11. apríl 1976: "Stundum er talað af mikilli léttúð um hið svokallaða almenningsálit og stjórnmálamenn virðist gjarnan vera þeirrar skoðunar, að almenningsálitið í t.d.
11. apríl 1976: "Stundum er talað af mikilli léttúð um hið svokallaða almenningsálit og stjórnmálamenn virðist gjarnan vera þeirrar skoðunar, að almenningsálitið í t.d. landhelgismálinu kalli á stóraukinn stríðsrekstur af okkar hálfu, enga samninga og jafnvel enn róttækari aðgerðir, svo sem úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu, lokun varnarstöðvarinnar o.s.frv. Það "almenningsálit", af þessu tagi, sem ýmsir stjórnmálamenn virðast vera hræddir við, er í raun búið til af fámennum hópum, sem taka sér fyrir hendur að tala í nafni fjölmennra félagasamtaka, en ályktanir slíkra smáhópa eru svo látnar dynja í fjölmiðlum og eiga að heita "almenningsálit".

Morgunblaðið skal ekkert fullyrða um það, hvort einhver ein stefna í meðferð landhelgismálsins nýtur meiri almannahylli en önnur. Almenningsálitið er breytilegt og ef landsstjórnin ætti að hlaupa eftir öllum sveiflum í því væri lítil skynsemi í henni."

13. apríl 1986: "Efnahagskerfið og hefðbundin samningagerð hafa ekki, eftir að verðbólgan heltók hagkerfið, fært okkur miklar kjarabætur."

Það er Þröstur Ólafsson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, sem þannig kemst að orði um kjaraþróun síðastliðins áratugar og fram til síðustu samninga. "Langvarandi jafnvægisleysi, óstjórn og röng fjárfestingarstefna, ásamt óðaverðbólgu, var langt komin með að eyðileggja hagkerfið og þar með grundvöll lífskjaranna."

Það er fróðlegt að hyggja að þessum orðum, m.a. í ljósi nýgerðra kjarasamninga milli bæjarstjórnar Bolungarvíkur og Verkalýðs- og sjómannafélags þar á staðnum."

1 4. apríl 1996 : "Fyrir nokkrum dögum var frá því skýrt, að bandarískur rithöfundur hefði lagt til að heimskunnur kvikmyndagerðarmaður þar í landi yrði lögsóttur vegna kvikmyndar, sem hann hefur gert og er talin hafa ýtt undir manndráp. Rithöfundurinn setti þessa tillögu fram eftir að náinn vinur hans hafði verið myrtur og rannsókn morðsins leiddi til þeirrar niðurstöðu, að það hefði verið framið í kjölfar þess, að morðinginn hefði horft á umrædda kvikmynd aftur og aftur.

Á undanförnum misserum hafa bandarískir stjórnmálaleiðtogar hvað eftir annað beint orðum sínum til kvikmyndaframleiðenda í Hollywood og hvatt þá til þess að draga úr ofbeldi í kvikmyndum.

Eftir hin hryllilegu dráp á skólabörnum í Dunblane fyrir nokkrum vikum hófust miklar umræður í Bretlandi um það, hvort hægt væri að beita ritskoðun á sjónvarpsefni á heimilum með nýrri tækni, þannig að foreldrar gætu einfaldlega komið í veg fyrir, að ung börn hefðu beinan aðgang að ofbeldismyndum."