Svavar Eiríksson fæddist á Akureyri 12. febrúar 1939. Hann lést eftir skammvinn veikindi á heimili sínu að kvöldi 24. mars síðastliðins og var útför hans gerð frá Akureyrarkirkju 3. apríl.

Það var föstudaginn 21. marz sl. að síminn hringdi og Rósfríður vinkona okkar sagði að Svavar væri dáinn. Við hjónin vorum stödd á erlendri grund en Rósfríður var heima á Akureyri. Eftir að símtalinu lauk var eins og kæmi tómarúm í lífið.

Svavar Eiríksson hóf störf hjá Prentverki Odds Björnssonar sem afleysingarmaður árið 1964, en þá var hann við nám í Háskóla Íslands.

Eftir tvær sumarafleysingar í P.O.B. urðum við sammála um að hann kæmi sem skrifstofumaður í fullu starfi og sú ákvörðun hélzt óslitið til 1993.

Svavar var einstakur starfsmaður. Hann var bráðvel gefinn, fróður og mjög vel lesinn hvort sem um var að ræða íslenzkar bókmenntir eða erlendar.

Í tæp 30 ár sátum við saman á sömu skrifstofunni. Þar þurfti að leysa vandamál í daglegum rekstri, en starfsfólk var um og yfir 40 manns.

Aldrei man ég eftir því að við höfum brýnt röddina, við einfaldlega leystum málin í friði og ró.

Svavar var mikill lánsmaður í einkalífi sínu og var það ekki sízt að þakka eiginkonu hans, Birnu Sigurbjörnsdóttur hjúkrunarfræðingi. Þau voru samstillt í að skapa börnum sínum gott heimili og menntun. Svavar og Birna nutu þess að ferðast og kanna nýjar slóðir. Voru það ófáir staðir, sem þau höfðu heimsótt.

Eftir að vinnustaður okkar leystist upp fór Svavar að vinna hjá Vegagerð ríkisins.

Vinaböndin úr P.O.B. slitnuðu ekki og við fórum að hittast á heimilum okkar á Akureyri.

Hópurinn var ekki stór. Það voru Birna og Svavar, Rósfríður og Magnús og við Inga. Þetta voru ánægjulegar kvöldstundir. Nokkrum sinnum hittumst við á Kanaríeyjum, en þar áttum við uppáhalds matsölustað.

En nú er komið skarð í hópinn sem ekki verður fyllt. Við Inga þökkum Svavari samverustundirnar, vottum Birnu og börnum þeirra, svo og fjölskyldum samúð okkar.

Gunnar.