Framherjarnir Ruud van Nistelrooy og Louis Saha voru hetjur Manchester United gegn Bolton - skoruðu báðir, 2:1.
Framherjarnir Ruud van Nistelrooy og Louis Saha voru hetjur Manchester United gegn Bolton - skoruðu báðir, 2:1. — AP
CHELSEA hefur nú aðeins sjö stiga forskot á Manchester United í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir leiki helgarinnar. Englandsmeistararnir urðu að sætta sig við markalaust jafntefli við Birmingham á St.

CHELSEA hefur nú aðeins sjö stiga forskot á Manchester United í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir leiki helgarinnar. Englandsmeistararnir urðu að sætta sig við markalaust jafntefli við Birmingham á St. Andrews en United hélt sigurgöngu sinni áfram - vann sinn áttunda leik í röð með því að leggja Bolton, 2:1, á Reebock vellinum í Bolton.

Jose Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea, sem fyrir leikinn sagði að níu stiga forskot á United ætti að duga sínum mönnum, hrósaði Birmingham eftir leikinn og sagði að liðið hefði átt stigið skilið.

,,Þetta voru sanngjörn úrslit. Lið Birmingham barðist gríðarlega í 90. mínútur og hver einasti leikmaður liðsins lagði sig 100% fram. Það hefði verið ósanngjart fyrir þá að tapa. En við skoruðum löglegt mark. Það er engin spurning um það. Markið sem Asier del Horno skoraði hefði átt að standa. Við áttum hins vegar ekki skilið að vinna því við lékum illa í 45 mínútur," sagði Mourinho en fyrir þremur vikum síðan höfðu hans menn 18 stiga forskot á Manchester United.

Eiður Smári Guðjohnsen var í byrjunarliði Chelsea en var skipt útaf um miðjan seinni hálfleik.

,,Ég get ekki verið annað en stoltur af mínu liði. Eftir allan vandræðaganginn, stór töp og mikil meiðsli þá þjöppuðu mínir menn sér saman og barátta þeirra var til hreinnar fyrirmyndar," sagði Steve Bruce, stjóri Birmingham, eftir leikinn.

Skiptir miklu að vera í góðu formi í apríl

Ruud Van Nistelrooy tryggði Manchester United sigur annan leikinn í röð þegar hann skoraði sigurmarkið 12 mínútum fyrir leikslok. Bolton komst yfir með marki frá Kevin Davies en Louis Saha, sem tók sæti Nistelrooy í byrjunarliðinu á nýjan leik, jafnaði fyrir leikhlé með frábæru marki. Sir Alex Ferguson ákvað að setja aukinn kraft í sókn sinna manna þegar hann skellti Nistelrooy inná fyrir Darren Fletcher og það reyndist dýrmætt því Hollendingurinn innsiglaði sigur United.

,,Þetta voru frábær úrslit á mjög erfiðum velli og fram undan er stórleikur á móti Arsenal um næstu helgi. Við höfum nú minnkað bilið niður í sjö stig en það samt mikið verk að vinna fyrir okkur. Það er ekki útilokað að við getum náð Chelsea. Við eigum eftir að mæta Chelsea og það á eftir að koma hingað til Bolton og sækja Blackburn heim. Ég hef alltaf sagt að það skiptir afar miklu máli að vera í góðu formi í aprík," sagði Sir Alex Ferguson, stjóri United.

,,1:1 jafntefli hefðu verið frábær úrslit gegn liði sem er í fantaformi þessa dagana en þeir vissu hvernig fór hjá Chelsea og það sást greinilega að leikmenn United ætluðu sér þrjú stig og ekkert annað," sagði Sam Allardyce, stjóri Bolton.