JÓHANNES KRISTJÁNSSON BIFVÉLAVIRKI "Ég klæddi mig úr hverri spjör, var á sokkunum þó, og óð út í ána."
JÓHANNES KRISTJÁNSSON BIFVÉLAVIRKI "Ég klæddi mig úr hverri spjör, var á sokkunum þó, og óð út í ána." — Morgunblaðið/Pétur Blöndal
Bílskúrsdyrnar standa opnar upp á gátt. Inni er Jóhannes Kristjánsson að raða þorskflökum á hillur yfir ofninum til þurrkunar. Á gólfinu liggja nokkrir slægðir þorskar.
Bílskúrsdyrnar standa opnar upp á gátt. Inni er Jóhannes Kristjánsson að raða þorskflökum á hillur yfir ofninum til þurrkunar. Á gólfinu liggja nokkrir slægðir þorskar.

- Mér finnst best að geyma þorskinn þannig í sólarhring áður en ég geng frá honum, segir hann. Þá flaka ég þorskinn, sker aðeins þvert í hann og sái örlitlu af salti yfir. Þegar þorskurinn byrjar að harðna, þá frysti ég hann einu sinni eða tvisvar, svo þurrka ég hann og gef vinum. Ég hef aldrei selt einn einasta fisk.

Eftir andartaks umhugsun bætir hann við:

- Enda er þetta eiginlega leyndarmál.

Jóhannes er snyrtilegur til fara og röð og regla í bílskúrnum. Tilvera Jóhannesar er eiginlega eins og bílvél í Mercedes Benz, - allt á sínum stað. Enda er hann bifvélavirki og rak verkstæði í eigin nafni um langt skeið á Akureyri. Hann hafði umboð fyrir Rússajeppa, sérhæfði sig í viðgerðum á Benz og á svartan fornbíl þeirrar gerðar, 280 SEL frá árinu 1969.

- Ég nota hann lítið, keyri einstaka sinnum brúðhjón ef það eru vinir eða kunningjar. En ég ætla að keyra hann meira í sumar af því að ég er hættur þorskveiðum.

Jóhannes ólst upp á Akureyri og hefur búið þar alla tíð. Hann er fæddur á Syðra-Hvarfi, ysta bænum í Skíðadal að austan, og var þar í sveit á sumrin. Þar veiddi hann fyrsta fiskinn, 10 ára patti.

- Friðþór bróðir pabba hjálpaði mér að útbúa stöng úr bambus og gaf mér veiðihjól, sem ég á ennþá. Fyrsti fiskurinn var bleikja sem ég fékk á blink, skelplötu í segulnagla með þríkrækju aftan í.

Jóhannes er fyrst og fremst veiðimaður. Eins og rólegt yfirbragðið ber með sér. Maður sem er vanur að bíða á árbakkanum og veit að allt hefur sinn tíma. En viljinn er mikill og dugnaðurinn, eins og kemur í ljós þegar fiskurinn gefur sig. Þá er Jóhannes illviðráðanlegur; maður sem dregið hefur að landi 50 til 60 laxa sem eru 20 pund eða stærri.

Og hann er líka sjósóknari, hefur gert út trillu síðan 1945. Hann dregur fram selaskutul og fer í kaststöðu.

- Ég stundaði spjótkast í gamla daga, segir hann og brosir. Ég hef alltaf vonast eftir því að það kæmi höfrungur hér inn. Þá hef ég stöngina með línu og belg í bátnum, þannig að hún týnist ekki. Einu sinni bar vel í veiði hjá mér og Kristjáni syni mínum. Við sáum fallegan höfrung, vorum raunar næstum búnir að týna honum, en sáum fugla yfir. Kristján kastaði skutlinum af fjórum til fimm metrum og hitti hann í bakið. Það kom dálítil kvika.

