Þórólfur Matthíasson
Þórólfur Matthíasson
Eftir Þórólf Matthíasson: "Aðferðafræði Landsvirkjunar er eins og að kaupa miða í Happdrætti HÍ fyrir mánaðarlaunin og tryggingu að auki til að jafna tekjurnar af væntanlegum vinningum!"

AFLEIÐUSAMNINGAR Landsvirkjunar og arðsemi einstakra virkjunarframkvæmda fyrirtækisins hafa verið til umfjöllunar meðal almennings undanfarnar vikur og misseri. Tilefni þessarar umfjöllunar hafa verið ærin. Fyrirtækið stendur nú, í andstöðu við allstóran hóp almennings, eigenda sinna, fyrir stærstu framkvæmd Íslandssögunnar. Arðsemi framkvæmdarinnar hefur verið dregin í efa. Ársreikningur fyrirtækisins sýnir ríflega fimm milljarða "stundartap" á afleiðusamningum þess. Fyrirtækið er í eigu ríkis og sveitarfélaga, almennings. Sú staðreynd hefur eðlilega áhrif á opinbera umfjöllun um fyrirtækið og á stjórnun þess. Almenningur á kröfu um að vera upplýstur um rekstur fyrirtækisins. Almenningur á rétt á að stjórnendur fyrirtækisins hlusti á aðfinnslur "mannsins á götunni" og taki tillit til þeirra. Nýleg dæmi eru um að afleiðuviðskipti og reikningsskil erlends orkufyrirtækis hafi orðið svo flókin að bæði stjórn, stjórnendur og endurskoðendur misstu sjónar á hvert stefndi með fjárhag fyrirtækisins. Kannski hefði því fyrirtæki reitt betur af hefði stjórnendum þess verið gert að svara spurningum á tungumáli mannsins á götunni.

Arðsemi Kárahnjúkavirkjunar

Fjármálastjóri Landsvirkjunar víkur orðum að gagnrýni á heimasíðu fyrirtækisins auk þess sem fyrrverandi endurskoðandi þess kveður sér hljóðs hér í blaðinu 24. mars síðastliðinn. Báðir kvarta undan vankunnáttu gagnrýnenda sinna. Báðir skauta léttilega yfir þá staðreynd að fyrirtækið er í eigu opinberra aðila og láta eins og Landsvirkjun sé hvert annað fyrirtæki á hlutabréfamarkaði og að um það gildi sömu lögmál og um einkafjármagnsfjármögnuð fyrirtæki. Landsvirkjun er ekki svoleiðis félag. Landsvirkjun er félag sem stjórnmálamenn ákveða að fari í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar þó svo sú framkvæmd skili félaginu aðeins 4-5% innri vöxtum (mat endurskoðandans fyrrverandi í Mbl. 24.3. 2006). Landsvirkjun er félag sem hefur, með lögum, fengið verðmæt réttindi til nýtingar endurgjaldslaust. Landsvirkjun er félag sem nýtur ótakmarkaðrar ábyrgðar ríkis og stærstu sveitarfélaga landsins á lánum sínum og fær fyrir bragðið afar hagstæð lánskjör á erlendum mörkuðum. Sú spurning hefur verið afskaplega áleitin undanfarin misseri hvort fyrirtæki sem væri fjármagnað á hlutafjármarkaði hefði farið út í framkvæmd á borð við Kárahnjúkavirkjun hefði það þurft að greiða eðlilegar bætur fyrir landspjöll og hefði það þurft að afla framkvæmdafjár á grundvelli eigin rekstrar. Arðsemismat endurskoðandans fyrrverandi tekur af öll tvímæli í þeim efnum. Þar sem slíkt fyrirtæki hefði þurft að borga fyrir landspjöll og taka lán án ríkisábyrgðar hefði arðsemi framkvæmdarinnar orðið talsvert lakari en 4-5%, kannski 1-3%, sem er "tremma" langt undir þeirri arðsemi sem fyrirtæki á markaði telja viðunandi: Úti væri Kárahnjúkaævintýri. Og það án þess að taka með í reikningana að einkavætt fyrirtæki hefði tæpast getað boðið samningsaðila sínum verðmæta íslenska koltvísýringsmengunarkvóta endurgjaldslaust til afnota.

Áhættuvarnir mannsins á götunni

Hlutverk afleiða er að draga úr áhættu, eins og fyrrverandi endurskoðandi Landsvirkjunar bendir réttilega á. Maðurinn á götunni stendur frammi fyrir tvíþættri áhættu. Í fyrsta lagi áhættu sem hann getur ekki stjórnað, húsið getur brunnið ofan af honum, bíllinn orðið fyrir ófyrirsjáanlegum skakkaföllum í umferðinni, farangur hans getur týnst á ferðalögum. Maðurinn á götunni kaupir sér tryggingar gagnvart þessum tjónum til þess að koma þessari áhættu á viðunandi stig. Í öðru lagi stendur hann frammi fyrir áhættu sem hann stjórnar sjálfur með því t.d. að kaupa miða í Lottói eða í Happdrætti Háskóla Íslands eða með því að spila í spilakössum. Maðurinn á götunni stjórnar umfangi þessarar áhættu þegar hann ákveður hversu margar raðir hann kaupir í lottóinu. Ég hef enn engan mann hitt sem hefur keypt sér tryggingu gegn "lottóáföllum". Ég vil leyfa mér að halda því fram að Landsvirkjun sé í sporum mannsins á götunni: Hún kaupir sér tryggingar vegna mögulegra áfalla á gjaldeyrismörkuðum og lánamörkuðum, rétt eins og þegar maðurinn á götunni kaupir kaskó á bílinn. En þegar Landsvirkjun ákveður að binda verð á seldri raforku við verð á áli á heimsmarkaði þá er Landsvirkjun að kaupa lottómiða. Landsvirkjun getur ráðið því hversu margar lottóraðir hún kaupir með því að breyta formi orkusamninganna. Vilji hún litla áhættu (fáar raðir) semur hún um að álverðssveiflur hafi lítil áhrif á raforkuverðið, vilji hún mikla áhættu (margar raðir) semur hún um að álverðssveiflur hafi mikil áhrif á raforkuverðið. Að gera samning um mikil áhrif álverðssveiflu á raforkuverð og kaupa síðan afleiðu til að draga úr afkomusveiflunum er álíka skynsamlegt og að nota meginhluta launa sinna til að kaupa miða í Happdrætti HÍ og kaupa síðan tryggingu til að jafna tekjurnar af vinningunum á happdrættismiðana á milli ára!

Nýtísku fjármálaverkfræði?

Er það kannski boðskapur þeirra félaga, endurskoðandans fyrrverandi og fjármálastjórans, að lausnir nýtísku fjármálaverkfræði í áhættustjórnun felist í því fyrst að auka áhættu fyrirtækis með því að bjóða viðskiptavinum að taka yfir hluta af þeirra áhættu og því næst að kaupa afleiðu gegn þessari nýkeyptu áhættu? Það má velta fyrir sér hver sé fyrirhyggjusamari maðurinn fákunnandi á götunni með fjórar vinningslausar lottóraðir í vasanum að loknum laugardagsútdrætti eða ríkisforkólfarnir úti í mýrinni með fimm milljarða gat í stígvélunum í miðju álafleiðuævintýri.

Höfundur er prófessor í hagfræði við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands (VHHÍ).