Helgi Hjörvar svarar Staksteinum Morgunblaðsins: "Við þurfum að verða hluti af stærra samfélagi, verða hluti af myntbandalagi evrunnar og leggja niður verðtryggðu íslensku okurkrónuna."

STAKSTEINUM þykir stjórnarandstaðan hugmyndalaus og saknar þess tíma er hún var klofin í marga smáflokka. Okkur finnst þvert á móti höfundur Staksteina með afbrigðum hugmyndaríkur. Ekki birtist það síst í þrálátri þáþrá hans eftir þeim sælu dögum þegar séntilmennirnir í fjölskyldunum fjórtán áttu Ísland. Ó hve sælt var að vera fátækur þá.

Hvað gerðist?

Áratugum saman stýrðu vinir blaðsins, "góða auðvaldið", landinu og áttu það í krafti pólitískrar miðstýringar. Í gegnum hana réðu þeir hverjir nutu lánstrausts landsins, höfðu aðgang að fjármagni og þar með völd. Almenningur átti ekki til annarra að leita með viðskipti sín á litlum og lokuðum markaði og var þannig örugg undirstaða velsældar fjölskyldnanna fjórtán. Þetta valdakerfi var ofverndað og gekk því úr sér og atvinnulíf okkar staðnaði. Undir lok síðustu aldar urðu síðan fyrir tilverknað íslenskra jafnaðarmanna fjármagnsflutningar frjálsir til og frá landinu og þá tók að losna um ofurtök þeirra sem átt höfðu Ísland. Stóra breytingin varð þó ekki fyrr en við sölu ríkisbankanna.

Það sem aldrei er sagt er að þá var lánshæfi landsins selt einkaaðilum. Það var hin gríðarlega dulda eign sem í bönkunum lá því þó þeir væru litlir fengu þeir bestu lánskjör því þeir væru kerfisbankar á Íslandi sem aldrei yrðu látnir fara á hausinn. Þar með var verið að selja aðganginn að fjármagninu, réttinn til að eiga Ísland. Þess vegna voru Halldór og Davíð á kafi í hverjir fengju að eignast. Þess vegna var svo óeðlilega að þeirri sölu staðið og þokukennt hverjir væru að kaupa af hverjum að við í fjárlaganefndinni þurftum að taka málið til sérstakrar rannsóknar. Hún afhjúpaði hve þessu var handstýrt.

Þetta lánshæfi Íslands hafa nú nýju eigendurnir nýtt til fulls og kannski meira en það. Eigendurnir eru líka orðnir margir og allt í einu hefur bara alls konar fólk aðgang að fjármagni, jafnvel ribbaldar segja Staksteinar. Og þeir sem hafa aðganginn að ódýru erlendu lánsfé til að eiga Ísland með hafa enn íslenskan almenning hangandi í verðtryggðum skuldum með hæstu vöxtum í heimi og þurfa því engu að kvíða um afkomu sína af góðum vaxtamun á fákeppnismarkaði.

Hvað ber að gera?

En þó virðingarvert sé af Staksteinum að taka siðferðilega afstöðu til mannlegrar breytni í viðskiptalífinu breytist heimurinn lítið við að mótmæla því sem orðið er. Áherslur hans um styrkingu samkeppni og eftirlits geta sumar orðið til bóta, þó ekki verði séð að þær breyti hinum nýja veruleika í neinum aðalatriðum. Við jafnaðarmenn höfum hins vegar einfalda og skýra hugmynd um hvað gera þurfi. Við þurfum að verða hluti af stærra samfélagi, verða hluti af myntbandalagi evrunnar og leggja niður verðtryggðu íslensku okurkrónuna. Þannig sköpum við öllum almenningi aðgang að því ódýra erlenda lánsfé sem forréttindastéttirnar hafa til þessa haft einkarétt á. Því eins og Staksteinar auðvitað vita er það sá sem hefur aðganginn að lánsfénu sem á Ísland.

Með niðurlagningu krónunnar verður líka rutt úr vegi stærstu viðskiptahindruninni fyrir erlend fyrirtæki til að veita samkeppni hér á landi, en sem kunnugt er þörfnumst við samkeppni mjög. Ekki síst á þetta við um samkeppni á fjármálamarkaði. Þá vaxa og dafna útflutningsgreinarnar af því að leggja niður þá viðskiptahindrun sem smámyntin okkar er. Síðast en ekki síst aukum við trúverðugleika íslensks fjármálakerfis þannig til framtíðar, drögum úr sveiflum og hættu á fjármálakreppu um leið og við sköpum hinum öflugri fyrirtækjum það alþjóðlega umhverfi sem þau þurfa til vaxtar. Því stöðugleika og trúverðugleika endurheimtum við ekki með umvöndunum heldur þeirri skynsamlegu langtíma aðgerð í efnahags- og atvinnumálum að leggja niður íslensku krónuna, sem orðin er almenningi alveg nógu dýrkeypt.

Höfundur er alþingismaður Samfylkingarinnar.