Þegar komið er á efri hæðina heima hjá Jóhannesi má sjá bikara og viðurkenningarskjöl uppi um allar hillur og veggi, sem honum hafa áskotnast fyrir aflasæld við árbakkann. Ljósmynd í ramma af Jóhannesi við veiðihúsið við Laxá segir alla söguna. Á stéttina hefur morgunveiðin fyrir neðan fossa verið lögð - sextán laxar og aðeins þrír minni en tíu pund. Þar af sex hængar, sá minnsti 16 pund.

- Ég var svo lúinn að það þurfti að hjálpa mér að bera þá upp á Bjargið á eftir, segir hann og hlær.

Jóhannes hélt lengi dagbók, þar sem hann skráði sögur úr prívatlífinu. Stikkorðin heiti á veiðarfæri, veiðistaður og þyngd. Veiðibækurnar eru nokkrar sem hafa að geyma alla laxa sem Jóhannes veiddi frá upphafi fram á miðjan níunda áratuginn. Fyrsta flugulaxinn úr Laxá í Aðaldal dró hann úr Skriðuflúð - 10 punda hrygnu.

- Ég man eftir honum, segir hann. Ég veiddi hann á Black Doctor. Nei, bíddu við... Þetta er alveg að koma... Stjáni á Hólmavaði var með mér... Þetta var á Sweep einkrækju númer 1. Stjáni var að koma neðan úr Oddahyl og laxinn hafði verið að elta hjá mér. Ég ætlaði að kalla til hans: Helvítið ætlar ekki að taka, en náði aðeins að segja: He... Þá kom hann upp og þreif fluguna.

- Þá varð ekki aftur snúið.

- Ekki í það skiptið. En maður var alltaf smeykur með einkrækjuna, því að maður missti minnst þriðja hvern lax.

- Er það ekki hluti af sportinu að missa lax?

- Jú, jú, en það er misjafnlega gaman að missa þá, svarar Jóhannes, tregi í röddinni.

Og það hafa ekki margir sett í lax í beinni útsendingu.

- Ég setti í þriðja kasti, segir Jóhannes glaðbeittur. Örn Ingi fékk mig til að fara með sér að ánni þegar haldin var hátíð í landi Laxamýrar til að heiðra minningu Jóhanns Sigurjónssonar. Ég sagði það vita vonlaust að setja í lax og taldi mesta von í Brúarhyl, en við höfðum ekki tíma til að fara þangað, svo við fórum í Hólmatagl. Þar veiðast aðeins 10 til 20 laxar á ári og ég hafði tvær mínútur, segir hann og hlær.

Örn Ingi sagði mér að setja út línuna, þannig að það heyrðist í hjólinu. Ég kastaði langt út og í öðru eða þriðja kasti kom á lax. Hann öskraði að þetta væri í beinni. Þetta var sæmilegasti fiskur. Björn á Laxamýri sagði: Jæja Örn, ég gef þér laxinn. Mér gekk sæmilega að þreyta hann, þar til hann brjálaðist, fór í út í miðja á, bylti sér í strengnum og fór af. Þá muldraði Björn: Ja, hver andskotinn. Nú verð ég að fara heim og stela laxi hjá konunni. Því hann var búinn að gefa laxinn.

Það er auðheyrt að Jóhannes hugsar hlýlega til Björns heitins.

- Laxá hefði ekki farið svona illa ef Björn væri á lífi. Hann hefði staðið með mér á móti Orra Vigfússyni, sem hefur engan áhuga á ræktun.

Jóhannes segir ofveiði valda miklu um minnkandi veiði:

- Tæknin er orðin svo mikil; ekkert dýr stenst tæknina og dugnaðinn. Það hafa verið of margar stangir í Laxá, þó að þeim hafi fækkað, og netaveiðin rosaleg. Einu sinni fyrir fjórum fimm árum lá þoka yfir Ósnum. Ég var í Bjarginu á leið upp með Kistukvísl, þá sé ég bát rétt utan við Ósinn, ekki þúsund metra. Hann snýr strax við inn í þokuna. Síðan komu tveir aðrir bátar í kjölfarið og hurfu óðara. Þá voru trillukarlarnir að nýta þokuna og lágu yfir netunum. Ég hef lent í því að fá fjóra stóra laxa, frá 13 og upp í 15 pund, og þrír voru með netaförum, þar af tveir stórskaðaðir. Ég hef reynt að vekja athygli á þessu, en það er eins og mönnum sé sama; það hlustar enginn!

