starfsumhverfi íslenskra útflutningsgreina," segir í tilkynningu Samherja til Kauphallar Íslands.