Það er auðheyrt að Laxá rennur um æðar Jóhannesar, enda var hann einn af stofnendum Strauma, stangaveiðifélagsins við Laxá, og formaður þess í 19 ár.

- Það hafði verið gloppótt veiði á sumrin fram að stofnun félagsins, svona 500 til 1.200 laxar. En við létum samt slag standa. Steindór Steindórsson járnsmiður henti gaman að nafngiftinni og sagði meira viðeigandi að kalla félagið Drauma.

En veiðin glæddist og áin varð fræg fyrir stórlaxana, auk stórbrotinnar náttúrufegurðar. Og Jóhannes varð hluti af landslaginu. Einu sinni sleit hann hásin og veiðin átti að hefjast í Laxá daginn eftir, en hann lét það ekki aftra sér.

- Ég var með tvær hækjur, segir hann.

- Og eina veiðistöng?

- Já.

- En bara tvær hendur?

- Já, segir hann og hlær. Ég fór í gifs daginn áður og tók með mér hitablásara til að blása á gifsið því að það var ekki orðið þurrt. Síðan fór ég með tvo kjaftastóla að Kistukvísl, settist á annan við flösina og lagði fótinn á hinn. Svo renndi ég í flösina. Eftir smástund fékk ég ágætis lax. Þá lét ég Lóu hafa stöngina sem baksaði með hann alla leið niður. Hún varð að endurtaka leikinn síðar um morguninn.

En það var ekki alvanalegt af Jóhannesi að rétta öðrum stöngina, hvað þá að gefast upp. Einu sinni fékk hann lax á flugu númer 12 við Eskey en missti hann niður í kvíslina. Eftir nokkra glímu sat laxinn fastur í slýi við stein nálægt bakkanum og ekki vöðlufært.

- Ég klæddi mig úr hverri spjör, var á sokkunum þó, og óð út í ána. Ég beygði mig niður í vatnið með tailer og komst langleiðina undir sporð, þurfti þó að fara með andlitið ofan í til þess að koma honum undir. Og tókst að ná laxinum - 14 punda hrygnu! Ég var síðan að þurrka mér á bakkanum þegar þeir sem veiddu á móti mér komu að. Það voru aðkomumenn. Þeir sáu að ég var allur blautur, líka um hárið, og spurðu hvort ég hefði dottið ofan í. Ég sagði þeim hvað gerðist og sá eldri hváði: Þú segir ekki satt!

Þegar við komum niður stigann bíður Ólafía Jóhannesdóttir eftir okkur, nýkomin heim, og er búin að hella upp á kaffi. Á þetta heimili kemur enginn gestur án þess að vera trakteraður. Og aldrei sést í botninn á bollanum. Halldór Laxness berst í tal og Jóhannes rifjar upp að einu sinni renndi Nóbelsskáldið í hlað.

- Hann átti Volvo og hafði brotið festingu í dempara að aftan. Karlinn hefur verið þjösnari, því bíllinn var nýlegur; hann hefur keyrt jafnhratt yfir allt. Þetta var á sunnudegi og honum var vísað á mig, því að ég var oft að bjarga mönnum í svona tilvikum. Ég sagðist ekki vilja neina greiðslu fyrir, þó að mér væri illa við bækurnar hans. Mér fannst þrátt fyrir allt að hann ætti það skilið. Hann tók því, horfði á mig stórum augum og þakkaði mér kærlega.

Viðmanninnmælt Pétur Blöndal ræðir við Jóhannes Kristjánsson